Fara í efni

Hreppsnefnd Borgarjarðar

8. fundur 06. apríl 2020

Mánudaginn 6. apríl 2020 kl: 17:00 kom hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps saman til 8. fundar á árinu í Fjarðarborg. Mættir hreppsnefndarmennirnir Jakob, Jón Sigmar, Eyþór og Jón. Tillaga að dagskrárbreytingu á þá leið að liðirnir Hafnarhús tilboð í rekstur annars vegar og breytingar á
aðalskipulagi hins vegar koma inn sem nr. 5 og 6. Aðrir liðir færast aftar sem því nemur.

1. Ársreikningur Borgarfjarðarhrepps 2019 síðari umræða.
Ársreikningur Borgarfjarðarhrepps er gerður í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga, reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 161,3 millj. kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 145,4 millj. kr.

Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,45% en lögbundið hámark með álagi er 0,625%. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,45% en lögbundið hámark með álagi er 1,65% .

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins, samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var jákvæð um 6,3 millj. kr., en þar af var rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 12,8 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 var jákvætt um 331,8 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 319,2 millj. kr.

Samgöngu – og sveitarstjórnarráðherra staðfesti þann 14. febrúar sl. sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í eitt sveitarfélag en íbúar sveitarfélaganna samþykktu sameininguna þann 26. október 2019.

Covid–19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim þar með talið efnahagsleg. Veruleg óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif faraldursins s.s. vegna óvissu um hve lengi hann mun vara og hver áhrifin munu verða eftir að honum lýkur. Vænta má að áhrif á rekstur sveitarfélagsins verði umtalsverð m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda.

Ársreikningur Borgarfjarðarhrepps fyrir 2019 borinn upp við síðari umræðu með áorðnum breytingum og samþykktur einróma. Reikningurinn liggur frammi á Hreppsstofu og verður birtur á heimasíðunni. 

2. Skólamál, umsóknir.
Í framhaldi af velheppnuðu samstarfi við Fellaskóla er til skoðunar að halda því áfram og hugsanlega þróa það frekar. Fjórar umsóknir bárust um þrjár stöður við skólann.

3. Breyting á eindögum fasteignagjalda.
Lagt er til að fresta eindögum fasteignagjalda fyrir apríl og maí. Þeim sem það kjósa er því óhætt að fresta greiðslum án þess að eiga á hættu að greiða viðbótarkostnað eða vexti.

Gjalddagar breytast svo: Gjalddagi 1. apríl verður með eindaga í lok nóvember 2020 og gjalddagi 1. maí nk. verður með eindaga í lok desember 2020.

4. Beiðni um umsögn um samning um landskipti og staðfestingu skv. skipulagslögum.

Jakob vakti athygli á hugsanlegu vanhæfi, samþykkt einróma og vék hann af fundi.

Um er að ræða samning um landskipti milli Njarðvíkur 1 og Njarðvíkur 2 (Borgar) þ.e. skipti á hlut í Hafnarhólma og ræktunarlandi í Njarðvík. Hreppsnefndin samþykkir þetta fyrir sitt leyti enda gjörningurinn fallinn til að styrkja búskap í Njarðvík.

5. Hafnarhús tilboð í rekstur.

Austurbrú annaðist útboðið og fór yfir þrjú tilboð sem bárust frá Já Sæll ehf, Blábjörgum ehf og Bjarna Rafni Ingvasyni.
Tilboð frá Blábjörgum ehf. kom best út úr mati Austurbrúar. Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps samþykkir að ganga til samninga við Blábjörg ehf. um rekstur í húsinu.

6. Breytingar á aðalskipulagi.
a. Breyting á aðalskipulagi Geitlands.
b. Breyting á aðalskipulagi, stækkun á íbúðarsvæði við Bakkaveg og verslunar og þjónustusvæði við Álfheima.

Hreppsnefnd samþykkir að veita jákvæða umsögn um að leysa úr landbúnaðarnotum land fyrir vatnsverkmiðju og tengda starfsemi að Geitlandi samkvæmt tillögu um breytingu á aðalskipulagi.

Hreppsnefnd samþykkir að veita jákvæða umsögn um að leysa úr landbúnaðarnotum land fyrir stækkun íbúðarsvæðis við Bakkaveg og verslunar og þjónustusvæði við Álfheima og um leið stækkun þéttbýlismarka við Bakkagerði samkvæmt lýsingu um breytingu á aðalskipulagi dagsett í mars 2020. Samþykkt einróma.

7. Bréf:
a. Húsafriðunarsjóður Lindarbakki, styrkur kr.1.100.000 hefur fengist til viðhalds vegghleðslu á Lindarbakka.
b. Umhverfisstofnun, starfsleyfi. Starfsleyfi fyrir urðun á Brandsbölum hefur verið gefið út. Starfsleyfið mun birtast á heimasíðu sveitarfélagsins.
c. Minnisblað Jöfnunarsjóðs. Lagt fram til kynningar.
d. Brunabót Styrktarsjóður. Auglýsing um styrkveitingu,lagt fram til kynningar.

8. Fundargerðir:
a. Samband ísl. sveitarfélaga 27.03.2020, lögð fram til kynningar.
b. Fundargerðir Hafnarsambands 20.03.2020, lagðar fram til kynningar.

Fundi slitið kl: 19:35
Jón Þórðarson ritaði

Umsóknarfrestur í Atvinnuaukningarsjóð er til og með 1. maí 2020.

Getum við bætt efni þessarar síðu?