Fara í efni

Átak í snyrtingu gróðurs á lóðamörkum

05.11.2021 Fréttir

Undanfarnar vikur hefur Múlaþing staðið fyrir átaki í að snyrta gróður sem vex út fyrir lóðamörk og hindrar þar umferð, skyggir á umferðarmerki, byrgir götulýsingu eða er vegfarendum og nágrönnum á annan hátt til ama.

Alls voru send 26 bréf til lóðarhafa þar sem ástandið var metið þannig að grípa yrði til aðgerða strax. Í bréfinu var hvatt til að sá gróður sem óx út fyrir lóðamörk, yrði klipptur og þess gætt að hann hamlaði ekki umferð eða truflaði nágranna og aðra vegfarendur á annan hátt. Nú í byrjun vikunnar var komið að því að kanna hver viðbrögðin hefðu orðið við bréfinu. Í ljós kom að á 16 stöðum hafði gróður verið klipptur, en við 10 lóðir hindraði gróður enn umferð þeirra sem eiga leið þar um. Þeim sem ekki brugðust við hvatningunni í fyrra bréfinu, verður nú veittur tveggja vikna frestur til að snyrta gróður á sínum lóðum.

Íbúum sem brugðust við fyrra bréfinu og eins þeim fjölmörgu íbúum sem halda gróðri alltaf innan sinna lóða, er þakkað kærlega fyrir þeirra aðstoð við að tryggja vegfarendum greiða leið og skapa umhverfi sem dregur úr líkum á slysum.

Samhliða þessu var farið yfir þann gróður sem er í eigu og á ábyrgð sveitarfélagsins og hann snyrtur eins og þurfti. Talið er að því verki sé nú lokið en ef íbúar hafa ábendingar um gróður, í umsjón sveitarfélagsins, sem enn hindrar umferð eða er vegfarendum á annan hátt til ama, eru ábendingar um slíkt vel þegnar og má senda þær á netfangið freyr.aevarsson@mulathing.is eða láta vita af þeim í afgreiðslu sveitarfélagsins í síma 4 700 700.

Átak í snyrtingu gróðurs á lóðamörkum
Getum við bætt efni þessarar síðu?