Árið 2003, mánudaginn 17. nóv. var haldinn hreppsnefndarfundur, sem hófst kl 17:00 í Hreppsstofu. Fundarmenn: Kristjana, Jakob, Jón Sigmar, Baldur og Jóna Björg ásamt sveitarstjóra. Fyrir var tekið:
1. Skýrsla sveitarstjóra:
Lögð fram gögn um ehf-væðingu o.fl. Oddviti sagði frá fjármálaráðstefnu og Álfasteinsfundi. Samþykkt að framlengja ráðningarsamning sveitarstjóra til miðs árs 2004.
2. Útsvarsprósenta tekjuárið 2004 ákveðin 13,03%, sem er hámarksálagning.
3. Aðalfundur Héraðsnefndar Múlasýslna:
Fulltrúi Borgarfjarðarhrepps kosinn Kristjana Björnsdóttir og Baldur Guðlaugsson til vara.
4. Gjaldskrá HAUST:
Ný gjaldskrá staðfest af hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps.
5. Hafna- og sjóvarnaáætlun 2005 - 2008:
Að athuguðu máli telur hreppsnefndin vænlegra að stefna að lengingu Nýju-bryggju í bátahöfn í átt að Hólma í stað flotbryggju á svæðinu, sem er á framkvæmdaáætlun 2006. Einnig verður sótt um sjóvarnafé til að verja Fiskmóttöku og Karlfjörubakka.
6. Skipulag/Náttúruverndaráætlun:
· Hreppsnefndin fellst fyrir sitt leyti á tillögu í drögum að Náttúruverndaráætlun 2004 - 2008 um friðlýsingu sjaldgæfra plöntutegunda í Borgarfjarðarhreppi. Nefndin telur þetta raunhæft fyrsta skref í átt að hugsanlegum frekari friðlýsingum í sveitarfélaginu.
· Stefnt er að því að hefja fornleifaskráningu í hreppnum í tengslum við vinnu að aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps 2004 - 2016. Í framhaldi af fornleifaskráningunni verði leitað samstarfs við landeigendur í Víkum og Loðmundarfirði um friðlýsingu yngri búsetuminja á svæðinu.
· Í aðalskipulaginu verði Víkur og Loðmundarfjörður skilgreind sem útivistarsvæði með göngu - og jeppaleiðum.
( Þá voru ræddar hugmyndir sveitarstjóra um friðlýsingu Loðmundarfjarðar hvað varðar lausagöngu búfjár.)
Hér viku Baldur og Jón Sigmar af fundi.
7. Byggðakvóti hinn nýi:
Sjávarútvegsráðuneytið hefur fallist á eftirfarandi tillögur hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps um úthlutun aflaheimilda, sbr. 4. gr. reglugerðar nr 596, 8. ágúst 2003, um úthlutun á 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum, með smá orðalagsbreytingum:
1. Hreppsnefndin auglýsir eftir umsóknum um Byggðakvóta.
2. Byggðakvótanum verður skipt jafnt milli þeirra báta sem skráðir voru og gerðir út frá Borgarfirði í upphafi fiskveiðiársins.
3. Þeir sem fá úthlutað byggðakvóta skuldbindi sig til að leggja hann upp til vinnslu á Borgarfirði. Þá skuldbindi þeir sig ennfremur til að selja ekki eða leigja frá sér aflaheimildir á fiskveiðiárinu umfram það sem þeir leigja eða kaupa til sín.
4. Telji einhver, sem hefur fengið til sín byggðakvóta, sér nauðsynlegt að láta frá sér meiri aflaheimildir en þeir fá til sín sbr. 3. tl. þá skal viðkomandi gera fyrir lok maímánaðar sveitarstjórn grein fyrir því og afsala sér jafnframt byggðakvótanum, sem þá verður skipt milli annarra báta sem úthlutun hafa fengið.
Til úthlutunar eru 20,7 þorskígildistonn í Borgarfjarðarhreppi. Umsóknarfrestur er til kl 16:00 mánudaginn 24. nóv.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl 20:00
Undirskriftir
Magnús Þorsteinsson
fundarritari