Fara í efni

Almannavarnastig lækkað í óvissustig

26.01.2021 Fréttir Aurskriður á Seyðisfirði

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi hefur ákveðið að lækka almannavarnastig á Seyðisfirði úr hættustigi á óvissustig. Hættustig hefur verið í gildi frá 20. desember þegar það var lækkað úr neyðarstigi vegna skriðunnar sem féll 18. desember síðastliðinn.

Síðustu vikur hefur farið fram hreinsun á áhrifasvæðum skriðufalla sem féllu 15.-18. desember og hefur gengið vel. Samhliða hreinsuninni hefur verið unnið að gerð bráðavarna og telst þeim lokið á nokkrum svæðum. Jafnframt er fylgst grannt með frekari skriðuhættu og telst hún ekki yfirvofandi til skamms tíma litið. Vegna þessa hefur verið ákveðið að aflétta rýmingu á þeim húsum sem standa undir Múlanum:

Um er að ræða hús við Hafnargötu nr. 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c, en þau hafa öll verið rýmd frá því 18. desember þegar stóra skriðan féll. Búið er að kynna íbúum undir Múla þessa ákvörðun.

Unnið er að frumathugun vegna varanlegra varna fyrir byggðina og endurskoðun á hættumati vegna skriðufalla. Unnið er að sérstöku mati fyrir svæðið utan við stóru skriðuna sem féll 18. desember við Stöðvarlæk og má búast við niðurstöðum á næstu dögum. Ekki er enn sem komið er heimilt að dvelja í þeim íbuðarhúsum samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.

Gerð reitaskipts rýmingakorts vegna hættu á skriðuföllum er á lokastigum. Áfram má búast við að gripið verður til rýminga á næstu mánuðum ef veðurskilyrði verða óhagstæð eða mikil rigning í veðurspám.

 

Opnunartími Þjónustumiðstöðvar almannavarna í Herðubreið á Seyðisfirði er á milli klukkan 11-17 mánudaga til fimmtudaga og 11-16 á föstudögum. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is og hringja í 839 9931 utan opnunartíma.

Sjá inn á logreglan.is

Almannavarnastig lækkað í óvissustig
Getum við bætt efni þessarar síðu?