Fara í efni

Reglur um samskipti skóla í Múlaþingi við trúar- og lífsskoðunarfélög

 

1. grein

Leggja ber áherslu á mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu í fjölmenningarsamfélagi.

Þættir í slíkri fræðslu geta verið vettvangsheimsóknir til trúfélaga og að fulltrúum þeirra sé boðið í kennslustund til að fræða um trú sína og trúfélag.

Mikilvægt er að fræðsla þessi og heimsóknir séu gerðar á vegum skólans og í þeim tilgangi að fræða nemendur um tiltekin trúarbrögð, inntak þeirra, helgidóma og siði en feli ekki í sér innrætingu tiltekinna trúarskoðana eða tilbeiðslu.

Vettvangsheimsóknir til trúfélaga og heimsóknir fulltrúa þeirra í skóla skulu taka mið af ofangreindu og vera innan ramma aðalnámskrár leik-, grunn- og tónlistarskóla.

2. grein

Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar teljast hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar.

Gæta þarf þess að foreldrar og skólaráð séu upplýstir tímanlega um námstilhögun, námsefni og vettvangsferðir. Sama gildir um leik- og tónlistarskóla þar sem það á við.

3. grein

Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.

Um almenna kynningu eða auglýsingar á starfsemi trúfélaga í skólum skulu gilda sömu reglur og um kynningu annarra félagasamtaka.

 

Viðmið þessi byggja á niðurstöðum starfshóps sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði hinn 4. október 2012 til að gera tillögur um með hvaða hætti skuli staðið að samskiptum skóla og trúfélaga á öllum skólastigum. Starfshópurinn var skipaður hagsmunaaðilum sem tilnefndir voru af Biskupsstofu, Heimili og skóla, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siðmennt auk fulltrúa ráðuneytisins.

 

Reglur þessar voru samþykktar í fjölskylduráði Múlaþings 21. nóvember 2023.

Síðast uppfært 27. nóvember 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?