Egilsstaðir og nágrenni
18. ágú 2025 - 20. sep 2025
Þann 18. ágúst hefst afar spennandi námskeið á vegum Náttúruskólans þar sem aðferðum list- og náttúrumeðferðar er beitt til að auka seiglu, sjálfstraust, samvinnu, sköpunargleði og sjálfstæði barna með sérþarfir.
Námskeiðið nýtur stuðnings frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu og er sérstaklega ætlað börnum 8-12 ára, sem af einhverjum sökum þurfa aukinn stuðning til tómstundaþátttöku.
Námskeiðið fer fram á tímabilinu 18. ágúst- 20. september og samanstendur annars vegar af skapandi myndlistar- og náttúrutímum á mánudögum kl 16:30-18:00 (18. og 25. ágúst, 1, 8., og 15. september) í nágrenni Egilsstaða og tveimur lengri dögum sem helgaðir verða skapandi útivistarævintýrum laugardagana 30. ágúst - Skapandi skógarferð í Hallormsstaðaskóg og 20. september - Uppskeruferð og hestaævintýri á Geirastöðum í Hróarstungu.
Íris Lind Sævarsdóttir myndlistarkennari, listmeðferðarfræðingur og jógakennari
Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi með sérhæfingu í náttúrumeðferð og reynslunámi, fjallaleiðsögukona, útivistarþjálfari, landvörður og jógakennari.
Sæunn Sigvaldadóttir þroskaþjálfi, kennari og býflugnabóndi.
Auk þess verður aðstoðarfólk til stuðnings eftir þörfum.
Námskeiðið er sem fyrr segir styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu og þátttakendur greiða því eingöngu 5000 kr staðfestingargjald við skráningu. Innifalið er öll kennsla, efniskostnaður og rútuferð í Geirastaði.
Skráning fer fram á heimasíðu Náttúruskólans, nattururskolinn.is