Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps kom saman til 15. fundar á árinu 2008 mánudaginn 15. sept. kl. 17:00 í Hreppsstofu.
Mættir hreppsnefndarmennirnir Jakob, Jón Sigmar, Kristjana, Ólafur og Steinn, ásamt sveitastjóra.
Oddviti lagði til að dagskrá fundarins yrði breytt þannig að liður 10. færðist fram og verði 1. mál á dagskrá og aðrir liðir færast aftur í samræmi við það. Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum einn var á móti.
1. Skýrsla sveitarstjóra
Fjallskil í Loðmundarfirði: Farið yfir kostnað við fjallskilin árin 2005 til 2007, fram kemur í framlögðum gögnum að kostnaður pr. kind var kr. 1.465 árið 2005, kr.1.745 árið 2006 og kr.2.026 árið 2007. Vegagerðin hefur gert kostnaðaráætlun fyrir Héraðsflóabraut kostnaður er áætlaður 1.300 miljónir.
Fram kom að stjórn Borgar ehf stefnir að því að félagið verði selt, tilboð í félagið liggur fyrir. Sagt frá fundi sem sveitastjórar Vopnafjarðar- Borgarfjarðar- Breiðdals-og Djúpavogshreppa og bæjarstjóri Seyðisfjarðar áttu þar sem farið var yfir úrvinnslu tillagna Norð-Austurnefndar forsætisráðuneytisins. Kristjana lagði til að bréf frá bæjarráði Seyðisfjarðar sem til umræðu er undir þessum lið verði tekið fyrir sem sérstakt dagskrármál sem verður þá 11. liður. Tillagan samþykkt samhljóða.
Steinn óskar að eftirfarandi verði bókað:
“Á seinasta hreppsnefndarfundi gerði ég athugasemdir við störf sveitarstjóra hvað varðar það að gefa hreppsnefnd upplýsingar um stöðu mála og verkefni sem koma til sveitarfélagsins. Á dagskrá hreppsnefndafunda er liður sem heitir, skýrsla sveitarstjóra, er vaninn að sveitarstjóri skýri hreppsnefndarmönnum frá málum sem unnið er að og erindum sem komið hafa inn og hreppsnefnd varðar. Slíkri upplýsingagjöf hefur verið illa sinnt núna í nokkra mánuði af oddvita og sveitarstjóra og það er ekki ásættanlegt. Ég gaf sveitarstjóra á seinasta fundi frest milli funda til að bæta þessi vinnubrögð og sé á þessum fundi að það hefur verið gert þannig að betra er núna en áður og ég vænti þess að svo verði áfram.”
2. Samþykkt um gatnagerðargjöld fyrir Borgarfjarðarhreppi
Hreppsnefndin fór yfir fyrirliggjandi drög og samþykkti þau síðan með áorðnum breytingum.
3. Eyðublað fyrir lóðaleigusamninga
Farið yfir drög að lóðaleigusamningum.
4. Skólahaldsáætlun
Í skólahaldsáætlun fyrir skólaárið 2008 til 2009 kemur fram að kennslustundir á viku eru 99,5 á skólaárinu, kennt er í þremur deildum. 18 nemendur stunda nám við Grunnskóla Borgarfjaðar á skólaárinu og kemur einn nemandi frá öðru sveitafélagi. Sundkennsla fer að mestu fram á haustönn.
5. SSA þing
Jakob kjörinn fulltrúi á þingið og Kristjana til vara.
6. Minjasafn Austurlands, endurskoðun á samstarfssamningi
Samningurinn samþykktur einróma.
7. Boranir, hitastigulsholur notkun varmadæla
Ómar Bjarki Smárason frá Stapa ehf – Jarðfræðistofu var á ferð hér s.l. föstudag og kynnti þá möguleika sem eru fyrir hendi í borun hitastigulshola sem og mögulega á virkjun þeirra fyrir varmadælur. Borgarfjarðarhreppur fékk styrk til rannsóknaboranna frá Orkusjóði að upphæð kr.5milj. og 50 þús.
8. Umsögn um veitingu rekstrarleyfa til Álfheima ehf
Hreppsnefndin hefur ekkert við veitingu leyfisins að athuga.
9. Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands
Fundurinn verður haldinn í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði föstudaginn 24. okt. Susanne Neumann kjörin fulltrúi Borgarfjarðarhrepps og Helgi Hlynur Ásgrímsson til vara.
10. Uppgjör við fyrrverandi sveitarstjóra
Steinn vakti athygli á hugsanlegu vanhæfi og var vanhæfi hans samþykkt einróma.
Fyrrverandi sveitastjóri Steinn Eiríksson krefur Borgarfjarðarhrepp um dráttavexti frá mars 2008 af orlofsgreiðslu sem greidd var honum 1. ágúst 2008 auk þess sem hann fer fram á laun fyrir marsmánuð. Í bókun hreppsnefndar frá 7. janúar segir:
,,Ráðning sveitastjóra
Steinn gefur ekki kost á framlengingu ráðningasamnings sem rann út um sl. áramót. Auglýst verður eftir sveitastjóra en Steinn mun sinna starfinu áfram næsta misserið uns nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn.”
Með vísan í þessa bókun og að fengnu áliti lögfræðings fellst hreppsnefndin á að greiða Steini dráttavexti á orlofið en hafnar kröfu hans um laun fyrir marsmánuð enda tók nýr sveitastjóri til starfa 1. mars.
Steinn Eiríksson mætti aftur til fundarins við 11. dagskrárlið.
11. Bréf frá bæjarráði Seyðisfjarðar frá 4. sept. 2008
Varðar: Yfirlýsingu um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og bókun sambandsins vegna áfangaskýrslu um yfirtöku sveitafélaga á málefnum fatlaðra og aldraðra frá 22. ágúst 2008.
,,Bæjarráð Seyðisfjarðar leggur á það þunga áherslu að ríkisstjórn og stjórn Sambands sveitarfélaga nái sem fyrst að ganga frá hinum ýmsu fjármálalegu samskiptum ríkis og sveitafélaga enda skiptir niðurstaða þeirra mála sem fram koma í yfirlýsingunni miklu máli við gerð fjárhagsáætlana næsta árs. Varðandi yfirtöku á málefnum fatlaðra og aldraðra verður að tryggja að nægjanlegir tekjustofnar fylgi yfirtöku þessara verkefna. Ljóst er að mati bæjarráðs Seyðisfjarðar að smærri sveitarfélög hljóti að verða að sameinast um svona verkefni. Eðlilegast er að mati bæjarráðs að sveitafélög á Austurlandi sameinist um þetta mikilvæga verkefni og að viðræður milli aðila hefjist sem fyrst um það.”
Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps lýsir ánægju með frumkvæði Seyðfirðinga og styður bókunina.
Fundi slitið kl:22.30
Kristjana Björnsdóttir
ritaði
Minnt er á eindaga umsókna um lán hjá Atvinnuaukningasjóði sem er 1. okt. n.k. Úthlutunarreglur og umsóknareyðublöð má nálgast á Hreppsstofu.