Fara í efni

Ársskýrsla Minjasafns Austurlands og Alþjóðlegi safnadagurinn

11.05.2023 Fréttir Egilsstaðir

Ársskýrsla Minjasafns Austurlands fyrir árið 2022 er komin út. Þar er fjallað um starfsemina á árinu 2022 sem var fjölbreytt og blómleg enda má segja að á árinu hafi hjólin aftur farið að snúast með eðlilegum hætti eftir samkomutakmarkanir áranna á undan. Skýrslan er aðgengileg hér. Meðal efnis má finna upplýsingar um fjölgun gesta, sumarsýninguna Hreindýradraugur #3, viðburði og sýningar í tilefni páska, daga myrkurs og jóla, endurbætur á sumarhúsi Kjarvals, skráningu muna á Lindarbakka, hönnunarsmiðju um gersemar Fljótsdals, fyrirlestrarröðina Nýjustu fræði og vísindi, ráðstefnu safnafólks á Hallormsstað og skólaheimsóknir svo eitthvað sé nefnt.

Alþjóðlegi safnadagurinn er í næstu viku en þema dagsins í ár er söfn-sjálfbærni- vellíðan. Í tilefni af því verður sett upp sýning með gripum sem annað hvort er búið að gera við eða voru heimasmíðaðir og vekja þannig athygli á því hvað við getum lært af fyrri kynslóðum þegar kemur að nýtni. Einnig verður boðið upp á fataviðgerðarsmiðju í samstarfi við Soroptimistaklúbb Austurlands þar sem fólk getur komið og fengið aðstoð við að gera við föt og nýta þau þannig betur. Þá verður Minjasafnið með yfirtöku á Instagram reikningi Alþjóðlega safnadagsins á Íslandi. 

Ársskýrsla Minjasafns Austurlands og Alþjóðlegi safnadagurinn
Getum við bætt efni þessarar síðu?