Fara í efni

Umsókn um framkvæmdaleyfi, Skógrækt, Hvanná 1

Málsnúmer 202205025

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 57. fundur - 21.06.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á 82,4 ha svæði í landi Hvannár 1 (L156914) á Jökuldal. Fyrirhuguð áform eru í samræmi við stefnu Aðalskipulags Fljótsdalshéraðs 2008-2028 þar sem framkvæmdasvæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Ekkert deiliskipulag er í gildi af svæðinu og en samþykki landeiganda aðliggjandi jarðar, Hauksstaða 2 (L156906), liggur fyrir. Hluti fyrirhugaðs ræktunarsvæðis er innan svæðis nr. 642 á náttúruminjaskrá; Gilja- og Hauksstaðahólar.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að heimila skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi með fyrirvara um jákvæðar umsagnir Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Fiskistofu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 60. fundur - 22.08.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að nýju umsókn um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra áforma um skógrækt á 82,4 ha svæði í landi Hvannár 1 (L156914) á Jökuldal. Hluti fyrirhugaðs ræktunarsvæðis er innan svæðis nr. 642 á náttúruminjaskrá, Gilja- og Hauksstaðahólar, og liggur fyrir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt viðbrögðum framkvæmdaraðila við henni.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa umsögn NÍ og viðbrögðum framkvæmdaaðila til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs sem náttúruverndarnefndar til umsagnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 26. fundur - 01.09.2022

Fyrir liggur umsókn um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra áforma um skógrækt á 82,4 ha svæði í landi Hvannár 1 (L156914) á Jökuldal. Hluti fyrirhugaðs ræktunarsvæðis er innan svæðis nr. 642 á náttúruminjaskrá, Gilja- og Hauksstaðahólar, og liggur fyrir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt viðbrögðum framkvæmdaraðila við henni.

Umhverfis- og framkvæmdaráð fjallaði um málið á 60. fundi sínum og samþykkti að vísa umsögn NÍ og viðbrögðum framkvæmdaaðila til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs sem náttúruverndarnefndar til umsagnar.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs leggur til við umhverfis- og framkvæmdaráð að óskað verði eftir að framkvæmdaaðili skili inn skýrari gögnum og þá sérstaklega uppdrætti af fyrirhuguðu skógræktarsvæði. Þar verði t.d. gerð grein fyrir með skýrum hætti hvaða trjátegundum fyrirhugað er að planta og hvar á svæðinu. Sýnt verði hvar eru náttúrulegir birkiskógar á umræddu framkvæmdasvæði og að skýrt komi fram í hvaða slík birkiskógasvæði eigi ekki að planta öðrum tegundum. Einnig verði látið koma fram hvar minjar eru á svæðinu og helgunarsvæði þeirra. Þá leggur heimastjórnin til að framkvæmdasvæðið nái ekki inn á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Þannig verði dregið úr neikvæðri ásýnd af framkvæmdinni á jökulvatnasethóla frá ísöld og tryggður sýnileiki jarðminjanna á náttúruminjaskrá.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 63. fundur - 19.09.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að nýju umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Hvannár 1 (156914) á Jökuldal. Umsögn heimastjórnar Fljótsdalshéraðs sem náttúruverndarnefndar liggur nú fyrir auk uppfærðrar ræktunaráætlunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við fyrirhuguð áform.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?