Fara í efni

Um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, mál 354

Málsnúmer 202012113

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð Múlaþings - 8. fundur - 15.12.2020

Fjölskylduráð fagnar framkomnu farsældarfrumvarpi barna- og félagsmálaráðherra um bætta þjónustu í þágu barna með áherslu á snemmtæka og samþætta þjónustu við börn á æsku- og mótunarskeiði. Frumvarpið er í samræmi við vinnubrögð Austurlandslíkansins í Múlaþingi, Vopnarfjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi og styður við frekari innleiðingu á því verklagi. Nýlega kynnti Haraldur L. Haraldsson hagrænan ávinning af innleiðingu laganna þar sem fram kom að ávinningur væri verulegur og þjóðhagslega hagkvæmur eftir tíu ára vinnu með nýju verklagi og nálgun í þjónustu og stuðningi við börn og barnafjölskyldur. Fjárhagslegur ávinningur til framtíðar er meiri í 2. og 3. stigs þjónustu sem er frekar á höndum ríkisins en kostnaður aftur á móti meiri hjá sveitarfélögum sem sinna frekar 1. stigs þjónustu í nánd við skjólstæðinga. Í kynningu Haraldar kom fram að hann áætlar að skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga sé í samræmi við fjölda barna á grunnskólaaldri og yngri, um 80% barnafjöldans annars vegar er tilheyrir sveitarfélögum og hins vegar ungmenni á framhaldsskólaaldri í kringum 20% sem falli í hlut ríkisins. Við þessa skiptingu vill fjölskylduráð Múlaþings koma á framfæri eftirfarandi athugasemd. Af þeim hluta ungmenna á aldrinum 16-18 ára sem ekki eru lengur í grunnskóla, eru einstaklingar sem ekki sækja nám og eru jafnvel lítið félagslega virkir og þurfa mikla þjónustu og stuðning. Þessir einstaklingar að megninu til, fá þjónustu frá félagsþjónustum sveitarfélaga þar sem miklu er kostað til. Ráðið vill því beina þeim tilmælum til Barna- og félagsmálaráðuneytisins að kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði heldur áætluð 85% og 15% sökum þessa og tekið tillit til þjónustu við þungan skjólstæðingahóp á viðkvæmum aldri.
Fjölskylduráð Múlaþings vill árétta mikilvægi þess að nýtt og bætt verklag verði vel fjármagnað svo hægt sé að ná fram félagslegum og hagrænum ávinningi í bráð og lengd. Fjármunir verða að koma frá ríkinu til sveitarfélaga svo innleiðing á nýrri löggjöf takist og verði sá ávinningur í raun sem að er stefnt.

Samþykkt samhljóða.
Getum við bætt efni þessarar síðu?