Fara í efni

Aurskriður á Seyðisfirði – rýming og samband við íbúa

22.12.2020 Fréttir Aurskriður á Seyðisfirði

Greining gagna og mat á stöðugleika á rýmingarsvæði hefur staðið yfir og er metið reglulega. Aðstæður hafa farið hratt batnandi eftir að rigningu slotaði og kólnaði í veðri. Hins vegar er gert ráð fyrir að hlýni að nýju í skamman tíma á aðfanga- og jóladag. Því munu hús sem efst eru í byggðinni í jaðri rýmingarsvæðis haldast óbreytt í rýmingu til 27. desember að minnsta kosti.

Ákvörðun um afléttingu rýmingar í öðrum húsum á rýmingarsvæði verður tekin síðar í dag. Gert er ráð fyrir að tilkynning um það verði send fyrir klukkan 19 í kvöld. Ef rýmingu verður ekki aflétt síðar í dag mun henni ekki aflétt fyrr en í fyrsta lagi 27. desember líkt og á við um hús efst í byggðinni í jaðri rýmingarsvæðis.

Líkt og í gær mun íbúum, öllum sem búa innan við Búðará og eiga hús á rýmingarsvæði gefinn kostur á að sækja nauðsynjar í hús sín. Hvatt er til að þeim ferðum verði mjög stillt i hóf en þeir sem vilja nýta þann möguleika gefi sig fram í Ferjuleiru á Seyðisfirði.

Fjöldahjálparstöð í Egilsstaðaskóla verður opin fyrri part dags á morgun en eftir það er bent á þjónustumiðstöð í Herðubreið á Seyðisfirði og á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Í gær og í dag hefur starfsfólk Múlaþings haft samband við Seyðfirðinga sem búa á svæðum þar sem rýmingu hefur enn ekki verið aflétt til að afla upplýsinga um aðstæður fólks á næstu dögum.

Þar sem ekki er alltaf samræmi á milli skráningar inn á fjöldahjálparstöð og skráningar í Þjóðskrá þá getur verið að einhverjir hafi orðið út undan og eru þau sem ekki hafa húsnæði á næstu dögum og búa á þessum svæðum því beðin að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 4 700 700.

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður
Getum við bætt efni þessarar síðu?