Fara í efni

Hreppsnefnd Borgarjarðar

8. fundur 15. mars 2004

Árið 2004, mánudaginn 15. mars, var haldinn fundur í hreppsnefnd Borgarfjarðar-hrepps, sem hófst kl 17:00 í Hreppsstofu. Fundarmenn: Kristjana, Jón Sigmar, Jakob, Jóna Björg og Baldur ásamt sveitarstjóra. Þetta gerðist á fundinum:

1. Skýrsla sveitarstjóra:
Drepið á nokkur mál svo sem fjárhagsáætlanir í fyrirskipuðu formi, þrotabú Álfasteins, nýja Álfastein, Austurlandssýningu, samgöngumálþing, Bláfána og ýmis fundarboð. Samþykkt að sleppa gjaldtöku vegna hunda og katta fyrir síðastliðið ár vegna þess að hreinsunartíminn hefur færst svo mikið aftur.
Um læknisþjónustu var gerð svofelld ályktun:
Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps lýsir áhyggjum vegna fækkunar lækniskoma til Borgarfjarðar. Læknir hefur ekki starfað í heilsugæsluselinu síðastliðnar fimm vikur og mun ekki vera að vænta komu hans fyrr en í mai. Hreppsnefndin telur þetta óviðunandi ástand.

2. Iðngarðasamþykkt:
Vegna breyttra aðstæðna ákvað hreppsnefndin að fella úr gildi samþykkt um rekstur iðngarða á Borgarfirði. Leigusamningar í Iðngörðum verða því framvegis eins og tíðkast um atvinnuhúsnæði.

3. Atvinnuaukningarsjóður:
Gerð var smábreyting á l. málslið 6. gr. reglugerðar fyrir Atvinnuaukningarsjóð Borgarfjarðarhrepps, sem verður þá svohljóðandi:
Lánin skulu veitt gegn sjálfskuldarábyrgð og veði, sem hreppsnefndin samþykkir.

4. Ós:
Ákveðið að leigja út hluta af lögbýlinu Ósi til næstu fimm ára með svipuðum leiguskilmálum og síðasta leigutímabil.

5. Jökulsá:
Að undangengnum viðræðum við oddvita og sveitarstjóra við Þorstein Kristjánsson, sbr. fundargerð 3. feb., heimilar hreppsnefndin þeim að ganga til samninga við hann um sölu á nokkru af hluta hreppsins í Jökulsá með breyttum lanadamerkjum.

6. Samstarf á Norðursvæði:
Framlögð fundargerð frá fundi fulltrúa sveitarfélaganna á Norðursvæði Austurlands frá 25. feb. sl. Hreppsnefndin telur einsýnt að hraðað verði vinnu við sameiginlegar almanna- og brunavarnir á svæðinu, sem einhugur virðist vera um.
Jóna Björg tilnefnd í vinnuhóp til þess að halda áfram undirbúningi að stofnun sameiginlegrar félags- og skólaþjónustu á Norðursvæði Austurlands. Nefndin er samþykk stofnun formlegs samstarfshóps á Norðursvæðinu eins og lagt er til.

7. Skipulag:
Hreppsnefndin hefur farið yfir drög að skipulagsgreinargerð og uppdrætti og gert athugasemdir, sem komið verður á framfæri. Umfjöllun um drögin verður lokið á næsta fundi.

8. Héraðsstjórnarfundargerð 9. mars lögð fram til kynningar.

Næsti reglulegi fundur hreppsnefndar verður 29. mars nk.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl 21:30

Undirskriftir
Magnús Þorsteinsson
fundarritari

Minnt er á eindaga lánsumsókna í Atvinnuaukningarsjóð 1. apríl nk.

Getum við bætt efni þessarar síðu?