Fara í efni

Reglur um tómstundaframlag fyrir börn og ungmenni í Múlaþingi

Múlaþing leitast við að styðja við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna á aldrinum 4 -18 ára, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, með tómstundaframlagi að upphæð 30.000 krónur á árinu 2023. Athugið að miðað er við fæðingardag en ekki fæðingarár.

Markmið framlagsins er að hvetja börn og ungmenni til taka þátt í skipulögðu og heilbrigðu íþrótta- og tómstundastarfi við sitt hæfi, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Til skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs telst það starf sem nær yfir samtals 10 vikur að lágmarki og er undir leiðsögn hæfra þjálfara/starfsfólks/kennara, á vegum viðurkenndra félaga, fyrirtækja, skóla eða annarra stofnana sem reka slíka starfsemi í sveitarfélaginu.
Undir það falla t.d. íþróttir, listir, tónlistarnám og námskeið eða starf á vegum annarra tómstundafélaga.

Tómstundaframlagið gildir ekki sem greiðsla fyrir aðbúnað, ferðalög eða annan tilfallandi kostnað vegna keppni eða þjálfunar. Þá gildir framlagið ekki sem greiðsla fyrir kostnaði vegna íþrótta á eigin vegum, svo sem í tækjasal eða sundlaug, þar sem ekki er um skipulagt starf að ræða.

Fyrir 16-18 ára ungmenni getur tómstundaframlagið nýst til kaupa á korti í líkamsræktarstöð og/eða sundlaug. Verða slík kaup að fara í gegnum sama ferli og þegar um er að ræða skráningu í tómstundastarf, í gegnum Sportabler.

Ekki er um beingreiðslur að ræða, heldur hafa foreldrar og forráðafólk rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum.

  • Forráðafólk skráir iðkendur í íþróttir og tómstundir í gegnum Sportabler kerfi.
  • Í skráningarferlingu, þar sem er m.a. gengið frá greiðslu námskeiðs, er hægt að velja að ráðstafa tómstundaframlagi iðkanda hjá viðkomandi félagi/deild/fyrirtæki rafrænt.
  • Ekki er hægt að ráðstafa hærri upphæð en námskeiðið kostar. Ef upphæð námskeiðs er hærri en ráðstöfunin er mismunur greiddur til félagsins af forráðafólki.
  • Þegar þátttaka barns er staðfest fær viðkomandi félag/deild/fyrirtæki og Múlaþing staðfestingu þar um.
  • Múlaþing greiðir tómstundaframlagið til viðkomandi íþróttafélags/deildar/fyrirtækis.
  • Í kvittun til þátttakenda um námskeiðskostnað skal félag tilgreina hlut sveitarfélagsins í greiðslu vegna námskeiðsgjalds.
  • Er það á ábyrgð forráðafólks að ráðstafa framlaginu í skráningarferlinu og ekki er hægt að gera það eftir á.
  • Ónýtt tómstundaframlag flyst ekki/geymist ekki á milli ára.

Undanþegin þessum reglum eru börn með lögheimili og búsetu á Borgarfirði eystra, en þau hljóta að auki sérstakan styrk frá sveitarfélaginu vegna kostnaðar vegna íþrótta- og tómstunda og ferða þeirra vegna. Um er að ræða 200.000 krónur á ári fyrir hvert barn í grunnskóla og 100.000 krónur á ári fyrir hvert barn í leikskóla.

Ágreiningi vegna afgreiðslu tómstundaframlags má skjóta til fjölskylduráðs sem sker úr um málið. Tómstundaframlag til barna og unglinga er í umsjón íþrótta- og æskulýðsstjóra sem veitir nánari upplýsingar.

Tómstundaframlag skal endurskoðað árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.

Samþykkt í fjölskylduráði 6. desember 2023

Síðast uppfært 02. janúar 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?