Fara í efni

Hreppsnefnd Borgarjarðar

3. fundur 07. febrúar 2011

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps kom saman til 3. fundar á árinu 2011 mánudaginn 7. febrúar kl: 17 í Hreppsstofu. Mættir hreppsnefndarmennirnir Jakob, Jón Sigmar, Jón Þórðarson, Ólafur og Kristjana. Arngrímur Viðar Ásgeirsson kom á fundinn undir 7. lið.

  1. Þriggja ára áætlun, seinni umræða

Áætlunin borin upp við síðari umræðu og samþykkt einróma.

  1. Fasteignagjöld

Farið yfir álagningaskrá fasteignaskatts. Fasteignaskattar felldir niður samkvæmt reglum hreppsnefndar frá 6. mars 2006. Þá ákvað hreppsnefndin að nýta heimild í sömu reglum og veita styrk til greiðslu fasteignaskatts af fjórum eignum

  1. Fundargerð Skipulags og bygginganefndar frá 4. feb. 2011

Fundargerðin rædd og síðan borin upp með breytingum var hún samþykkt einróma.

Hreppsnefndin hvetur þá sem hyggja á nýbyggingar eða breytingar á eldri byggingum að leggja tímanlega fram tilskilin gögn til skipulags og bygginganefndar, slíkt er til mikils hagræðis fyrir alla sem að málum koma.

  1. Fundargerðir: a)Brunavarnir, b)Héraðsskjalasafn

Lagðar fram til kynningar.

  1. Símamál

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps lýsir verulegum áhyggjum yfir ástandi farsímasímasambands í Borgarfjarðarhreppi nú þegar slökkt hefur verið á NMT kerfinu. Þau úrræði sem áttu að koma í stað þess kerfisins hafa ekki skilað sér inn á umrætt svæði hvorki til sjós eða lands. Væntir Hreppsnefndin þess að úrbætur verði gerðar hið fyrsta, þannig að íbúar, sjómenn og ferðamenn búi ekki áfram við falskt öryggi.

  1. Skýrsla sveitarstjóra

Lagt fram uppgjör vegna dúntekju úr Hafnarhólma og bréf frá Siglingastofnun þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir 9,6 milljóna framlagi ríkisins til sjóvarna á Borgarfirði á árinu 2011. Rætt um opnunartíma leikskólans.

Hreppsnefndin samþykkti einróma að fela Sambandi íslenskra sveitafélaga fullnaðarumboð til kjarasamnings-gerðar fyrir sína hönd við eftirtalin stéttarfélög: Félag leikskólakennara, Félag grunnskólakennara, Skólastjórafélag Íslands, Bæjarstarfsmannafélög og Félög innan SGS.

  1. Samfélag í sókn

Arngrímur Viðar Ásgeirsson kynnti Verkefnisáætlun: Borgarfjörður eystri- Samfélag í sókn- 200 íbúar árið 2020. Áætlunin er mjög áhugaverð og hlaut jákvæðar undirtektir hreppsnefndarmanna.

Fundi slitið kl: 19.50 Kristjana Björnsdóttir

ritaði

Getum við bætt efni þessarar síðu?