Fara í efni

Umferð um slóða við Hólshjáleigu

Málsnúmer 202206086

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 23. fundur - 27.06.2022

Fyrir liggur tölvupóstur, dagsettur 9. júní 2022, frá Kristínu Atladóttur íbúa í Hólshjáleigu í Hjaltastaðaþinghá, þar sem vakin er athygli á vaxandi umferð ökutækja niður Eyjar að Húseyjartorfu og þaðan á sandinn. En á svæðinu er viðkvæmt gróðurlendi enda uppgræðslusvæði og svæðið er einnig skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Enn fremur er þarna athvarf sela, bæði í hafi og í Lagarfljóti.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs tekur undir með því sem fram kemur í erindinu að á Héraðssöndum er viðkvæmur gróður- og dýralíf.

Heimastjórnin beinir því til byggðaráðs að bæta merkingar á svæðinu m.a. til að stýra umferð um slóða sem og takmarka umferð á varptíma um land sveitarfélagsins.

Einnig beinir heimastjórn því til umhverfis- og framkvæmdaráðs að brugðist verði við ábendingum um efnistöku á svæðinu.

Heimastjórnin leggur til að gerður verði vegur og bílastæði á völdu svæði á Héraðssöndum, í samráði við landeigendur og Landgræðsluna, til að bæta aðgengi almennings að söndunum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Byggðaráð Múlaþings - 55. fundur - 05.07.2022

Fyrir liggur bókun fundar heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, dags. 27.06.2022, þar sem tekið var m.a. fyrir erindi frá íbúa í Hólshjáleigu í Hjaltastjaðaþinghá varðandi vaxandi umferð ökutækja niður Eyjar að Húseyjartorfu og þaðan á sandinn. Heimastjórnin beinir því til byggðaráðs að bæta merkingar á svæðinu m.a. til að stýra umferð um slóða sem og takmarka umferð á varptíma um land sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings tekur undir mikilvægi þess að merkingar á svæðinu við Héraðssanda verði bættar með það að markmiði að stýra umferð um svæðið sem og að takmarka umferð á varptíma. Byggðaráð samþykkir að fela verkefnisstjóra umhverfismála sveitarfélagsins umsjón verksins.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 58. fundur - 05.07.2022

Fyrir liggur tölvupóstur, dagsettur 9. júní 2022, frá Kristínu Atladóttur íbúa í Hólshjáleigu í Hjaltastaðaþinghá. Erindið var tekið fyrir hjá heimastjórn Fljótsdalshéraðs þann 27. júní sl. þar sem samþykkt var að beina því til umhverfis- og framkvæmdaráðs að bregðast við ábendingum um efnistöku á svæðinu. Jafnframt leggur heimastjórn til í bókun sinni að gerður verði vegur og bílastæði á völdu svæði á Héraðssöndum, í samráði við landeigendur og Landgræðsluna, til að bæta aðgengi almennings að söndunum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að setja sig í samband við forsvarsmenn um Úthéraðsverkefnið varðandi næstu skref um aðgengi að söndunum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?