Fara í efni

Reglur um notkun á byggðamerki Múlaþings

1. grein - Útlit skjaldarmerkisins

Byggðamerki Múlaþings er sett fram í fjórskiptum skildi með sterkum, einföldum, táknrænum línum. Einn fjórðungur merkisins eru útlínur Múlakolls sem er fremsti hluti Þingmúla sem var einn helsti samkonu- og þingstaður Austfirðinga til forna og eru Múlasýslurnar nefndar eftir honum. Þar liggja og rætur nafns hins nýja sveitafélags. Annar fjórðungur táknmálsins er eins konar framtíðartákn hins óborna, endurnýjunar og hringrásar. Horft er til dagsbrúnar frá Héraðsflóa og Borgarfirði eystri í áttina þaðan sem sólin rís. Þriðji fjórðungurinn er horn hreindýrsins sem tákna mikilfengleika og tign, greind og útsjónarsemi. Það undirstrikar sérstöðu svæðisins. Það fjórða eru svo tindarnir, útverðirnir, hinir tignarlegu fjallgarðar Austurlands, útlínur Búlandstinds, gætu allt eins verið með góðum vilja hinn heilagi Strandatindur.

2. grein - Litir merkisins

Litagildi fyrir prent

Blár – C 100, M 90, Y 30, K 10 – Pantone 294
Grænn – C 80, M 0, Y 100, K 0 – Pantone 354
Gulur – C 0, M 0, Y 100, K 0 – Pantone 803

Litagildi fyrir skjá

Blár - #253A72 – R37, G58, B114
Gulur - #0DB04B – R13, G176, B75
Grænn - #FCEE1D – R252,G238, B29

3. grein - Letur merkisins

Með byggðamerki sveitarfélagsins er notuð leturgerðin Gotham í nafni sveitarfélagsins. Nota skal merkið með áföstu nafni þegar við á. Heiti embættis, deildar og stofnunar er skrifað með Gotham (eða Arial sé leturgerðin Gotham ekki til) þegar þetta er notað með merkinu og skal þá vera fyrir neðan nafn sveitarfélagsins með minna letri. Byggðamerkið skal annað hvort staðsett fyrir framan nafn sveitarfélagsins eða miðjað með nafninu.

Stærðarhlutföll leturs og byggðamerkis hafa verið fastsett sbr. hönnunarstaðal í fylgiskjali.

       

4. grein - Notkun skjaldarmerkisins með öðrum merkjum

Byggðamerki Múlaþings má ekki fella inn í önnur merki, tákn eða letur. Þegar merkið stendur með öðru merki skal fjarlægð frá því að lágmarki vera sem nemur helmingi af breidd skjaldar.

5. grein - Notkun merkisins

Sveitarstjóri, sveitarstjórnarfulltrúar og stofnanir sveitarfélagsins noti merkið á bréfum, nafnspjöldum, í útgáfum, auglýsingum og til að auðkenna starfsemi sveitarfélagsins.

5.1  Bréfsefni og nafnspjöld

Á bréfsefni verði byggðamerki sveitarfélagsins efst í hægra horni. Nafn, heimilisfang, símanúmer, net- og veffang verði neðst í hægra horni. Óski stofnanir eftir að nota eigin merki á bréfsefni Múlaþings ber að staðsetja það efst í vinstra horni og skal það vera innan reits sem er að hámarki jafnt byggðamerkinu á hæð.

Hið sama gildir um nafnspjöld kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins og skal stærð merkis stofnunar vera í sömu hlutföllum og á bréfsefni.

Ef stofnanir óska eftir að hafa mynd af starfsmanni á nafnspjöldum skal hún vera til hægri við merkið. Sjá sýnishorn nafnspjalda Múlaþings í hönnunarstaðli.

5.2 Kynningarefni, auglýsingar og annað útgefið efni

Í öllu kynningarefni, skýrslum og öðru útgefnu efni frá stofnunum sveitarfélagsins á merki sveitarfélagsins að vera áberandi á forsíðu og/eða baksíðu. Leitast skal við að nota byggðamerki sveitarfélagsins. Ekki er gerð krafa um nákvæma staðsetningu merkisins að öðru leyti en því að hönnuðum ber að gæta þess að merkið falli vel að heildarútliti og njóti sín vel.

Nota skal leturgerðina Gotham sem fyrsta kost í kynningarefni og auglýsingar Múlaþings. Annar kostur er leturgerðin Arial.

Merkið er aðgengilegt á vef sveitarfélagsins og hjá Múlaþingi.

5.3 Atvinnuauglýsingar

Í atvinnuauglýsingum skal nota byggðamerki sveitarfélagsins Múlaþings. Leitast skal við að nota sniðmát sveitarfélagsins við gerð auglýsinga. Sjá sýnishorn í hönnunarstaðli.

5.4 Vefsíður

Á vefsíðum stofnana á, með notkun byggðamerkisins, að koma fram með greinilegum hætti að þær tilheyri Múlaþingi. Gert verði ráð fyrir að merki sveitarfélagsins sé staðsett í neðra horni vinstra megin á forsíðu vefsíðunnar. Nafn stofnunar og merki, eigi stofnunin það, verði staðsett efst vinstra megin á forsíðu vefsíðunnar.

5.5 Kynningarglærur

Sveitarstjórnarfulltrúar og starfsfólk noti merki sveitarfélagsins í glærukynningum sem það heldur fyrir hönd sveitarfélagsins. Þeim er heimil notkun á glærugrunnum sem eru aðgengilegir á innri vef sveitarfélagsins auk þess sem finna má rétt stillt power point í tölvum starfsfólks. Ekki er gerð krafa um nákvæma staðsetningu merkisins eða útlit að öðru leyti en því að hönnuðum ber að gæta þess að merkið falli vel að heildarútliti og njóti sín vel.

5.6 Byggingar

Allar byggingar sem hýsa starfsemi sveitarfélagsins eiga að vera merktar með byggðamerki sveitarfélagsins og heiti viðkomandi starfsemi. Merkingar eru á ábyrgð þeirra sem reka fasteignir sveitarfélagsins. Merkingarnar skulu vera á áberandi stað til að auðvelda fólki að finna viðkomandi þjónustu.

5.7 Bifreiðar

Bifreiðar sem eru í notkun á vegum Múlaþings og stofnana sveitarfélagsins skulu merktar með byggðamerki sveitarfélagsins. Merkið skal líma á framhurðir á hvorri hlið bifreiðar, þannig að miðja merkis komi á miðju hurðar. Sjá nánar í hönnunarstaðli í fylgiskjali.

5.8 Fánar

Á fánum er byggðamerki sveitarfélagsins í lit miðjað á hvítum feldi.

5.9 Gjafavara o.fl.

Þegar byggðamerki sveitarfélagsins er notað á gjafavöru sveitarfélagsins og annað sem ekki fellur undir hefðbundið prentefni er óhjákvæmilegt að sveigja frá stífum kröfum um litanotkun. Þó er mælst til þess að litir séu sem líkastir því sem tilgreint er í 2. grein. Lögð er áhersla á að byggðamerkið fái notið sín með smekklegum hætti eftir því sem við á hverju sinni.

6. grein - Önnur notkun merkisins

Öðrum en sveitarstjóra, sveitarstjórnarfulltrúum, starfsmönnum og stofnunum Múlaþings er óheimilt að nota merki sveitarfélagsins, með þeim undantekningum sem hér greinir. Um útlit, liti og letur merkisins gilda sömu reglur og kveðið er á um í grein 1, 2, 3, 4 og 5.2.

6.1 Notkun félagasamtaka

Félög um málefni sveitarfélagsins mega, að fengnu leyfi Múlaþings, nota merki sveitarfélagsins ásamt félagsmerki sínu eða greinilegu auðkenni. Sama gildir um félög starfsmanna sveitarfélagsins.

Múlaþing getur, hvenær sem er, krafist þess að merki sveitarfélagsins sé afmáð úr slíku félagsmerki, ef notkun þess kastar rýrð á byggðamerkið sjálft eða þykir óheppileg á annan hátt.

Félögum sem koma fram sem félög í Múlaþingi í keppni er heimilt að nota merkið til auðkenningar.

6.2 Notkun á söluvarningi

Óski einstaklingar eða fyrirtæki að framleiða varning með merkinu eða merkið sjálft í einhverju formi og hafa til sölu þarf til þess leyfi Múlaþings hverju sinni. Óheimilt er að nota merkið sem hluta af firmamerki eða vörumerki. Stjórnmálaflokkum er ekki heimilt að nota merkið og óheimilt er með öllu að nota það til stjórnmálaáróðurs.

6.3 Umsóknir um notkun

Umsókn til Múlaþings um leyfi til þess að nota byggðamerki sveitarfélagsins skulu fylgja a.m.k. tvö sýnishorn eða uppdrættir af merkinu eins og á að nota það.

Samþykkt af byggðaráði Múlaþings 18. maí 2021.

Síðast uppfært 31. janúar 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?