reglurnar á pdf
1. gr. Hlutverk
Byggðaráð Múlaþings auglýsir styrki til menningarstarfs og úthlutar þeim samkvæmt reglum þessum. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarlíf í Múlaþingi.
Framlag til úthlutunar er ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar Múlaþings.
Byggðaráð Múlaþings veitir menningarstyrki til einstaklinga, hópa, félagssamtaka, fyrirtækja og stofnana til lista- og menningarverkefna. Byggðaráð getur ákveðið sérstakar áherslur við styrkúthlutun hverju sinni og verða þær þá að koma fram í auglýsingu.
2. gr. Styrkúthlutanir
Byggðaráð Múlaþings auglýsir styrki til lista- og menningarverkefna tvisvar sinnum á ári. Fyrri úthlutun skal auglýst í nóvembermánuði ár hvert með úthlutun eigi síðar en í lok janúar. Seinni úthlutun skal auglýst í ágústmánuði ár hvert með úthlutun eigi síðar en í lok september. Umsóknarfrestur skal að lágmarki vera 3 vikur.
Í fyrri úthlutun er úthlutað 80% af heildarúthlutunarfé hvers árs og í seinni úthlutun er úthlutað 20% af heildarúthlutunarfé hvers árs.
Faghópur fer yfir og metur umsóknir og leggur niðurstöður sínar fyrir byggðaráð til samþykktar. Faghópurinn er skipaður deildarstjóra menningarmála, aðila úr byggðaráði og aðila úr fjölskylduráði. Meðlimur faghóps telst vanhæfur ef hann tengist verkefni eða umsækjanda. Sé meðlimur vanhæfur metur hann ekki viðkomandi umsókn og víkur af fundi á meðan fjallað er um hana.
Deildarstjóri menningarmála annast alla umsýslu menningarstyrkja og öll samskipti við umsækjendur.
Styrkir eru einungis greiddir út á því ári sem þeir eru veittir og færast ekki á milli ára nema sérstaklega sé um það samið.
Styrkupphæð getur aldrei numið meira en 50% af heildarkostnaði verkefnisins.
Verkefni skal lokið innan árs frá úthlutun.
Heimilt er að krefjast endurgreiðslu styrks hafi hann verið greiddur en ekki orðið af verkefninu innan tilskilins tíma.
3. gr. Styrkumsóknir
Sótt skal um styrki til menningarverkefna á þar til gerðu eyðublaði þar sem m.a. eftirfarandi kemur fram:
- lýsing á verkefninu og gildi þess fyrir menningarlífið í Múlaþingi
- verk- og tímaáætlun um framkvæmd þess
- fjárhagsáætlun verkefnisins og fjármögnun þess
- upphæð sem sótt er um
Ekki er styrkt til reksturs, náms eða viðhalds á húsnæði.
Í einstaka tilvikum getur sveitarfélagið gert langtíma samninga við einstaklinga, menningarstofnanir, félög og listahópa sem sannað hafa gildi sitt í menningarlífi í Múlaþingi eða geta með skýrum hætti sýnt fram á gildi starfs síns. Langtímasamningar verði gerðir vegna verkefna eða viðburða.
4. gr. Mat á umsóknum
Við mat á umsóknum er horft til eftirfarandi þátta:
- Hversu skýrar og greinagóðar lýsingar á verkefni, markmiðum þess og afrakstri eru.
- Hversu raunhæf verk- og tímaáætlun er og hversu líklegt er að verkið verði framkvæmt.
- Hversu raunhæf fjárhagsáætlun er.
- Tengsla verkefnisins við Múlaþing.
- Þekkingar, reynslu og hæfni umsækjanda.
- Áhrifa verkefnis á samfélagið.
- Listræns og menningarlegs gildis.
Ef styrkhafi hefur fengið menningarstyrk áður er gerð krafa um að lokaskýrslu fyrri verkefna hafi verið skilað eða deildarstjóri menningarmála upplýstur um stöðu fyrri verkefna sé þeim ekki lokið.
Umsækjendur um menningarstyrk geta ekki fengið úthlutað menningarstyrk tvisvar í röð fyrir sama verkefni.
Byggðaráð Múlaþings áskilur sér rétt til að hafna umsóknum. Samkvæmt 21. grein stjórnsýslulaga þarf ekki að rökstyðja ákvörðun um úthlutun styrkja á sviði lista og menningar.
5. gr. Ábyrgð styrkþega
Múlaþing og styrkþegi gera með sér samning sem meðal annars kveður á um fyrirkomulag greiðslu styrks, lokaskýrslu og eftirfylgni.
Styrkþegi ber ábyrgð á að afla tilskilinna leyfa vegna verkefnisins ef við á.
Skila skal lokaskýrslu í síðasta lagi einum mánuði eftir að verkefni er lokið. Jafnframt skal umsækjandi veita byggðaráði og/eða deildarstjóra menningarmála upplýsingar um gang verkefnis sé þess óskað.
Við auglýsingu á viðburði skal styrkþegi láta styrkveitingu Múlaþings koma fram.
Samþykkt af byggðaráði Múlaþings 4. nóvember 2025