Fara í efni

Tónlistarstundir V

Vallaneskirkja 6. júlí 2025 kl. 20:00-21:00
Tríó Öræfi, skipað þeim Sóleyju Þrastardóttur flautuleikara, Þórunni Harðardóttur víóluleikara og Ásdísi Arnardóttur sellóleikara, heldur síðustu tónleika raðarinnar í sumar. Vallaneskirkju hentar sérlega vel strengjahljóðfærum og það verður áhugavert að heyra tríóið leika tónlist fyrir þessa hljóðfærasamsetningu. Meðal annars munu þær frumflytja nýtt verk eftir Báru Sigurjónsdóttur, sérstaklega samið fyrir þessa tónleika.
 
Kammerhópurinn Öræfi var stofnaður árið 2025 og heldur sína fyrstu tónleika með fimm ólíkum tónverkum sem þó eiga fjölmargt sameiginlegt. Samsetning kammerhópsins er mjög óvenjuleg og hljóðfærin harla ólík, sem vafalaust er ein af ástæðum þess að ekki hafa mörg tónverk verið samin með þessari skipan. Öll verkin sem verða flutt eru því nokkuð sérstök og tónskáldin leyfa sér að fara ótroðnar slóðir í að kanna nýjan hljóðheim. Tónverkin eru þó með nokkuð klassískri nálgun og uppbyggingu, en klárlega fá hljóðfærin að njóta sín hvert og eitt innan þeirra.
Tríóið Öræfi er ákaflega stolt af því að fá að frumflytja verk Báru Sigurjónsdóttur “Leiðin að settu marki?”, en verkið er hluti af stærri heild sem tónskáldið hefur unnið að síðustu misseri. Tónskáldasjóður RÚV og STEFs veitti styrk vegna verksins.
 
Efnisskrá:
François Devienne (1759-1803) - Tríó nr. 2 fyrir flautu, víólu og selló
György Kósa (1897-1984) - Tríó fyrir flautu, víólu og selló
Heitor Villa-Lobos (1887-1959) - Assobio a játo (Þotuþytur)
Bára Sigurjónsdóttir (1979) - Leiðin að settu marki?
Albert Roussel (1869-1937) - Tríó fyrir flautu, víólu og selló op. 40
 
Asparhúsið er opið fram að tónleikum og tilvalið að fá sér hressingu þar fyrir tónleikana.
 
Tónleikaröðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Múlaþingi og Tónlistarsjóði.
 
Aðgangur er ókeypis
Getum við bætt efni þessarar síðu?