Fara í efni

Framboð í heimastjórn Djúpavogs

Hér munu birtast þau framboð sem óskað hefur verið eftir að séu birt.

Senda inn upplýsingar um framboð

Kristján Ingimarsson.
Búland 4, Djúpivogur.

Ég gef kost á mér að sitja í Heimastjórn Djúpavogs.

Undanfarna tuttugu mánuði hef ég setið í heimastjórn og fyrstu mánuðina voru allir að gera sitt besta til að læra á hvernig þetta nýja apparat virkaði. Smátt og smátt hefur reynslan og þekkingin áunnist og mikilvægt er að sú reynsla sem fengist hefur skili sér inn í næsta tímabil.

Þó að hlutverk heimastjórnar sé fyrst og fremst stjórnsýslulegt, þ.e. afgreiðsla ýmissa mála sem snerta Djúpavog beint og tenging íbúanna við stjórnsýsluna, þá er hlutverkið líka að koma á framfæri hagsmunum íbúanna.

Það verður að segjast eins og er að þegar kosið var síðast var búið að meitla í stein framkvæmda og fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 þannig að þau verkefni sem núverandi heimastjórn hefur unnið að koma ekki í ljós fyrr en á komandi mánuðum. Sem dæmi má nefna samgöngur, meira lóðaframboð, göngustígar og gangstéttir, öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef áhuga á að fylgja þessum verkefnum eftir en þau lúta öll að því að auka lífsgæði okkar á Djúpavogi.

Áfram Djúpivogur.


Oddný Anna Björnsdóttir.
Gautavík, 766 Djúpivogur.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í heimastjórn Djúpavogs því ég vil leggja mitt af mörkum til að stuðla að áframhaldandi vexti og viðgangi Djúpavogs og nærsveita sem og eflingu Austurlands alls.

Við fjölskyldan fluttum austur sumarið 2018 þegar við festum kaup á lögbýlinu Gautavík og höfum aldrei séð eftir því, enda er hér yndislegt að búa og viljum hvergi annars staðar vera.

Ég hef verið í hagsmunabaráttu á ólíkum sviðum, umkringd öflugu fólki, í rúman áratug og komið mörgum mikilvægum málum “í gegn”, enda hætti ég yfirleitt ekki fyrr en við höfum náð þeim markmiðum sem við erum að berjast fyrir hverju sinni.

Við hjónin rekum fyrirtækið og opna býlið Geislar Gautavík, en í gegnum það hef ég starfað sem sjálfstæður ráðgjafi frá 2016, m.a. sem framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og nú einnig Beint frá býli. Fyrir 2016 var ég m.a. framkvæmdastjóri heilsuvöruheildsölunnar Yggdrasill og framkvæmdastjóri markaðsmála, almannatengsla og viðskiptaþróunar hjá Össur Americas í Kaliforníu.

Ég hef því mikla reynslu af því að standa vörð um hagsmuni ólíkra hópa og stuðla að framförum í málefnum sem þá varða, en einnig af sameiningum fyrirtækja og breytingastjórnun sem ég tel að muni nýtast mér vel sem heimastjórnarfulltrúi í nýsameinuðu sveitarfélagi.


Ingi Ragnarsson
Hraun 3, 765 Djúpivogur

Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í Heimastjórn Djúpavogs.

Þetta fyrsta kjörtímabil með heimastjórnum helgaðist mikið að því að finna taktinn með stjórnsýslunni, og hvernig væri best að haga því að þetta fyrirkomulag nýttist sem best án þess þó að auka flækjustig (sem nóg er af fyrir). Skipulags og framkvæmdamál hafa verið fyrirferðarmikil og höfum við reynt að halda stjórnsýslunni við efnið í þeim málum, hvort sem er að þrýsta á að hafa klárar lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði, eða lagningu og lagfæringar á gangstéttum og göngustígum.

Ég sé fyrir mér að í framhaldi af skipulagningu lóða sé næsta skref hjá komandi heimastjórn að ýta á byggingu hagkvæmra íbúða. Íbúðir sem væru bæði fyrir fjölskyldufólk en ekki síður hina eldri þannig að þeir sem áhuga hafa á að minnka við sig fái húsnæði við hæfi.

Í engu má þar slá af kröfum ef við eigum áfram að geta vaxið og dafnað sem samfélag, því forsendur frekari uppbyggingar er að fólk geti flutt hingað í húsnæði sem hentar.

Að sama skapi má dreifbýlið ekki gleymast og þurfum við að halda áfram þrýstingi á t.d. áframhald á þrífösun í rafmagni. Einnig vil ég leggja áherslu á að fjarskipti verði ekki síðri í dreifbýli en í þéttbýlinu, þannig að eftirsóknarvert sé að flytja í sveit, hvort sem búskapur sé stundaður eða ekki.


Síðast uppfært 12. maí 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?