Fara í efni

Stefna um þjónustustig í byggðum Múlaþings

pdf útgáfa af stefnunni

Inngangur

Stefna þessi er gerð með tilvísun til 130. a greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem ber heitið Stefna um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags, en þar segir:

Samhliða fjárhagsáætlun, sbr. 62. gr., skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum viðkomandi sveitarfélags.

Í greinargerð með frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, frá 151. löggjafarþingi (2020-2021), er vísað til þess að með fækkun sveitarfélaga hafi orðið til víðáttumikil sveitarfélög með „fáum og stórum byggðakjörnum en viðkvæmari byggð á öðrum svæðum“ innan sveitarfélaga. Þessar aðstæður kalli á stefnu varðandi þjónustustig sveitarfélaga. Stefnan þurfi að vera skýr og sveitarstjórn að móta hana með „sérstöku samráði“ við íbúa, „t.d. með opnu umsagnarferli“.

Við gerð stefnu um þjónustustig sveitarfélaga þarf að hafa í huga lögskyld og lögheimil verkefni samkvæmt yfirliti Stjórnarráðsins, sem gefið er út með vísan til 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Verkefni eru lögskyld ef sveitarfélögum er skylt að rækja þau. Lögheimil felast í því að sveitarfélag hefur svigrúm til þess að ákveða hvort verkefninu er sinnt, en ef sú ákvörðun er tekin gildir um verkefnið tiltekinn lagarammi. Einnig þarf að hafa í huga verkefni sem sveitarfélög velja að setja á dagskrá t.d. til að gera sveitarfélagið eftirsóknarverðan kost, sem eru þá valkvæð verkefni.

Í þessari fyrstu stefnu um þjónustustig í byggðum Múlaþings er athyglinni beint að „byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum“, þ.e. á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði. Þannig voru við undirbúning hennar eingöngu haldnir íbúafundir á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og Seyðisfirði. Engu að síður er fyrirkomulagi þjónustunnar lýst í stuttu máli í öllum byggðarkjörnunum fjórum og er það þá m.a. gert af því þjónusta sveitarfélagsins er í mörgum tilfellum veitt á eða frá skrifstofunni á Egilsstöðum en einnig til að gera samanburð á þjónustunni, milli kjarnanna, auðveldari.

Heimastjórnum Múlaþings var, í kjölfar íbúafundanna, gefinn kostur á að gefa umsagnir eða gera athugasemdir við stefnudrögin en byggðaráð, fjölskylduráð og umhverfis- og framkvæmdaráð fengu hana síðan til frekari úrvinnslu.

Heimastjórnirnar fjórar í Múlaþingi gegna mikilvægu hlutverki í hverjum kjarna fyrir sig þegar kemur að þjónustu við íbúana og undirbúningi og ákvörðun um einstök verkefni.

Múlaþing er þjónustuaðili sem leggur áherslu á að veita íbúum sveitarfélagsins aðgengilega, fjölbreytta og góða þjónustu. Stærstur hluti starfsemi sveitarfélagsins felst í að veita þjónustu með einum eða öðrum hætti. Lögð er áhersla á að þjónustan sé aðgengileg og taki mið af notendum hverju sinni. Leitast er við að veita þjónustuna á staðnum, í síma, með tölvusamskiptum og stafrænum hætti eða í gegnum fjarfundabúnað.

Starfsfólk Múlaþings hefur eftirfarandi til hliðsjónar í störfum sínum:

  • Taka hlýlega og af virðingu á móti viðskiptavinum
  • Sinna viðskiptavinum fljótt og vel
  • Vinna saman og vísa engum erindum frá
  • Gæta trúnaðar við viðskiptavini
  • Leita lausna og leiða í þágu viðskiptavina
  • Taka við ábendingum og kvörtunum viðskiptavina
  • Bera virðingu fyrir ásýnd sveitarfélagsins og umhverfi

Stefna þessi um þjónustustig í byggðum Múlaþings á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og Seyðisfirði var samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 15. janúar 2025.


Lögskyld verkefni

Í þessum kafla eru sett fram lögskyld verkefni sveitarfélagsins og hvernig þeim er háttað á hverjum stað fyrir sig.

Félagsmál


Barnaverndarmál

Múlaþing, Vopnafjarðarhreppur og Fljótsdalshreppur reka sameiginlega barnaverndarþjónustu skv. samningi þar að lútandi þar sem Múlaþing er leiðandi sveitarfélag.

Starfsfólk barnaverndarþjónustu Múlaþings er með starfsstöð á Egilsstöðum en fer á aðra staði sveitarfélagsins með reglubundnum hætti og eftir þörfum s.s. í leik- og grunnskóla og á heimili. Bakvakt barnaverndar bregst við neyðartilfellum alls staðar í sveitarfélaginu sem og á Vopnafirði og Fljótsdalshreppi.


Félagsþjónusta sveitarfélaga

Múlaþing, Vopnafjarðarhreppur og Fljótsdalshreppur reka sameiginlega félagsþjónustu skv. samningi þar að lútandi þar sem Múlaþing er leiðandi sveitarfélag.


Félagsleg ráðgjöf

Starfsfólk félagsþjónustu er með starfsstöð á Egilsstöðum en fer á aðra staði sveitarfélagsins eða heimili fólks eftir þörfum. Hægt er að sækja um þjónustuna í síma eða með tölvupósti.


Fjárhagsaðstoð

Starfsfólk félagsþjónustu er með starfsstöð á skrifstofunni á Egilsstöðum. Sótt er um fjárhagsaðstoð á Mínum síðum en einnig hægt að fá aðstoð við gerð umsókna á skrifstofum sveitarfélagsins. Viðtöl við skjólstæðing er m.a. forsenda veitingu fjárhagsaðstoðar og starfsfólk fer á aðra staði sveitarfélagsins eða heimili fólks eftir þörfum.


Málefni aldraðra

Starfsfólk félagsþjónustu í málefnum aldraðra er með starfsstöð á Egilsstöðum. Sótt er um þjónustu fyrir eldri borgara á Mínum síðum, með tölvupósti eða í síma. Félög eldri borgara í Múlaþingi þiggja árlegan styrk frá sveitarfélaginu.

Fljótsdalshérað

Hlymsdalir, félagsmiðstöð eldri borgara sem og dagdvöl aldraðra.

Borgarfjörður

Ekki er starfsemi á Borgarfirði á vegum sveitarfélagsins en félag eldri borgara á Borgarfirði á eigin félagsmiðstöð.

Djúpivogur

Tryggvabúð, félagsmiðstöð eldri borgara sem og dagdvöl aldraðra.

Seyðisfjörður

Öldutún, félagsmiðstöð eldri borgara.

Áherslur 2025

Sótt verður um aukningu á dagdvalarrýmum, án staðsetningar, til ráðuneytis.


Málefni fatlaðs fólks

Starfsfólk félagsþjónustu er með starfsstöð á Egilsstöðum en fer á aðra staði sveitarfélagsins eða heimili fólks eftir þörfum. Hægt er að sækja um þjónustuna á Mínum síðum, í síma eða með tölvupósti.

Fljótsdalshérað

Búsetukjarnar með sólarhringsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eru starfræktir á Egilsstöðum.

Stólpi - hæfing/iðja fyrir fatlað fólk er á Egilsstöðum.

Akstursþjónusta fatlaðs fólks er veitt á Egilsstöðum, á dagvinnutíma.


Stuðningsþjónusta

Stuðningsþjónusta er veitt í öllum byggðarkjörnum en stýrt frá skrifstofu á Egilsstöðum. Sérfræðingur fer á heimili umsækjanda til að meta þörf fyrir þjónustu og tekur á móti umsóknum í gegnum Mínar síður, tölvupóst eða síma. Ávallt er veitt aðstoð við umsókn ef þörf er á. Starfsfólk stuðningsþjónustu er staðsett í hverjum byggðarkjarna fyrir sig. Einnig er nýtt þjónusta hreingerningafyrirtækja.


Túlkaþjónusta og málstefna

Enginn samningur er í gildi en hægt að panta túlkaþjónustu eftir þörfum. Bæði er leitað til túlka á staðnum eða annarrar túlkaþjónustu í gegnum net eða síma. Símatúlkun orðin meira notuð heldur en staðtúlkun eftir að móttaka flóttamanna hófst.

Áherslur fyrir 2025

Lokið verður við gerð málstefnu fyrir Múlaþing á árinu.


Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Málstjórar farsældarþjónustu/Austurlandslíkans eru með starfsstöð á Egilsstöðum en fara reglulega á hina byggðarkjarnana og eftir þörfum. Tengiliðir farsældarþjónustu eru í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, sem og í ytri stofnunum sem ekki eru á vegum sveitarfélags, s.s. framhaldsskólum og heilsugæslu. Upplýsingar um innleiðingu farsældar sem og tengiliði má finna á heimasíðum Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps. Ósk um þjónustu fer í gegnum tengiliði og/eða málstjóra.

Áherslur fyrir 2025

Innleiðing á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verður haldið áfram.

Áherslur fyrir 2026-2028

Innleiðing á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verður haldið áfram.


Húsnæðismál

Sveitarstjórn styðst við húsnæðisáætlun Múlaþings sem er í árlegri endurskoðun. Íbúar sveitarfélagsins geta sótt um félagslegt húsnæði þar sem það er og fer úthlutun samkvæmt reglum og viðmiðum þar um. Aukning er að verða á leiguíbúðum í leigufélögum og sveitarfélagið tekur þátt í uppbyggingu íbúða m.a. með stofnstyrkjum.

Fljótsdalshérað

Félagslegar íbúðir eru í boði auk íbúða hjá leigufélögum og leiguíbúðir sérstaklega ætlaðar eldri íbúum.

Borgarfjörður

Félagslegar íbúðir auk almennra íbúða í eigu sveitarfélagsins eru í boði til leigu.

Djúpivogur

Ein leiguíbúð í eigu sveitarfélagsins er í boði.

Seyðisfjörður

Félagslegar íbúðir eru í boði auk íbúða hjá leigufélögum og leiguíbúðir sérstaklega ætlaðar eldri íbúum.

Áherslur fyrir 2025-2028

Vegna íbúða á félagslegum grunni er það stefna sveitarfélagsins að stuðla að byggingu íbúða með stofnframlögum.

Stefnt er að sölu íbúða í eigu sveitarfélagsins og byggingu nýrra íbúða eftir aðstæðum í byggðakjörnunum.

Teknar verða í notkun átta íbúðir á Seyðisfirði, byggðar með stofnframlagi, ætlaðar eldri borgurum og ein íbúðin ætluð fólki með fötlun. Í íbúðasamstæðunni verður einnig félagsaðstaða eldri borgara.

Stefnt er að því að sækja um stofnframlög til húsbygginga í samstarfi við HMS á Egilsstöðum, Fellabæ og Djúpavogi

Áherslur fyrir 2026-2028

Stefnt er að því að sækja um stofnframlag til byggingu parhúss/raðhúss á Borgarfirði.


Húsnæðisáætlanir

Húsnæðisáætlun er í gildi fyrir allt sveitarfélagið og er uppfærð árlega m.t.t. breytinga og þróunar sem orðið hafa á forsendum hennar milli ára. Í gildandi húsnæðisáætlun kemur fram að sveitarfélagið sé virkur þátttakandi á leigumarkaði á Borgarfirði og kemur það til sem mótvægisaðgerð vegna þeirrar stöðu sem ríkt hefur í húsnæðismálum þar á undanförnum árum.

Heimastjórnirnar fjórar í Múlaþingi gera umsögn um drög að húsnæðisáætlun áður en hún er samþykkt.


Sérstakur húsnæðisstuðningur

Starfsfólk félagsþjónustu er með starfsstöð á skrifstofunni á Egilsstöðum. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning á Mínum síðum en einnig er hægt að fá aðstoð við gerð umsókna á skrifstofum sveitarfélagsins.


Fræðslu- og menningarmál


Almenningsbókasöfn

Bókasöfn með starfsfólki eru á Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði.

Fljótsdalshérað

Bókasafnið á Egilsstöðum er almenningsbókasafn staðsett í Safnahúsinu. Það er opið alla virka daga frá kl. 13-18. Safnið er tengt Landskerfi bókasafna, leitir.is

Borgarfjörður

Ekki er bókasafn á Borgarfirði

Djúpivogur

Bókasafnið á Djúpavogi er samsteypusafn sem samanstendur af skólabókasafni og almenningsbókasafni og er staðsett í Djúpavogsskóla. Safnið er opið á veturna á þriðjudögum frá kl. 16-18 og á föstudögum frá kl. 10-11. Safnið er tengt Landskerfi bókasafna, leitir.is

Seyðisfjörður

Bókasafn Seyðisfjarðar er samsteypusafn sem samanstendur af almenningsbókasafni og skólasafni og er staðsett í Seyðisfjarðarskóla. Það þjónar nemendum og starfsfólki Seyðisfjarðarskóla fyrri hluta dags en er opið almenningi á sumrin (júní til ágúst) mánudaga til fimmtudaga frá kl. 13-17 og á veturna mánudaga til föstudaga frá kl. 16 til 18. Safnið er tengt Landskerfi bókasafna, leitir.is

Áherslur fyrir 2025

Unnin verði úttekt á starfsemi bókasafnanna í Múlaþingi þar sem m.a. verði farið yfir þjónustu, aðstöðu og skipulag reksturs þeirra. Jafnframt verði mótaðar tillögur sem hafi það markmið að mæta þörfum og óskum íbúa hvers kjarna vegna þessarar þjónustu.


Grunnskólar

Sex grunnskólar eru í Múlaþingi. Skóla- og frístundaþjónusta sinnir, ráðgjöf og stuðningi við þá. Flest starfsfólk skóla- og frístundaþjónustunnar er staðsett á Egilsstöðum og fer það reglulega í alla skóla og líka eftir þörfum. Einnig kalla þau eftir annarri sérfræðiþjónustu eftir þörfum. Jafnframt þjónustar Skóla- og frístundaþjónustan Fljótsdals- og Vopnafjarðarhrepp.

Fljótsdalshérað

Þrír grunnskólar eru á Fljótsdalshéraði: Brúarásskóli, Egilsstaðaskóli og Fellaskóli. Mötuneyti er starfrækt í Brúarásskóla og Egilsstaðaskóla en Fellaskóli er með mótttökueldhús en maturinn er eldaður í mötuneyti Egilsstaðaskóla. Íþróttahús er við alla skólana en nemendur sækja sundtíma í Sundlaug Egilsstaða. Skólaakstur er fyrir nemendur í dreifbýli.

Borgarfjörður

Einn samrekinn leik- og grunnskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar eystra, er á Borgarfirði og er hann rekinn sem deild frá Fellaskóla. Nemendur grunnskólans fara að jafnaði einn dag í viku í Fellaskóla. Nemendur sækja sundtíma í sundlaug Egilsstaða. Skólaakstur er fyrir nemendur í dreifbýli.

Djúpivogur

Á Djúpavogi er Djúpavogsskóli sem er samrekinn grunn- og tónlistarskóli. Hádegisverður er keyptur af einkaaðila. Skólaakstur er fyrir nemendur í dreifbýli.

Seyðisfjörður

Einn samrekinn leik-, lista- og grunnskóli er á Seyðisfirði, Seyðisfjarðarskóli. Skólinn er í fjórum húsum. Mötuneytið er starfrækt við skólann og sækja nemendur íþrótta- og sundtíma á staðnum.


Leikskólar

Sex leikskólar eru í sveitarfélaginu. Skóla- og frístundaþjónusta sinnir ráðgjöf og stuðningi við leikskólana. Starfsfólk Skóla- og frístundaþjónustu er staðsett á Egilsstöðum og fer það reglulega í alla leikskóla og líka eftir þörfum. Einnig kallar það eftir annarri sérfræðiþjónustu eftir þörfum. Skóla- og frístundaþjónustan heldur utan um daggæsluframlag til foreldra og skráningu barna í leikskólana. Jafnframt þjónustar Skóla- og frístundaþjónustan Fljótsdals- og Vopnafjarðarhrepp.

Fljótsdalshérað

Þrír leikskólar eru á Fljótsdalshéraði; Hádegishöfði í Fellabæ, Tjarnarskógar sem er með tvær starfsstöðvar á Egilsstöðum og leikskólinn í Brúarásskóla sem er samrekinn leik- og grunnskóli. Mötuneyti er starfrækt í Brúarásskóla en Hádegishöfði og Tjarnarskógur eru með móttökueldhús en maturinn er eldaður í mötuneyti Egilsstaðaskóla. Leikskóladeildin í Brúarásskóla hefur sama starfstíma og grunnskólinn.

Borgarfjörður

Einn samrekinn leik- og grunnskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar eystri er rekinn sem deild frá Fellaskóla. Hádegisverður fyrir nemendur og starfsfólk er eldaður af einkaaðila. Leikskóladvöl barna og fæði er foreldrum að kostnaðarlausu.

Djúpivogur

Leikskólinn Bjarkartún er starfræktur á Djúpavogi og er mötuneyti starfrækt í leikskólanum.

Seyðisfjörður

Einn samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli er starfræktur undir nafni Seyðisfjarðarskóla. Leikskóladeildin er í sérhúsnæði með mótttökueldhúsi.


Tónlistarskólar

Fimm tónlistarskólar og/eða tónskóladeildir eru starfræktar í sveitarfélaginu.

Fljótsdalshérað

Á Fljótsdalshéraði eru þrír tónlistarskólar: Tónlistarskólinn á Egilsstöðum, Tónlistarskólinn í Fellabæ og í Brúarási er Tónlistarskóli Norður Héraðs.

Borgarfjörður

Tónlistarskóli Norður Héraðs sinnir tónlistarkennslu á Borgarfirði, nemendum að kostnaðarlausu.

Djúpivogur

Á Djúpavogi er tónlistarskóli samrekinn með Djúpavogsskóla.

Seyðisfjörður

Einn samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli er starfræktur undir nafni Seyðisfjarðarskóla og heyrir tónlistarnám undir listadeild skólans.


Öryggis- og löggæslumál


Almannavarnir (að hluta)

Sveitarstjóri Múlaþings og slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Múlaþings sitja í almannavarnanefnd. Formaður nefndarinnar er lögreglustjórinn á Austurlandi.


Brunavarnir og brunamál þ.á.m. slökkvilið

Slökkvilið Múlaþings starfar fyrir allt sveitarfélagið.

Aðalstarfsstöð Slökkviliðs Múlaþings er á Egilsstöðum en þar eru þrír fastir starfsmenn. Í öllum kjörnum sveitarfélagsins er slökkvistöð með slökkvibíl og öðrum búnaði ásamt útkallssveit.

Áherslur fyrir 2025

Lokið verður við breytingar á slökkvistöðinni á Djúpavogi.

Lokið verður við að endurnýja körfubifreið á Egilsstöðum.

Áherslur fyrir 2026-2028

Unnið að því að byggja upp björgunarmiðstöð á flugvallarsvæðinu á Egilsstöðum í samstarfi við björgunarsveitir og Rauða krossinn.


Sjóvarnir

Umhverfis- og framkvæmdaráð ásamt hafnarstjóra Múlaþings tryggja sjóvarnir í sveitarfélaginu samkvæmt lögum um sjóvarnir.

Áherslur fyrir 2025

Haldið verður áfram með sjóvarnir í Njarðvík og á Seyðisfirði.

Áherslur fyrir 2026-2028

Ljúka framkvæmdum við sjóvarnir í öllum höfnum Múlaþings


Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Umhverfis- og framkvæmdaráð tryggir gerð mannvirkja gegn snjóflóðum og skriðuföllum í öllu sveitarfélaginu.

Áherslur fyrir 2025-2028

Klára vinnu við byggingu þeirra varna sem eru í byggingu á Seyðisfirði og vinna að undirbúningi og hefja uppbyggingu frekari varna á hættusvæðum í samræmi við áætlanir ofanflóðasjóðs og 10 ára fjárfestingaráætlun.


Umhverfis- og skipulagsmál


Dýrahald og eftirlit

Dýraeftirlitsmaður er starfandi hjá sveitarfélaginu sem sinnir dýraeftirliti fyrir sveitarfélagið í samvinnu við starfsmenn þjónustumiðstöðva í hverju þéttbýli.


Eftirlit með mannvirkjagerð og leyfisveitingar, Byggingareftirlit og leyfisveitingar

Byggingarfulltrúi sér um eftirlit með mannvirkjagerð og leyfisveitingum í öllu sveitarfélaginu. Sótt er um byggingarleyfi á Mínum síðum á vefsíðu Múlaþings. Byggingarfulltrúi er með aðsetur að Lyngási 12 á Egilsstöðum en fer á Borgarfjörð, Seyðisfjörð og Djúpavog þegar þörf er á. Ekki er boðið upp á símatíma en tekið er á móti tölvupóstum í netfangið byggingarfulltrúi@mulathing.is og hægt að óska eftir símtali frá byggingarfulltrúa með því að hringja í 4700 700.

Áherslur fyrir 2025

Gerðar verða reglur um lausafjármuni sem tekur m.a. á gámum og torgsöluhúsum til að samræma og auðvelda ákvarðanatöku í þessum málaflokki.


Fjallskil

Verkefnisstjóri umhverfismála fer með verkefni fjallskila í samstarfi við starfsmenn heimastjórna á hverjum stað. Heimastjórnir fara með hlutverk fjallskilanefnda í sveitarfélaginu, hver í sínum kjarna.


Girðingar, t.d. fjarlæging girðinga af eyðijörðum

Verkefnisstjóri umhverfismála fer með verkefni í tengslum við girðingar í sveitarfélaginu.

Áherslur fyrir 2025

Lögð verður áhersla á að upplýsa um ábyrgð umráðamanna lands um skyldur þeirra til að viðhalda girðingum og fjarlægja ónýtar girðingar. Sveitarfélagið tekur á móti og heldur utan um ábendingar sem berast um þetta málefni og kemur þeim á viðkomandi umráðamenn.


Framkvæmd umhverfismats

Umhverfis og framkvæmdaráð sér um samþykkt umhverfismats. Skipulagsfulltrúi hefur fyrir hönd sveitarfélagsins eftirlit með að fullnægjandi umhverfismat sé unnið í tengslum við leyfisveitingar vegna framkvæmda.

Heimastjórnir Múlaþings sem jafnframt fara með hlutverk náttúruverndarnefnda fá umhverfismat til umsagnar.


Gatnagerð

Umhverfis- og framkvæmdaráð ber ábyrgð á gatnagerð í öllu sveitarfélaginu og er farið eftir framkvæmdaáætlun hverju sinni sem samþykkt er árlega af ráðinu. Framkvæmda- og umhverfismálastjóri sér um að framfylgja áætluninni.

Heimastjórnir Múlaþings fá kynningu á framkvæmdaáætlun vegna gatnagerðar og er kallað eftir ábendingum frá heimastjórnum vegna verkefna.

Áherslur fyrir 2025-2028

Gerð verði þriggja ára áætlun um gatnagerð í Múlaþingi.


Heilbrigðiseftirlit

Múlaþing í heild sinni heyrir undir Heilbrigðiseftirlit Austurlands og á fulltrúa í sameiginlegri heilbrigðisnefnd sveitarfélaganna á Austurlandi.

Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um hollustuhætti.


Refa- og minkaveiðar og meindýraeyðing

Sveitarfélagið gerir samninga við aðila vegna refa- og minkaveiða í sveitarfélaginu sem sinna veiðum á tilgreindum svæðum. Tilgangur veiðanna er að draga úr tjóni af völdum refa og minka.

Sveitarfélagið sinnir almennt ekki meindýraeyðingu enda er starfandi meindýraeyðir á svæðinu.

Áherslur fyrir 2025-2028

Verklag og samningar vegna refa og minkaveiða verður samræmt í öllu sveitarfélaginu.

Sérstök áherslusvæði vegna refa- og minkaveiða innan sveitarfélagsins verða skrásett. Slík svæði eru verndarsvæði sem er mikilvægt að verja með veiðum á ref og mink t.d. vegna fuglalífs þ.m.t. æðarvarps.


Skipulagsmál

Umhverfis- og framkvæmdaráð gerir tillögur að aðalskipulagi til sveitarstjórnar til staðfestingar og heimastjórna til umsagnar. Umhverfis- og framkvæmdaráð sendir tillögur að deiliskipulagi til viðkomandi heimastjórnar til umsagnar og staðfestingar.

Skipulagsfulltrúi er með aðsetur að Lyngási 12 á Egilsstöðum en fer á Borgarfjörð, Seyðisfjörð og Djúpavog þegar þörf er á. Ekki er boðið upp á símatíma en tekið er á móti tölvupóstum í netfangið skipulagsfulltrúi@mulathing.is og hægt að óska eftir símtali frá skipulagsfulltrúa með því að hringja í 4700 700.

Starfsfólk á skrifstofanna á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði tekur á móti gögnum og kemur áfram á framkvæmda- og umhverfissvið.

Áherslur fyrir 2025-2026

Lögð verður áherslu á að klára farsællega vinnu við nýtt aðalskipulag Múlaþings í samstarfi og samvinnu við íbúa sveitarfélagsins og aðra hagsmunaaðila.

Skipulagsfulltrúi og verkefnastjóri skipulagsmál hafa fasta viðveru á Borgarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi ársfjórðungslega.


Söfnun og meðferð úrgangs og skólps

Múlaþing er með samning við fyrirtæki varðandi söfnun, meðhöndlun og förgun sorps frá heimilum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið er jafnframt með samninga við fyrirtæki um aðra þjónustuþætti s.s. rekstur söfnunarstöðva fyrir úrgang.

Fljótsdalshérað

Móttaka sorps er á Egilsstöðum. Opið virka daga frá kl. 13-17 og laugardaga frá kl. 10-14.

Borgarfjörður

Móttaka sorps er á Borgarfirði. Opið alla virka daga frá klukkan 8-16.

Djúpivogur

Móttaka sorps er á Djúpavogi. Opið þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13.30-16.30 og laugardaga frá kl. 11-13.

Seyðisfjörður

Móttaka sorps er á Seyðisfirði. Opið þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 14-17 og laugardaga frá kl. 11-13.

Áherslur fyrir 2025

Til skoðunar verður að taka upp fjögurra flokka söfnun á Borgarfirði til samræmis við það sem gengur og gerist annarsstaðar í sveitarfélaginu.

Endurskoða opnunartíma móttökustöðvar á Borgarfirði.

Skoðaðir verða möguleikar á sveigjanlegri tunnustærð undir blandaðan úrgang sem og heimajarðgerð í stað tunnu undir matarleifar.

Lögð verður áhersla á aukna fræðslu til að ýta undir aukna flokkun og minni urðun með sérstaka áherslu á fyrirtæki.

Áherslur fyrir 2026-2028

Gerð verður svæðisáætlunar fyrir meðhöndlun úrgangs fyrir allt Austurland.

Koma upp snyrtilegum og hentugum móttökustöðvum fyrir úrgang á öllum fjórum þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins.


Umgengni og þrifnaður utan húss

Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um hollustuhætti. Auk þess ber nefndin ábyrgð á að framfylgja samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss í samvinnu við Múlaþing og önnur sveitarfélög samþykktarinnar.

Múlaþing leggur áherslu á að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt s.s. að eignum sé vel haldið við og að lóðum og lendum sé haldið hreinum og snyrtilegum.

Áherslur fyrir 2025

Koma á bættu verklagi með HAUST vegna númerslausra bifreiða, lausamuna, bílflaka og sambærilegra hluta á lóðum og öðrum opnum svæðum.

Áherslur fyrir 2026-2028

Nýta bætt verklag í átaksverkefni vegna umgengni á lóðum og lendum innan sveitarfélagsins. Á hverju ári væri lögð sérstök áhersla á tiltekið svæði innan sveitarfélagsins með það fyrir augum að bæta umgengni og ásýnd lóða og lendna.


Verndarsvæði í byggð

Verndarsvæði í byggð er skipulagsmál og þar með á verksviði skipulagsfulltrúa og umhverfis- og framkvæmdaráðs og eftir atvikum heimastjórna.

Verndarsvæði í byggð er samþykkt fyrir elsta hluta Djúpavogs. Vinna við verndarsvæði í byggð á Egilsstöðum var hafin á sínum tíma en ekki hefur verið tekin afstaða til áframhaldandi vinnu. Á Seyðisfirði er vinna í gangi við verndarsvæði í byggð. Ekki er verndarsvæði í byggð á Borgarfirði

Áherslur fyrir 2025-2028

Klára vinnu við verndarsvæði í byggð á Seyðisfirði.

Taka ákvörðun um áframhald á vinnu við verndarsvæði í byggð á Egilsstöðum.


Ýmis verkefni á sviði náttúruverndar

Heimastjórnirnar í Múlaþingi fara með hlutverk náttúruverndarnefnda hver á sínu svæði.


Kosningar


Íbúakosningar

Íbúakosningar fara fram samkvæmt reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga.


Heimastjórnarkosningar

Heimastjórnakosningar í Múlaþingi fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum, samkvæmt reglum um heimastjórnarkosningar í Múlaþingi.


Samgöngur


Lagning og viðhald vega og stíga

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri fer með þessi mál í öllu sveitarfélaginu samkvæmt framkvæmdaáætlun sem staðfest er af umhverfis- og framkvæmdaráði.

Sveitarfélagið sækir um í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar til lagfæringar á vegum.

Áherslur fyrir 2025-2028

Útbúin verður þriggja ára áætlun fyrir umsóknir í styrkvegasjóð í samráði við heimastjórnir.


Vatns- og fráveitur


Fráveitur

HEF veitur ehf. reka fráveitukerfi innan allra stærstu þéttbýliskjarna sveitarfélagsins. Félagið hefur einnig umsjón með reglubundinni hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, bæði eigin rotþróa og rotþróa í einkaeigu, á grundvelli Fráveitusamþykktar Múlaþings.

Stærsta, fyrirliggjandi verkefni fráveitunnar er bygging miðlægrar hreinsistöðvar fyrir Egilsstaði og Fellabæ.

Áherslur fyrir 2025

Sumarið 2024 var unninn fyrsti áfangi endurnýjunar fráveitukerfis á Djúpavogi með dælubrunni framan við Hótel Framtíð, dælulögn frá honum í grófhreinsistöð á Langatanga og útrás í sjó norðan Bóndavörðuvatns.

Árið 2025 er stefnt að 2. áfanga endurnýjunar fráveitukerfisins á Djúpavogi; gerð dælubrunns í stað rotþróar neðan Steina ásamt lögn að dælubrunni við Hótel Framtíð. Dælubrunnur við Ytri Gleðivík, dælulögn og endurnýjun lagna í Markarlandi verður hönnuð á árinu. Gert er ráð fyrir framkvæmdum í Markarlandi í 3. áfanga endurnýjunar fráveitu.

Áherslur fyrir 2026-2028

Unnið verður að 3.- 5. áfanga fráveituendurnýjunar á Djúpavogi.


Vatnsveitur

HEF veitur ehf. reka vatnsveitur innan þéttbýlis í öllu sveitarfélaginu og á afmörkuðum svæðum nærri þéttbýli. Gæði vatns eru mikil í Köldukvíslarveitu sem þjónar Egilsstöðum og Fellabæ. Vatn er sótt í lindir í fjallshlíð ofan þéttbýlisins á Borgarfirði eystri. Þar er mengunarhætta samfara úrkomuákefð. Á Seyðisfirði og Djúpavogi er vatnstaka úr Fjarðará og Búðará og hefur verið um áratuga skeið. Áskoranir hafa verið við síun og gerlaeyðingu á báðum stöðum. Veik von er um úrbætur í vatnsöflun á Seyðisfirði, en áform veitunnar eru að uppfæra síubúnað og tvöfalda lýsingarbúnað. Á næstu mánuðum, fyrir lok árs 2024 verður unnið að virkjun nýrra borhola í eyrum Búðarár í Berufirði, hvaðan vatni verður dælt í núverandi miðlunartank ofan þéttbýlisins á Djúpavogi.

Áherslur fyrir 2025

Áhersla veitunnar fyrir árið 2025 er að auka upplýsingaflæði til íbúa vegna framkvæmda / þjónusturofa vatnsveitu. Allar lokanir eru auglýstar á heimasíðu HEF og stærri framkvæmdir hafa verið auglýstar enn frekar á miðlum, s.s. Múlaþings, Facebook og einblöðungum borin í hús. Til viðbótar verður komið upp lista yfir helstu rekstraraðila á svæðinu sem fá að vita með tölvupósti sé lokun í vændum.

Borgarfjörður

Stefnt er á að endurnýja miðlunartank fyrir neysluvatn á Borgarfirði á árinu. Þörf er á lýsingartæki fyrir neysluvatnið vegna endurtekinna mengunaratvika, sem skapast undir ákveðnum kringumstæðum á haustin. Tæknirýmið við tankinn er gamalt og þörf er á uppfærslum, sem og auknu rými, til þess að koma fyrir lýsingartækinu. Hönnun á rýminu er hafin og hefjast framkvæmdir með vorinu. Þessar áherslur styðja við tillögur íbúa um aukin vatnsgæði á staðnum.

Djúpivogur

Nýtt vatnsból í aurkeilu Búlandsár verður virkjað fyrir árslok 2024. Mat verður gert á ástandi miðlunartanks hjá Borgargarðsrétt og hönnunarvinnu við mögulegar endurbætur lokið.

Seyðisfjörður

Öðrum áfanga endurnýjunar stofnlagnar, frá inntaki við lón að Ránargötu, lauk árið 2024.

Ekki er fyrirséð að áframhaldandi endurnýjun eigi sér stað fyrr en ljóst er með staðsetningu vegar, og hugsanlegar færslu vatnsbóls, samhliða gerð Fjarðarheiðarganga.

Áherslur fyrir 2026-2028
Borgarfjörður

Hluti stofnlagnar sem nú er úr asbesti verður endurnýjaður, milli leikskóla og Fjarðarborgar.

Djúpivogur

Endurnýjun og viðhald á miðlunartanki hjá Borgargarðsrétt er á áætlun 2026-28.

Seyðisfjörður

Næsti áfangi við endurnýjun stofnlangar verður skoðaður samhliða hönnun/framkvæmd við gangnagerð undir Fjarðarheiði.


Íþrótta- og æskulýðsmál


Íþróttamálefni, bygging íþróttahúsa ofl

Íþróttamannvirki eru í öllum kjörnum sveitarfélagsins. Hægt er að kaupa miða í íþróttahús, sundlaugar, líkamsrækt og skíðasvæðið í Stafdal með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu Múlaþings ,,veskislausnir Múlaþings".

Fljótsdalshérað

Í Brúarási er íþróttahús og í Fellabæ er fjölnota íþróttahús og gervigrasvöllur. Sveitarfélagið rekur einnig Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum en þar er líkamsrækt, útisundlaug og fimleika- og íþróttasalur. Á Egilsstöðum er einnig Vilhjálmsvöllur sem er frjálsíþrótta- og fótboltavöllur.

Borgarfjörður

Á Borgarfirði er yfirbyggt fjölnota íþróttahús. Sparkvöllurinn er opinn allan sólarhringinn og er frítt inn.

Djúpivogur

Á Djúpavogi er íþróttahús, líkamsrækt og innisundlaug sem sveitarfélagið rekur.

Seyðisfjörður

Á Seyðisfirði er íþróttahús, líkamsrækt og sundlaug. Í Stafdal rekur sveitarfélagið skíðasvæði og er opnunartími svæðisins auglýstur á heimasíðu Stafdals.

Áherslur fyrir 2025

Samræma gjaldskrár í íþróttamiðstöðvum og sundlaugum Múlaþings.


Málefni barna og ungmenna

Boðið er upp á tómstundaframlag í sveitarfélaginu fyrir börn og ungmenni. Forvarnateymi eru í þremur kjörnum þar sem sitja fulltrúar skóla, félagsmiðstöðva, félagsþjónustu og HSA. Verkefnastjóri frístunda og forvarna heldur utan um forvarnarstarf barna og ungmenna.

Borgarfjörður

Borgfirðingar fá, til viðbótar við tómstundaframlag, aukagreiðslu vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna, 50.000 krónur á önn vegna leikskólabarns og 100.000 krónur á önn vegna grunnskólabarns.

Áherslur fyrir 2025

Lögð verður áhersla á að efla upplýsingagjöf til foreldra um forvarnamál og tómstundaframlög. Einnig verður unnið að þróun forvarnastarfs fyrir börn og ungmenni.


Frístundaheimili / frístundaþjónusta

Frístundaheimili skv. lögum nr. 91/2008 er opið þá daga sem skóli er starfræktur í öllum skólum nema Grunnskólanum á Borgarfirði eystri. Skólastjórar hafa umsjón með frístund í hverjum skóla fyrir sig.

Frístundaþjónustan Sólin skv. lögum nr. 38/2018, fyrir fötluð börn og ungmenni, er í boði eftir að reglubundnum skóladegi lýkur, og þegar skólar starfa ekki. Þjónustan er einstaklingsmiðuð eða eins og best hentar viðkomandi einstaklingi. Sólin er til húsa í Fellabæ fyrir börn og ungmenni í Fellabæ og á Egilsstöðum. Annars staðar í Múlaþingi er þjónustan aðlöguð að viðkomandi barni og ungmenni.

Í þremur kjörnum eru reknar virkar félagsmiðstöðvar og á Egilsstöðum er einnig starfrækt ungmennahús.

Fljótsdalshérað

Í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla er boðið upp á frístundastarf fyrir og eftir skóla frá kl. 8:00-16:00 fyrir nemendur í 1. - 4. bekk. Í Brúarási er lengd viðvera fyrir yngstu nemendur þar til skólabíll ekur þau heim eftir að skóladegi lýkur.

Á Egilsstöðum er starfrækt Vegahúsið ungmennahús, sem ætlað er ungmennum frá 16 ára aldri. Einnig er félagsmiðstöðin Nýung fyrir börn í 5.-10. bekk. Hún er opin alla virka daga, síðdegis og fram til kl. 22. Að auki er ýmiss konar klúbbastarf og námskeið.

Djúpivogur

Í Djúpavogsskóla er boðið upp á frístund fyrir 1.-4. bekk frá því að skóla lýkur og til kl. 16:00 alla skóladaga. Starfsfólk frístundar er einnig starfsfólk skólans.

Félagsmiðstöðin Zion fyrir 5.-10. bekk. Hún er opin tvisvar til þrisvar í viku en alla skóladaga stendur nemendum Djúpavogsskóla til boða að sækja miðstöðina í löngum frímínútum. Í félagsmiðstöðinni er ýmiss konar klúbbastarf og námskeið.

Frístund og Zion eru starfræktar í Helgafelli.

Seyðisfjörður

Í Seyðisfjarðarskóla er lengd viðvera fyrir nemendur í 1.-3. bekk eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur og til kl. 16:00 mánudaga og miðvikudaga og til kl. 15:00 fimmtudaga og föstudaga. Frístund er opin alla skóladaga. Starfsfólk frístundar er hluti af starfsliði skólans.

Félagsmiðstöðin Lindin er fyrir börn og ungmenni í 5.-10. bekk sem er opin að minnsta kosti þrjá daga í viku. Í Lindinni er ýmiss konar klúbbastarf og námskeið.

Áherslur fyrir 2025

Samræma frístundaþjónustu í öllum byggðakjörnum. Frístundaþjónusta verður frá skólum til frístundaþjónustunnar.


Æskulýðsmál

Gerðir eru samningar við íþróttafélög í sveitarfélaginu. Þá eru auglýstir íþrótta- og tómstundastyrkir fjölskylduráðs til umsóknar. Ungmennaráð er í sveitarfélaginu og á hver kjarni/skóli a.m.k. einn fulltrúa. Ungmennaráð fundar að jafnaði 10 sinnum yfir árið og stendur m.a. fyrir ungmennaþingi annað hvert ár.


Ýmsar aðrar skyldur


Jafnréttismál

Byggðaráð ber ábyrgð á jafnréttismálum sveitarfélagsins og fer eftir jafnréttisáætlun sem endurskoðuð er árlega. Sveitarfélagið er jafnlaunavottað. Hjá sveitarfélaginu eru starfrækt jafnréttisteymi og jafnlaunateymi.


Kirkjugarðar

Áherslur fyrir 2025

Framlög til viðhalds grafreita verða unnin á grunni beiðna frá sóknarnefndum.

Áherslur fyrir 2026-2028

Framlög til viðhalds grafreita verða unnin á grunni beiðna frá sóknarnefndum.


Stjórnsýsla sveitarfélaga


Álagning og innheimta opinberra gjalda

Sveitarstjórn setur gjaldskrár ár hvert, samkvæmt tillögu frá viðkomandi fagráði, samhliða fjárhagsáætlun hvers árs. Gjaldskrár eru birtar á vefsíðu sveitarfélagsins og þær sem við á í B deildum Stjórnartíðinda. Fjármálastjóri ber ábyrgð á því í umboði byggðaráðs fyrir sveitarfélagið í heild að framfylgja álagningu og innheimtu. Álagning og innheimta er að mestu rafræn og hægt að fá aðstoð og upplýsingar hjá bókhaldi sveitarfélagsins í gegnum síma eða komu á skrifstofur sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er með samning við innheimtufyrirtæki um innheimtu reikninga. Hægt er að senda sveitarfélaginu reikninga í gegnum rafræna gátt á heimasíðu sveitarfélagsins.


Upplýsingagjöf

Sveitarfélagið vinnur eftir upplýsingalögum. Beiðni um upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga er hægt að senda á netfangið mulathing@mulathing.is.

Vefsíða Múlaþings er mikilvæg varðandi upplýsingagjöf til íbúa. Þar má t.d. finna reglur og gjaldskrár sveitarfélagsins, fundargerðir sveitarstjórnar, ráða og nefnda, aðal- og deiliskipulög og skipulag snjóhreinsunar. Þar má einnig finna upplýsingar um einstakar stofnanir sveitarfélagsins. Á vefsíðunni eru umsóknarform en flestar umsóknir fara í gegnum Mínar síður með aðgangi þar sem krafist er rafrænna skilríkja. Á vefsíðunni eru reglulega birtar fréttir og tilkynningar frá sveitarfélaginu. Hjá sveitarfélaginu starfar verkefnisstjóri upplýsinga- og kynningarmála.

Hægt er að koma á skrifstofur sveitarfélagsins á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði til að fá upplýsingar um það er varðar starfsemi sveitarfélagsins.

Áherslur fyrir 2026

Unnið verður að gerð nýrrar heimasíðu fyrir Múlaþing. Lögð verði áhersla á aðkomu notenda / íbúa við hönnun hennar. Heimasíðunni er ætlað að verða upplýsandi um þjónustu sveitarfélagsins og gefa íbúum eins og kostur er möguleika á að sækja sér þjónustu þess með stafrænum hætti, sama hvar þeir búa.


Lögheimil verkefni

Í þessum kafla eru sett fram lögheimil verkefni sveitarfélagsins og hvernig þeim er háttað á hverjum stað fyrir sig.


Almenningssamgöngur

Fljótsdalshérað

Múlaþing rekur almenningssamgöngur milli Fellabæjar og Egilsstaða, í Hallormsstað og í Brúarás.

Áherslur fyrir 2025

Stefnt verði að gerð stefnumörkunar um almenningssamgöngur í samstarfi við önnur sveitarfélög á Austurlandi.


Bann/takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds

Sveitarstjórn setur samþykkt um hunda- og kattahald og annað dýrahald, að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs, sem gildir fyrir allt sveitarfélagið.

Árlega, að hausti, auglýsir sveitarfélagið hreinsun hunda og katta í hverjum byggðakjarna og hvetur eigendur dýranna til að mæta með dýr sín í þessa ormahreinsun sem fer fram á auglýstum stað.

Áherslur fyrir 2025

Átak verður gert í skráningu gæludýra.


Félagsheimili / menningarhús

Byggðaráð fer með málefni félagsheimila í eigu sveitarfélagsins. Atvinnu- og menningarmálastjóri hefur yfirumsjón með þeim. Heimastjórnir veita byggðaráði umsögn um rekstrarfyrirkomulag félagsheimila og starfsemi þeirra eftir því sem við á.

Fljótsdalshérað

Á Fljótsdalshéraði eru þrjú félagsheimili í eigu sveitarfélagsins, stundum í samstarfi við aðra aðila, þ.e. Hjaltalundur, Iðavellir, Arnhólsstaðir. Tvö þeirra hafa sérstakan umsjónaraðila (húsvörð) en eitt er leigt til félags sem sér um rekstur þess.

Borgarfjörður

Heimastjórn Borgarfjarðar fer með verkefni stjórnar félagsheimilisins Fjarðarborgar. Á efri hæð hússins eru skrifstofur sveitarfélagsins, fundaaðstaða og almenn skrifstofuaðstaða. Á neðri hæðinni er samkomusalur og eldhús og veitingaaðstaða sem leigð er út yfir sumartímann.

Djúpivogur

Langabúð er í eigu sveitarfélagsins. Þar er safn Eysteins Jónssonar og veitingarekstur. Reksturinn er boðinn út reglulega.

Seyðisfjörður

Félagsheimilið Herðubreið er í eigu sveitarfélagsins og er rekstur þess / umsjón boðinn út reglulega. Mötuneyti Seyðisfjarðarskóla er starfrækt í húsinu sem og starfsemi LungA lýðskólans sem er sjálfseignastofnun.

Áherslur fyrir 2025-2026

Hugað verði að rekstrarformi félagsheimila í eigu sveitarfélagsins, hlutverki þeirra á hverjum stað og eftir aðstæðum skoðað með nýtingu þeirra t.d. fyrir opinbera þjónustu. Unnið verði að bættu aðgengi í þeim.


Hafnir

Hafnir Múlaþings heyra undir umhverfis- og framkvæmdaráð. Einn hafnarstjóri er yfir öllum höfnunum. Hafnirnar hafa sameiginlegan markaðsstjóra. Hafnirnar hafa sameiginlega vefsíðu; portsofmulathing.is með ítarlegum upplýsingum um hafnirnar. Á hverri höfn er hafnarvörður og starfsfólk.

Áherslur fyrir 2025 - 2028

Horft verði til öryggis og öflugrar hafnaverndar þar sem áherslan er að koma í veg fyrir slys, umhverfis- og eignatjón.

Lögð verði áhersla á loftslags- og umhverfismál í hafnsækinni starfsemi og kolefnishlutleysi í eigin rekstri. Aukna nýtingu auðlinda, bætta úrgangsstjórnun, umhverfisvitund, bætt loftgæði á svæði hafna og aukið hlutfall umhverfisvænnar orku.

Hafnarinnviðir stuðli að skilvirkri og snjallvæddri þjónustu við notendur

Hafnir Múlaþings verði eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsfólk þróast til að takast á við tækifæri og áskoranir til framtíðar.


Hitaveita

HEF veitur ehf, sem eru í eigu Múlaþings, reka orkuvinnslu með jarðhita ásamt dreifikerfi.

Fljótsdalshérað

Í Fellabæ og á Egilsstöðum er hitaveitukerfi. Hitaveita liggur einnig inn í Einarsstaði á Völlum og í Eiða. Vinnslusvæði veitunnar er við Urriðavatn í Fellum.

Borgarfjörður

HEF veitur eru ekki með starfsemi á Borgarfirði á sviði hitaveitu eða húshitunar.

Djúpivogur

HEF veitur eru ekki með starfsemi á Djúpavogi á sviði hitaveitu eða húshitunar.

Seyðisfjörður

HEF veitur eru ekki með starfsemi á Seyðisfirði á sviði hitaveitu eða húshitunar.

Áherslur fyrir 2025

Unnið hefur verið að jarðhitaleit á Djúpavogi um áratugaskeið. Síðast var borað í febrúar 2024, án árangurs. Vinna við ítarlegri kortlagningu á jarðhitakerfinu á Búlandsnesi er yfirstandandi, þar sem m.a. er byggt á mælingum úr nýjustu borholunni.

Til skoðunar er að Múlaþing taki yfir fjarvarmaveituna á Seyðisfirði, sem RARIK hefur rekið um áratugaskeið. Stærsta áskorunin í þeirri vinnu er fyrirsjáanleiki í verðlagningu raforku og afhendingaröryggi hennar til veitunnar. HEF veitur hafa stýrt greiningarvinnu valkosta undanfarin misseri, að beiðni Múlaþings.

Fyrir liggur vilji HEF veitna að verða íbúum Borgarfjarðar til ráðgjafar um kyndingarkosti, með það að leiðarljósi að minnka kostnað og raforkunotkun, t.d. með varmadælum.

Áherslur fyrir 2026-2028

Áherslur næstu ára velta á niðurstöðum samninga við RARIK varðandi fjarvarmaveituna á Seyðisfirði og framgangi jarðhitaleitar á Djúpavogi.


Gagnaveita

Múlaþing og HEF veitur hafa stuðlað að uppbyggingu ljósleiðarakerfis. Ljósleiðari hefur verið lagður í stærstan hluta dreifbýlisins, ýmist á vegum HEF veitna eða annarra aðila. Svæðin sem tengd hafa verið og falla undir verkefnið eru utan markaðssvæða ljósleiðara. Fjarskiptasjóður hefur styrkt verkefnið.

Um mitt sumar 2024 auglýsti Fjarskiptasjóður styrki til jarðvinnuframkvæmda við ljósleiðaratengingar í þéttbýli sem falla utan markaðssvæða. Á fjórða hundrað tenginga í Múlaþingi geta notið styrksins. Múlaþing hefur falið HEF veitum framkvæmd verkefnisins.

Fljótsdalshérað

Ljósleiðari hefur verið lagður í allt dreifbýli (lögbýli) á Fljótsdalshéraði.

Borgarfjörður

Míla hefur lagt og tengt dreifbýli í gamla Borgarfjarðarhreppi. Örfá hús hafa verið tengd í þéttbýlinu.

Djúpivogur

Múlaþing hefur með samningi við Orkufjarskipti tengt lögbýli við utanverðan Berufjörð og í Hamarsfirði og Álftafirði. Verkefni er yfirstandandi (2023-24) að leggja ljósleiðara inn með norðurströnd Berufjarðar samhliða lagningu rafstrengs Rarik. Engin heimili í þéttbýlinu á Djúpavogi eru tengd ljósleiðara.

Seyðisfjörður

Lögbýli í dreifbýli Seyðisfjarðar hafa verið tengd ljósleiðara. Lítið hefur verið tengt af byggingu í þéttbýlinu á Seyðisfirði.

Áherslur fyrir 2025

HEF veitur hafa, f.h. Múlaþings, umsjón með átaksverkefni stjórnvalda, sem felst í styrkveitingu til framkvæmdaaðila vegna jarðvinnu í þéttbýli sem skilgreind eru utan markaðssvæða. Hvorki Múlaþing né HEF veitur koma að öðru leyti að ljósleiðaravæðingu í þéttbýli á Borgarfirði, Djúpavogi eða Seyðisfirði.

Míla sér um tengingar ljóleiðara á Borgarfirði og stefnt er á að klára þær á árinu 2025.

Austurljós mun sjá um tengingar ljósleiðara á Djúpavogi og stefnt er á að klára þær á árinu 2026.

Austurljós og Míla hafa séð um tengingar ljósleiðara á Seyðisfirði og stefnt á að klára á árinu 2025.

Áherslur fyrir 2026-2028

Eftirstandandi tengingar á hverju svæði, ef einhverjar, verða kláraðar.


Valkvæð verkefni

Í þessum kafla eru sett fram valkvæð verkefni sveitarfélagsins og hvernig þeim er háttað á hverjum stað fyrir sig.


Austurbrú

Múlaþing kemur að rekstri Austurbrúar ásamt með öðrum sveitarfélögum og skipar fulltrúa í stjórn.


Heilsuræktarstöðvar

Múlaþing býður upp á aðstöðu til líkamsræktar, oftast í tengslum við íþróttahúsin.

Fljótsdalshérað

Í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum er líkamsræktaraðstaða, Héraðsþrek.

Borgarfjörður

Í Fjarðarborg eru tæki til líkamsræktar.

Djúpivogur og Seyðisfjörður

Í íþróttamiðstöðinni á Djúpavogi og á Seyðisfirði er aðstaða til líkamsræktar.

Áherslur fyrir 2025

Komið verður upp líkamsræktaraðstöðu á Borgarfirði.


Björgunarsveitir

Múlaþing styrkir allar björgunarsveitirnar í sveitarfélaginu með árlegu framlagi.


Gangstéttir, göngustígar og hjólastígar

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri fer með þessi mál í öllu sveitarfélaginu samkvæmt framkvæmdaáætlun sem staðfest er af umhverfis- og framkvæmdaráði.

Sveitarfélagið sækir um styrki til uppbyggingar göngu- og hjólastíga á ferðamannastöðum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í samræmi við forgangsröðun byggðaráðs um slík verkefni.

Sveitarfélagið sækir um styrki til uppbyggingar göngu - og hjólastíga meðfram vegum til Vegagerðarinnar.

Áherslur fyrir 2025-2028

Göngu- og hjólaleiðir sem bæta umferðaröryggi eru í forgangi sér í lagi á gönguleiðum skólabarna og fjölförnum ferðamannastöðum.

Horft verður til niðurstaðna umferðaröryggisáætlunar Múlaþings við forgangsröðun verkefna.


Tjaldsvæði

Nokkur tjaldsvæði eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þeirra er boðinn út. Þau heyra undir byggðaráð og atvinnu- og menningardeild. Heimastjórnir veita umsagnir um rekstrarfyrirkomulag og starfsemi þeirra.

Fljótsdalshérað

Tjaldsvæði í eigu Múlaþings á Egilsstöðum er rekið af einkaaðila.

Borgarfjörður

Tjaldsvæði í eigu Múlaþings á Borgarfirði er rekið af einkaaðila.

Djúpivogur

Tjaldsvæði á Djúpavogi er í einkaeigu.

Seyðisfjörður

Tjaldsvæði í eigu Múlaþings á Seyðisfirði er rekið af einkaaðila.


Ýmsir styrkir til menningarverkefna

Auglýstir eru styrkir til menningarverkefna árlega. Atvinnu- og menningardeild hefur umsjón með umsýslu þeirra, ásamt fagráði, en byggðaráð úthlutar styrkjunum.


Menningarmiðstöðvar

Tvær skilgreindar menningarmiðstöðvar eru í Múlaþingi. Málefni þeirra heyra undir atvinnu- og menningardeild og byggðaráð.

Fljótsdalshérað

Sláturhúsið menningarmiðstöð er í eigu sveitarfélagsins og rekið af því. Sérstakt fagráð er fyrir Sláturhúsið.

Seyðisfjörður

Skaftfell listamiðstöð er sjálfseignastofnun og styrkt af sveitarfélaginu.


Upplýsingamiðstöðvar

Umsjón upplýsingamiðstöðva sveitarfélagsins heyrir undir atvinnu- og menningardeild.

Fljótsdalshérað

Egilsstaðastofa, upplýsinga- og umferðarmiðstöð er í eigu Múlaþings. Rekstur hennar er í höndum einkaaðila eftir útboð.

Seyðisfjörður

Upplýsingamiðstöð er í ferjuhúsinu. Rekstur hennar er á vegum hafnarinnar.

Áherslur fyrir 2025

Unnið verði að koma upp þjónustu- og upplýsingamiðstöð á hafnarsvæðinu á Djúpavogi.


Leikvellir og útivistarsvæði

Leikvellir og útivistarsvæði eru á öllum þéttbýlisstöðvum og eru svæðin þjónustuð af þjónustumiðstöðvum.

Áherslur fyrir 2025

Unnin verður útfærsla á leiksvæði á Borgarfirði og hafin uppbygging þess.


Vetrarþjónusta á götum, plönum og stígum

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri, ásamt starfsfólki þjónustumiðstöðva, bera ábyrgð á þeirri þjónustu sem snýr að sveitarfélaginu vegna vetrarþjónustu á götum, plönum og stígum.

Starfsmenn þjónustumiðstöðva sinna eða hafa eftirlit með allri gatnahreinsun, snjóhreinsun og umhirðu innan sveitarfélagsins. Margvísleg samskipti við almenning vegna þjónustubeiðna og aðstoðar veita starfsmenn þjónustumiðstöðva eftir því sem aðstæður leyfa. Upplýsingar um forgang vetrarþjónustu má finna á heimasíðu Múlaþings.

Áherslur fyrir 2025

Lögð verður áhersla á að koma upp staðsetningarbúnaði í ruðningstæki til að bæta þjónustu við snjóruðning.


Sláttur og opin svæði

Sveitarfélagið sér um slátt og umhirðu opinna svæða og ræður til sín verktaka til að sinna þeirri vinnu eða nýtir starfskrafta starfsmanna þjónustumiðstöðva eða sérstakra sláttumanna og vinnuskólakrakka.

Garðyrkjustjóri er umsjónaraðili yfir slætti og umhirðu opinna svæða.

Áherslur fyrir 2025

Stefnt að því að fjölga viljandi villtum svæðum, skilgreina þau betur og draga úr óþarfa slætti.


Vinnuskóli

Sveitarfélagið starfrækir vinnuskóla á sumrin fyrir börn í elstu fjórum bekkjum grunnskólanna.

Garðyrkjustjóri er umsjónaraðili yfir vinnuskóla en verkstjórar eru á hverjum stað.

Áherslur fyrir 2025

Bæta skráningu við ráðningu í vinnuskóla og skapa jákvæða ímynd af því að starfa í vinnuskólanum.

Síðast uppfært 30. janúar 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?