Fara í efni

Árleg vika kynheilbrigðis í Múlaþingi

07.02.2023 Fréttir

Nú er sjötta vika ársins 2023 hafin en hún hefur fest sig í sessi sem árleg vika kynheilbrigðis í skólum og félagsmiðstöðvum víða um land. Allar félagsmiðstöðvar Múlaþings helga dagskrá sína kynfræðslu og kynheilbrigðistengdum málefnum í viku 6 auk þess sem bókasöfnin á Egilsstöðum og Seyðisfirði hafa sett upp útstillingar með bókum tengdum vikunni.
Á hverju ári er unnið með mismunandi þemu en í ár er áherslan lögð á ,,Kynlíf og kynferðisleg hegðun". Ýmislegt er á döfinni í félagsmiðstöðvunum og verður meðal annars kynfærabakstur, kvikmyndakvöld, leikir, spurningakeppnir, trúnó og fleira.

Hluti af markmiðum þess að bjóða upp á þemaviku um kynheilbrigði í félagsmiðstöðvunum er meðal annars:

  • Að þjálfa börn og unglinga í að koma auga á og virða sín eigin mörk og mörk annarra. Að þau átti sig á að hver einstaklingur er einstakur og mörk fólks geta verið misjöfn.
  • Að auka þekkingu barna og unglinga varðandi kyn, kynvitund og kynhneigð, líkama, tilfinningar, réttindi, samskipti og kynheilbrigði.
  • Að efla sjálfsmynd barna og unglinga og þjálfa þau í gagnrýnni hugsun. Að efla þau í að taka ákvarðanir sem valda þeim og öðrum vellíðan en ekki skaða.
  • Að gera börn og unglinga meðvituð um kynheilsu sína og hvetja þau til að velja og hafna út frá sínum eigin forsendum en með virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi að leiðarljósi.
Árleg vika kynheilbrigðis í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?