Fara í efni

Fjölskylduráð Múlaþings

69. fundur 25. apríl 2023 kl. 12:30 - 15:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Sigurður Gunnarsson formaður
  • Alda Ósk Harðardóttir varamaður
  • Guðmundur Björnsson Hafþórsson aðalmaður
  • Einar Freyr Guðmundsson varamaður
  • Ásrún Mjöll Stefánsdóttir aðalmaður
  • Eyþór Stefánsson aðalmaður
  • Jóhann Hjalti Þorsteinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir fræðslustjóri
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir íþrótta- og æskulýðsstjóri
  • Stefanía Malen Stefánsdóttir starfsmaður fjölskyldusviðs
Fundargerð ritaði: Bylgja Borgþórsdóttir íþrótta- og æskulýðsstjóri
Í byrjun fundar var kosið um það hvort að Þröstur Jónsson fengi sæti sem fulltrúi Miðflokksins í fjarveru áheyrnarfulltrúa og varamanns flokksins. Það var samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Áheyrnarfulltrúar grunnskóla Þorbjörg Sandholt, Arna Magnúsdóttir, Valdís Dögg Rögnvaldsdóttir og Stefanía Malen Stefánsdóttir grunnskólafulltrúi sátu lið 1.

1.Hinsegin fræðsla í grunnskólum Múlaþings

Málsnúmer 202304060Vakta málsnúmer

Undir þessum lið tengdist inn á fundinn Eldur Ísidór, formaður Samtakanna 22, en byggðaráð Múlaþings beindi á fundi sínum 18. apríl 2023 erindi frá Samtökunum 22 til fjölskylduráðs til kynningar og umfjöllunar.

Ráðið sér ekki ástæðu til að endurskoða málið og ítrekar fyrri afstöðu sína til fræðslusamnings sem gerður hefur verið við Samtökin 78.

Fjölskylduráð Múlaþings áréttar að það er enginn sómi fólginn í því að ráðast gegn fræðslu sem gagnast minnihlutahópum. Það er alvarleg árás á trans fólk að fara fram með rangfærslum um þá fræðslu sem áformuð er á vegum Samtakanna 78. Þó að málshefjandur gefi það út að þeir séu að hugsa um hag barna þá eru þeir að brjóta illilega á réttindum þeirra barna sem tilheyra viðkvæmum minnihlutahópi sem stendur höllum fæti og situr undir óvægum árásum nú um stundir.

Fjölskylduráð ítrekar bókun frá fundi sínum 4. apríl 2023:
Fjölskylduráð hafnar tilburðum til ritskoðunar á námsefni á jafnmikilvægu mannréttindamáli og hinsegin fræðsla er. Að auki hafnar fjölskylduráð öfgafullri orðræðu í garð samfélagshópa og telur þær forsendur sem lagðar voru fram fyrir upptöku erindisins ekki á faglegum rökum reistar.
Engar forsendur eru breyttar frá því að fjölskylduráð fjallaði um og samþykkti samninginn á fundi sínum 14. febrúar sl.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er hlutverk menntaðra grunnskólakennara að fara með menntun barna í grunnskólum sveitarfélagsins.
Hvernig má það vera að það þurfi utanaðkomandi hagsmunasamtök sem standa fyrir mjög svo umdeild kynjafræði til að uppfræða börn og unglinga um umburðalyndi og náungakærleika.
Samtök sem á fræðsluvef sínum otila.is ráðast að "venjulegum" hommum og lesbíum á undirsíðu með titlinum "Hinsegin þjóðernishyggja" og byggja fræðsluefni á svo veikum grunni sem fram kemur á undirsíðunni "Heimildanotkun", eiga vart erindi við börnin í grunnskólum okkar.

2.Skíðasvæðið í Stafdal

Málsnúmer 202301163Vakta málsnúmer

Ahsley Milne, forstöðumaður Skíðasvæðisins í Stafdal, kynnti starfsemi svæðisins veturinn 2022-2023.

Lagt fram til kynningar.

3.Barnvænt sveitarfélag

Málsnúmer 202304113Vakta málsnúmer

Dagný Erla Ómarsdóttir kynnti framgang verkefnisins Barnvænt sveitarfélag hjá Múlaþingi.

Lagt fram til kynningar.

4.Sumarfrístund í Múlaþingi 2023

Málsnúmer 202301149Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð felur íþrótta- og æskulýðsstjóra að halda áfram að vinna að skipulagi sumarfrístundar 2023 og auglýsa hana í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Víkingurinn 2023

Málsnúmer 202303231Vakta málsnúmer

Fyrir liggur styrkbeiðni sem barst í tölvupósti frá Magnúsi Ver Magnússyni þann 15. mars 2023.

Er beðið um styrk til að halda aflraunakeppnina Víkinginn 2023.

Fjölskylduráð felur starfsmanni að skoða með atvinnu- og menningarsviði hvort og hvernig hægt er að styrkja keppnina.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Skýrsla íþrótta- og æskulýðsstjóra

Málsnúmer 202010555Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?