Árið 2005, mánudaginn 24. okt. var fundur haldinn í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps, sem hófst í Hreppsstofu kl 17:00. Fundarmenn: Jóna Björg, Kristjana, Jakob og Jón Sigmar ásamt sveitarstjóra. Þetta gerðist á fundinum:
1. Skýrsla sveitarstjóra:
Greint frá stöðu og framgangi ýmissa mála t.d. tekjujöfnunarframlag, starfsmat, Atvinnuaukningarsjóður, ADSL, dvalarheimili aldraðra, skipulagsfundur, þingmannafundur og Álfasteinsábyrgð (gamli). Í lokin var farið yfir lög og reglur um vanhæfi og hæfi sveitarstjórnarmanna og greint frá nokkrum úrskurðum félagsmálaráðuneytisins þetta varðandi.
2. Bryggjusmíði:
Fram lagðar áætlanir og drög að samkomulagi við Siglingastofnun um að Borgarfjarðarhreppur taki að sér að smíða lengingu við Nýju-bryggju í bátahöfn eftir reikningi en þó fari kostnaður ekki yfir ákveðið hámark. Hreppsnefndin samþykkir samningsgerð á þessum nótum en þó með fyrirvara um að þurfi að kalla til kafara verði það skoðað sérstaklega.
3. Svæðisskipulag Héraðssvæðis:
Hreppsnefndin hefur ekkert að athuga við fyrirhugaðar breytingar á svæðisskipulaginu í Fljótsdalshreppi.
4. Byggðaáætlun 2006 - 2009:
Tekin fyrir drög að áætluninni sem hreppsnefndin sér ekki ástæðu til að skipta sér af.
5. Fjallskilasamþykkt:
Fjallað um drög að samþykktinni, sem unnin voru af nefnd kosinni af Héraðsnefnd Múlasýslna. Hreppsnefndin telur að fyrirhugaðar breytingar á fjallskilasamþykktinni verði til verulegra bóta en nokkur atriði þurfa þó nánari athugunar við og mun nefndin koma athugasemdum á framfæri.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl 20:15
Undirskriftir
Magnús Þorsteinsson fundarritari