Árið 2003, mánudaginn 7. júlí kom hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps saman til fundar í Hreppsstofu kl 17:00. Á fundinum voru Kristjana, Jón Sigmar, Jakob og Baldur ásamt sveitarstjóra. Þetta gerðist á fundinum:
1. Skýrsla sveitarstjóra:
Talað um ársskýrslu, klæðingu, sveitarotþrær, leiguíbúðir og Bláfánann.
Samþykkt að greiða þátttakendum á slökkviliðsnámskeiði kr 5.000 á dag í laun.
2. Oddvitakosning:
Oddviti til eins árs var kjörinn Kristjana Björnsdóttir með þremur atkvæðum, tveir seðlar voru auðir. Varaoddviti var kjörinn Baldur Guðlaugsson með tveimur atkvæðum, tveir seðlar auðir og einn ógildur. Fundartími hreppsnefndarfunda óbreyttur næsta ár. Magnús féllst á að gegna áfram starfi sveitarstjóra fyrst um sinn og fékk leyfi frá hreppsnefndarstörfum sama tímabil.
3. Héraðsstjórnarfundargerð 23.06. lögð fram til kynningar svo og rekstrarreikningur Héraðsstjórnar Héraðssvæðis.
4. Húsaleigusamningur v/skóla:
Lagður fram samningur sem tekur mið af breyttum og minnkuðum afnotum skólans af Fjarðarborg, sem hreppsnefndin er sátt við fyrir sitt leyti.
5. Tjaldsvæðisgjaldskrá:
Samþykkt að hafa óbreytta gjaldskrá frá fyrra ári.
6. Borgarfjarðarhöfn:
Hreppsnefndin samþykkir einróma að rekstrarform Borgarfjarðarhafnar verði höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélagsins ( sem er óbreytt rekstrarfyrirkomulag).
Kynnt ný gjaldskrá samgönguráðuneytisins fyrir hafnir, sem gilda mun næsta tólf mánuði en að þeim tíma liðnum verður gjaldskrá á höndum hafnarstjórnanna sjálfra. Hækkun afla- og bryggjugjalda er um 60% enda gert ráð fyrir að hafnarsjóðir standi að mestu sjálfir undir framkvæmdakostnaði framvegis.
7. Skipulag:
a) Tillaga um breytingu á aðalskipulagi hvað varðar legu vegar sunnan þéttbýlis á Bakkagerði hefur fengið lögformlega meðferð. Engar athugasemdir bárust. Hreppsnefndin samþykkir því skipulagsbreytinguna, sem verður send ráðherra til staðfestingar.
b) Tjaldsvæðisskipulag. Lögð fram tillaga Landmótunar að skipulagi tjaldsvæðisins og húsbílastæða utan við það.
c) Þemafundur: Stefnt að þemafundi um Víkur og Loðmundarfjörð laugardaginn 30. ágúst n.k.. Nokkrum aðilum verður sent bréf og óskað eftir þátttöku þeirra í fundinum.
Magnús Þorsteinsson ritaði fundargerð og hvarf nú af fundi.
Oddviti tók við ritun fundargerðar.
8. Stjórnsýslukæra v/hreindýraarðs:
Umhverfisráðuneytið óskar eftir umsögn Borgarfjarðarhrepps vegna stjórnsýslukæru Magnúsar Þorsteinssonar. Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps telur kæru Magnúsar Þorsteinsonar réttmæta. Nefndin er sammála um að úthlutunarreglur þær sem hreindýraráð virðist hafa notað við úthlutun arðs árið 2002 þarfnast verulegrar endurskoðunar og telur nefndin eðlilegt að landstærð hafi meira vægi í heildarúthlutun. Þá telur nefndin sjálfgefið að í þeim hreppum þar sem nákvæm landstærð jarða liggur fyrir séu þær tölur lagðar til grundvallar útreikninga í stað þess að nota huglægt mat eins og nú virðist notað til að skipa jörðum í stærðarflokka, sem hlaupið geta á tugum prósenta. Við skoðun á úthlutun hreindýraarðs í Borgarfjarðarhreppi árið 2002 blasir við hróplegt ósamræmi milli einstakra jarða, eins og skýr dæmi eru um í bréfi Magnúsar til hreindýraráðs frá 11.12.2002.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl 23:20
Kristjana Björnsdóttir
Baldur Guðlaugsson
Jakob Sigurðsson
Jón S Sigmarsson