Félagsþjónusta Múlaþings býður upp á námskeið fyrir foreldra sem eru að hugsa um að skilja, eru í skilnaðarferli eða hafa skilið fyrir einhverju síðan og vilja huga vel að eða bæta samvinnuna um börnin.
Samvinna eftir skilnað er gagnreynt námsefni sem unnið er að danskri fyrirmynd. Markmið þess er að efla foreldra sem einhverra hluta vegna búa ekki saman, í samstarfinu í kringum börnin. Jafnframt er markmiðið að efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál, forsjár- og umgengnismál hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.
Með því að veita þjónustu og ráðgjöf á fyrri stigum hjá félagsþjónustu standa vonir til þess að hægt verði að bæta lífsgæði fólks og barna þeirra sem skilja, sem og að draga úr líkum á ágreiningi á milli foreldra.
Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og er opið öllum íbúum þjónustusvæðis félagsþjónustunnar en hún þjónar að auki Fljótsdalshreppi og Vopnafirði.
Námskeiðið verður haldið á Egilsstöðum dagana 10., 16. og 23. mars klukkan 17 til 19. Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar. Staðsetning námskeiðsins verður gefin upp síðar.
Frekari upplýsingar um verkefnið er hægt að fá á netvangnum samvinnaeftirskilnad.is eða með því að senda fyrirspurn til Guðrúnar Helgu Elvarsdóttur, verkefnisstjóra, með tölvupósti á g.helga.elvarsdottir@mulathing.is
Skráning á námskeiðið fer einnig fram hjá verkefnisstjóra í gegnum fyrrgreint netfang.