Fara í efni

Framboð í heimastjórn Fljótsdalshéraðs

Hér munu birtast þau framboð sem óskað hefur verið eftir að séu birt.

Senda inn upplýsingar um framboð

Jóhann Gísli Jóhannsson
Breiðavaði, 701 Egilsstaðir


Kæru sveitungar á Fljótsdalshéraði,

Ég hef tekið þátt í mótun heimastjórnar fyrir Fljótsdalshérað síðastliðin tvö ár og gef kost á mér til áframhaldandi setu í kosningum þann 14. maí næstkomandi.

Ég tel mikilvægt að efla heimastjórnir sveitarfélagsins til að þjóna hagsmunum íbúanna sem best. Einnig tel ég nauðsynlegt að fulltrúi dreifbýlis á Fljótsdalshéraði eigi setu í heimastjórn. Ég er giftur Ólöfu Ólafsdóttur, fæddur og uppalinn á Breiðavaði þar sem við tókum við búi árið 1980 og höfum starfað við það síðan.

Ég hef unnið lengi að félagsmálum og tel mig hafa haldgóða reynslu á því sviði.
Ég er formaður Búnaðarsambands Austurlands og einnig Búgreinadeildar skógarbænda og hef starfað í mörgum nefndum félagasamtaka og sveitarfélaga. Þau verkefni sem eru mér hugleikin eru meðal annars landbúnaður, umhverfismál og skipulagsmál.


Björgvin Stefán Pétursson
Hamragerði 7, 700 Egilsstaðir

Ég hef setið sem varamaður í heimastjórn Fljótsdalshéraðs síðastliðin tvö ár og hef kynnst því sem þar fer fram. Gef ég því kost á mér til setu í heimastjórn í kosningunum þann 14. maí.

Ég er þrítugur aðfluttur Egilstaðabúi sem uppalinn er á Fáskrúðsfirði. Ég er giftur Bryndísi Björt Hilmarsdóttur og saman eigum við tvo drengi, þá Ívan Pétur (2018) og Alexander Hilmar (2020). Við fjölskyldan fluttum til Egilsstaða eftir nám í apríl 2020 og hér líður okkur vel.

Ég starfa sem framkvæmdastjóri hjá Yggdrasil Carbon. Þar áður starfaði ég hjá Skattinum á Egilsstöðum. Einnig er ég aðstoðarþjálfari karlaliðs Hattar/Hugins í knattspyrnu. Ásamt því að sitja í stjórn UÍA.

Þau málefni sem að ég brenn fyrir eru fjölskyldumál, íþrótta- og æskulýðsmál, umhverfismál og nýsköpun í atvinnulífinu.


Dagmar Ýr Stefánsdóttir
Tjarnarlönd 19, 700 Egilsstaðir

Kæru íbúar Fljótsdalshéraðs,

Ég hef ákveðið að gefa áfram kost á mér í heimstjórn Fljótsdalshéraðs í kosningunum 14. maí en ég hef tekið þátt í því að móta starfið með setu minni í stjórninni síðastliðin tvö ár. Að mínu mati er þessari vinnu ekki lokið og því vil ég ekki ganga frá ókláruðu verki. Í mínum huga ætti heimstjórnin á Fljótsdalshéraði að huga sérstaklega að þörfum íbúa í dreifbýlinu enda mikilvægt að fólk í okkar víðfemu sveitum eigi góða málsvara inn í stjórnkerfi sveitarfélagsins. COVID-19 setti ákveðið strik í reikninginn hvað þetta hlutverk varðaði enda var ekki hægt að standa fyrir opnum fundum eða vera mikið á ferðinni að hitta fólk á meðan heimsfaraldri stóð. En við fundum að þörfin fyrir þessa tengingu er sannarlega til staðar á þeim fundum sem heimastjórnin stóð fyrir í sveitunum fyrir skemmstu.

Þá eru önnur hlutverk heimastjórnar einnig gífurlega mikilvæg og ljóst að dagskráin hjá heimastjórninni á Fljótsdalshéraði er oft nokkuð þétt vegna margra mála sem undir hana heyra, ekki síst hvað skipulagsmál varðar. Það er því ekki ólíklegt að það þurfi að endurskoða tíðni funda hjá heimastjórninni svo hún hafi meira svigrúm til að taka upp mál sem er mikilvægt að sinna og eiga í nánara og opnara samtali við íbúa.

Ég er uppalin í Merki á Jökuldal en bý nú á Egilsstöðum og starfa sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Ég er gift Guðmundi Hinriki Gústavssyni leiðtoga hjá Alcoa Fjarðaáli og við eigum tvo syni, Hinrik Nóa 12 ára og Óliver Ara 6 ára.

Mín helstu áherslumál eru að stuðla að vellíðan og hamingju íbúa sveitarfélagsins, tryggja að börn hafi góða aðstöðu fyrir leik og nám, uppbygging útivistarsvæða og ásýnd sveitarfélagsins, bæði innanbæjar og í sveitum.


Agnar Benediktsson
Hvanná2, Jökuldalur

Kæru íbúar

Agnar Benediktsson heiti ég og bý í Jökuldal og uppalinn þar. Ég bý á Hvanná 2 og rek þar sauðfjarbú ásamt eiginkonu minni Andra Erika Petrovici. Tók við búi af afa og ömmu á Hvanná 2 2013 og hef rekið það síðan. Unnið sem verktaki í ýmsum verkum samhliða búskapnum og er í stjórn og varastjórn ýmsa félaga/félagasamtaka.

Ég býð mig fram til heimastjórnar og ætla þar að sinna að minni bestu getu þeim málum sem koma inn á borð, vinna að því að erindum sem koma inn til heimastjórnar séu sett eins fljótt og auðið er í ferli. Passa uppá jafnrétti í þjónustu við íbúa sama hvar í sveitarfélaginu þeir búa. Mál sem mér er hugleikin eru landbúnaður,skipulagsmál,þjónusta í dreifbýli,viðhald/þjónusta vega í dreifbýli og uppbygging og skipulag ferðamannastaða.

Síðast uppfært 12. maí 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?