Fara í efni

360° Sýndarferðalag komið í loftið

14.06.2022 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Vefurinn 360° Sýndarferðalag hefur verið settur í loftið og er fólk hvatt til þess að kynna sér þetta skemmtilega verkefni. Vefurinn gefur fólki tækifæri á að skoða sveitafélögin Múlaþing og Fljótsdalshrepp með 360° útsýni og lesa sér til um vissa áningarstaði, kynna sér gönguleiðir og helstu þjónustu. Þegar smellt er á upplýsingahnappa á vefnum kemur upp gluggi sem inniheldur upplýsingar um viðkomandi stað og vilji fólk lesa sér frekar til þá leiðir hann viðkomandi inn á heimasíðu sem ætti að geta svarað frekari spurningum.

Það tók tvö ár að safna myndum fyrir vefinn og er öflun myndefnis hvergi nærri lokið enda lifandi verkefni. Hafþór Snjólfur Helgason landfræðingur og margmiðlunarhönnuður setti ferðarlagið saman úr 5200 ljósmyndum sem hann hefur tekið á ferð sinni um Múlaþing og Fljótsdalshrepp.

Jónína Brá Árnadóttir verkefnastjóri á sviði menningarmála sem kom að verkefninu fyrir hönd Múlaþings er spennt að sjá vefinn fara í loftið svo almenningur geti farið að njóta góðs af. Þegar hún var spurð út í notagildi vefsins stóð ekki á svörum:

,,Þetta er ótrúlega spennandi viðbót við upplýsingagjöf og kemur vonandi til með að nýtast fjölbreyttum hópi fólks - ekki bara ferðafólki heldur líka brottfluttum með heimþrá, gangnastjórum í smölun, leiðsögumönnum á leið í göngur og almennt öllu fróðleiksfúsu áhugafólki. Vefurinn í grunninn er frábært tæki til upplýsingagjafar og getur einnig nýst sem öryggistól, miðlun á menningu, sögu og örnefnum, við undirbúning ferða um svæðið, listinn er ótæmandi. Tækifærin til að bæta við eru óendanleg og það verður gaman að sjá vefinn vaxa og nýtast sem flestum.

Ekki skemmir fyrir hvað Múlaþing geymir margar fallegar perlur, sem núna er hægt að skoða heima úr sófanum.

Ég mæli þó með heimsókn um svæðið í persónu!“

Múlaþing vonar að íbúar sveitafélagsins og aðrir áhugasamir muni njóta þess að skoða svæðið frá nýju sjónarhorni. Í sumar stendur síðan til að þétta vefinn enn frekar og stefnir Hafþór Snjólfur meðal annars á að mynda Fjarðarheiði, Skálanesbjarg og Eyvindarárdal svo eitthvað sé nefnt.

Þá er einnig hægt að skoða vefinn í gegnum ferðavefi Múlaþings:

visitseydisfjordur.com

visitdjupivogur.is

visitegilsstadir.is

borgarfjordureystri.is

360° Sýndarferðalag komið í loftið
Getum við bætt efni þessarar síðu?