Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps kom saman til 20. fundar á árinu 2010 mánudaginn 6. desember kl: 17 í Hreppsstofu. Mættir hreppsnefndarmennirnir Jakob, Jón Þórðarson, Jón Sigmar, Ólafur og Kristjana.
- Útsvarsprósenta 2011
Útsvarsprósenta gjaldenda í Borgarfjarðarhreppi verður 13,28% sem er hámarskálagning, en þó með þeim fyrirvara að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga á Alþingi um tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og hækkun útsvarshlutfalls um 1,20 % sem af því leiðir, verður þá álagningarhlutfallið 14,48% á árinu 2011. Einungis þau sveitfélög sem nýta hámarksálagningu til útsvars geta vænst þess að fá greitt aukaframlag úr jöfnunarsjóði sveitafélaga.
- Fasteignagjöld 2011
Lóðagjöld: 2% af fasteignamati lóðar. Sorphreinsunargjöld: kr. 12.500 á íbúð, kr. 7.000 þar sem lítið sorp er, veitingasölur kr. 15.000. Ein ruslapokarúlla (50 stk.) innifalin í gjaldinu, aukapokar eru til sölu í áhaldahúsi. Sorpförgunargjöld: Bændur, útgerðarmenn og fl. kr. 5.000, FKS kr. 50.000. Sveitarotþróargjöld: kr. 5.000 á rotþró. Vatnsgjöld:á húsnæði 0.3% af fasteignamati að hámarki kr. 12.000 lágmarki kr. 5.000. FKS kr. 30.000. Holræsagjald: 0,13% af fasteignamati. Fasteignaskattur: á íbúðarhúsnæði og bújarðir 0,4%, á atvinnuhúsnæði 1,1%, á sjúkrastofnanir, skóla o. fl. 1.32%. Gjalddagar fasteignagjalda verða 4 á árinu.
- Fjárhagsáætlun 2011
Farið yfir ýmis mál er varða gerð fjárhagsáætlunar, vinnufundur er áætlaður þriðjudaginn 14. des. kl: 13.
- Minjasafn Austurlands
a) Samstarfssamningur um Minjasafn Austurlands-athugasemd Fljótsdalshrepps
,, Fimmtudaginn 25. nóvember sl. var haldinn eigendafundur vegna endurskoðunar á samstarfssamningi um Minjasafn Austurlands þar sem fulltrúar Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs mættu.” Á fundinum kom fram svo hljóðandi tillaga frá Fljótsdalshreppi: Lagt er til að árleg framlög fari eftir íbúafjölda eins og ábyrgðir og hrein eign safnsins. Annar kostur kann að koma til greina þ.e. að árleg framlög skiptist til helminga annars vegar eftir íbúafjölda 50% og skatttekjuviðmið verði 50%.
Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps leggur til að árleg framlög skiptist til helminga.
b) Beiðni um viðbótarframlag
Hreppsnefndin samþykkir umbeðið framlag að upphæð kr. 100.834 enda fellur þá niður skuld safnsins við Fljótsdalshérað að upphæð kr. 2.000.000.
- Erindi til Atvinnuaukningasjóðs
Umsókn frá Ferðaþjónustunni Álfheimum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við hús 3.
Við gerð fjárhagsáætlunar verður ákveðið hvort unnt verður að leggja Atvinnuaukningasjóði til aukið fé en samkvæmt reglum sjóðsins fer úthlutun fram í apríl. Hreppsnefndin lítur jákvætt á umsóknina og fagnar áframhaldandi uppbyggingu.
- Kjörstjórnarlaun vegna stjórnlagaþingskosninga
Laun kjörstjórnarmann eru kr. 35.000
- Yfirfærsla á málefnum fatlaðra
Sveitarstjóri fer með umboð til að ganga frá samningi fyrir hönd Borgarfjarðarhrepps
- Sameining á lögbýlinu Borg
Jakob vakti athygli að hugsanlegu vanhæfi undir þessum lið og var það samþykkt einróma. Fyrir liggur svo hljóðandi erindi frá Jakobi Sigurðssyni og Margréti B. Hjarðar: ,, Við undirritaðir eigendur að jörðinni Borg í Njarðvík óskum eftir að sveitarstjórn Borgarfjarðarhrepps staðfesti sameiningu á spildum landnúmer: 197162 Borg/lóð 1 og 197419 Borg / lóð 2 við jörðina Borg í Njarðvík landnúmer: 157228.”
Hreppsnefndin samþykkir staðfestinguna einróma.
- Skýrsla sveitarstjóra
Borist hefur frá Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála ,,afrit af kæru, dags. 22. nóvember 2010 ásamt fylgigögnum, þar sem kærð er veiting byggingarleyfis fyrir frístundahús að Bakkavegi 10 í Bakkagerðisþorpi, Borgarfirði eystra. Með vísan til 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þess óskað að úrskurðarnefnd verði send gögn er málið varða fyrir 17. desember nk. og byggingaryfirvöldum sveitarfélagsins gefinn kostur á að tjá sig um kæruna til sama tíma.” Sveitarstjóri og byggingarfulltrúi munu senda umbeðin gögn innan tiltekins tíma.
Lokið er framkvæmdum við botnlanga og gatnagerð við Bakkaveg. Framkvæmdir við Bátahöfnina eru komnar á góða rekspöl.
Fundi slitið kl: 19.55 Kristjana Björnsdóttir ritaði