Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

53. fundur 06. febrúar 2025 kl. 08:30 - 11:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir formaður
  • Jón Halldór Guðmundsson aðalmaður
  • Margrét Guðjónsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra

1.Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202208012Vakta málsnúmer

Fyrir liggur minnisblað sem lagt var fyrir ráðherra samgöngumála á fundi sem sveitarstjóri, forseti sveitarstjórnar og formaður byggðaráðs sóttu þann 22. janúar síðastliðinn. Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri og Heiða Ingimarsdóttir verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála sitja fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar fagnar því að leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa boðað að rjúfa 5 ára langt framkvæmdahlé við jarðgöng á Íslandi. Fjarðarheiðargöng eru vel ígrunduð og undirbyggð næstu jarðgöng á Íslandi, fullhönnuð og tilbúin til útboðs.
Heimastjórn Seyðisfjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að sýna viljann í verki og veita Vegagerðinni heimild til að hefja útboðsferli sem þarf að eiga sér stað áður en framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng geta hafist.

Heimastjórn Seyðisfjarðar fagnar því að fulltrúar Múlaþings hafi fundað með innviðaráðherra og leggur til við sveitarstjórn að fulltrúar Múlaþings fundi með fjármála- og efnahagsráðherra er varðar stöðu verkefnis um gjaldtöku í jarðgöngum sem og forsætisráðherra í tengslum við gerð fjármálaáætlunar. Jafnframt leggur heimastjórn til að Múlaþing upplýsi þingmenn um forsendur, ákvarðanaferli og stöðu Fjarðarheiðarganga.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

  • Dagmar Ýr Stefánsdóttir og Heiða Ingimarsdóttir.

2.Erindi, varðar umsögn veðurstofunnar um ofanflóðahættu á starfsvæði fyrirhugaðs laxeldi í Seyðisfirði

Málsnúmer 202501212Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tölvupóstur frá Jóni Halldóri Guðmundssyni dags. 23.janúar sl. þar sem hann óskar eftir að tekin verði til umfjöllunar umsögn Veðurstofunnar um tillögur MAST að rekstrarleyfi Kaldvíkur á starfsvæði fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði.

Fulltrúi heimastjórnar Jón Halldór Guðmundsson leggur fram eftirfarandi tillögu:
Í umsögn Veðurstofu Íslands 20.01. 2024 um tillögu MAST að rekstrarleyfi fyrir laxeldið í Seyðisfirði kemur fram það mat Veðurstofunnar, að laxeldiskvíar í Seyðisfirði séu á ofanflóðahættusvæði og að gera þurfi frekara hættumat. Það byggir á því að slíkt mat hefur ekki verið gert gagnvart þeim möguleika að ofanflóð falli og ógni laxeldismannvirkjum, beint eða óbeint vegna flóðbylgju, svo af hlytist umhverfisslys vegna risavaxinnar slysasleppingar, mengunar, hættu fyrir starfsmenn eða annarra ófyrirséðra afleiðinga. Með hliðsjón af þessu beinir Heimastjórn Seyðisfjarðar því til sveitarstjórnar að vekja athygli leyfisveitenda á þessu mati Veðurstofu Íslands og óska eftir frekara hættumati, áður en tekin verður afstaða til leyfisveitingar.

Tillagan felld með tveimur atkvæðum (JB,MG), einn með (JHG)

Jón Halldór leggur fram eftirfarandi bókun:
Undanfarin ár hefur hefur náttúruvá haft mikil áhrif á athafnalíf og mannlíf á Seyðisfirði. Grundvöllur undir atvinnulíf á stóru svæði í bænum hefur brostið. Einnig hefur mat á ofanflóðahættu takmarkað svigrúm til íbúðabyggðar.
Sveitarstjórn og opinberir aðilar eru að vinna að ofanflóðavörnum beggja megin fjarðar til að verja byggðina.
Nú blasa við ný atvinnutækifæri á Seyðisfirði sem margir binda vonir sínar við, í formi laxeldis í sjó í Seyðisfirði.
Mikilvægt er að faglega sé staðið að þessari uppbyggingu og í dag væri aldrei hægt að fá leyfi fyrir nýrri atvinnustarfsemi á landi með 6-10 nýjum störfum á skilgreindu ofanflóðahættusvæði.
Ég skora því á sveitarstjórn að kanna ítarlega hvort ástæða sé til að staldra við.
Nýlega hafa verið umræður um ábyrgð sveitarstjórnar annarsstaðar á Íslandi, sem brást ekki við upplýsingum um ofanflóðahættu fyrir allmörgum árum. Við viljum ekki taka slíka umræðu, þegar það er of seint.

Lagt fram til kynningar.


3.Hafnargarðurinn Seyðisfirði

Málsnúmer 202411081Vakta málsnúmer

Fyrir heimastjórn liggur áframhaldandi vinna við mótun Hafnargarðsins og verklag.

Í vinnslu.

4.Deiliskipulag, Seyðisfjörður, Hafnarsvæði

Málsnúmer 202106146Vakta málsnúmer

Tillaga um breytingu á gildandi deiliskipulagi hafnarsvæðis, Fjarðarhafnar, Pálshúsreits og Öldunnar var auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með athugasemdafresti til og með 1. janúar 2025.
Fyrir liggja athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar ásamt drögum að umsögn um þær auk uppfærðra skipulagsgagna til staðfestingar.

Í upphafi máls vakti formaður (JB) máls á mögulegu vanhæfi sínu undir málsliðnum. JB gerði grein fyrir vanhæfi sínu, sem framkvæmdastjóri Tækniminjasafns Austurlands, opnuð var mælendaskrá og var tillagan tekin til afgreiðslu. Vanhæfistillagan var samþykkt samhljóða. Vék JB af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar samþykkir fyrirliggjandi umsögn um athugasemdir ásamt uppfærðri skipulagstillögu í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

5.Samfélagsverkefni heimastjórna 2025

Málsnúmer 202412125Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggur bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs dags. 13. janúar um samfélagsverkefni heimastjórna 2025. Heimastjórnir Borgarfjarðar, Djúpavogs og Seyðisfjarðar fá 2 milljónir hver til umráða og heimastjórn Fljótsdalshéraðs 4 milljónir. Hvatt er til að heimastjórnir leiti eftir samstarfi við grunnskólanemendur um hugmyndir að verkefnum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar lýsir yfir ánægju með verkefnið og mun taka málið upp aftur á næsta fundi. Fram að þeim fundi mun heimastjórn leita eftir samvinnu við grunnskólanemendur sem og kalla eftir hugmyndum frá íbúum um verkefnið. Senda má inn hugmyndir á heimasíðu Múlaþings eða skila inn hugmyndum bréfleiðis á bæjarskrifstofu Seyðisfjarðar, bt. fulltrúa sveitarstjóra fyrir 28.febrúar nk.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

6.Auglýsing um umferð í Múlaþingi

Málsnúmer 202102223Vakta málsnúmer



Fyrir fundinum liggur minnisblað og bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs dags. 13. janúar um tillögur að hámarkshraða í þéttbýliskjörnum Múlaþings ásamt breytingum á honum. Óskar ráðið eftir umsögnum frá heimastjórnum sveitarfélagsins um fyrirliggjandi tillögur. Hugrún Hjálmarsdóttir umhverfis- og framkvæmdarstóri situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar samþykktir fyrir sitt leiti fyrirliggjandi tillögur í samræmi við umræðu á fundinum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Gestir

  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 09:40

7.Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2024-2025

Málsnúmer 202501193Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggur til kynningar úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2024-2025.

Lagt fram til kynningar.

8.Reglur um matar- og söluvagna í Múlaþingi

Málsnúmer 202501241Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að reglum um matar- og söluvagna í Múlaþingi.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 3.2.2025 var eftirfarandi bókað:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum að reglum til umsagna hjá heimastjórnum. Málið verður tekið fyrir að nýju þegar þær liggja fyrir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar fagnar þeirri vinnu sem fram hefur farið um reglur um matar- og söluvagna í Múlaþingi og gerir enga athugasemd við fyrirliggjandi drög að reglum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

9.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði

Málsnúmer 202301014Vakta málsnúmer

Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir hin ýmsu mál og stöðu mála.

Skíðasvæðið í Stafdal: Eftir mikla undirbúningsvinnu tókst forstöðumanni skíðasvæðisins og hans starfsfólki að opna skíðasvæðið 3.jan sl. Mjög góð mæting hefur verið í fjallið og má merkja töluverða aukningu heimamanna sem og íbúa Fjarðarbyggðar sem er ánægjulegt. Aðgangshliðið er væntanlegt og stefnt að því að setja það upp innan tveggja vikna.

Göngustígurinn að Gufufossi: 17.jan sl. fór auglýsing í loftið þar sem óskað var eftir tilboðum í framkvæmdina Göngustígur að Gufufossi. Þrjú tilboð bárust og hlaut Héraðsverk ehf verkefnið. Gert er ráð fyrir að verktaki hefji framkvæmdir um leið og gengið hefur verið frá samningi og eru áætluð verklok 15.október 2025.

Gamla ríkið: 22. janúar sl. voru opnuð tilboð (að Hafnargötu 44) sem bárust í Gamla ríkið. Mjög ánægjulegt er að segja frá því að 5 frambærileg tilboð bárust í eignina og er verið að vinna úr þeim gögnum.

List í ljósi: List í ljósi fagnar nú komu sólarinnar í tíunda skiptið 14. og 15. febrúar n.k . Mikil eftirvænting er í bænum vegna þessa hátíðar og ber að þakka þrautseigju og dugnaði þeirra Celiu og Sesselju sem hafa náð að halda þessu gangangi þessi ár. Eins og áður er fólk kvatt til að slökkva öll ljós og þá sérstaklega útiljós og jólaljós hjá sér á meðan á hátíðinni stendur.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?