Fara í efni

Bætt afhendingaröryggi rafmagns til Seyðfirðinga

12.04.2024 Fréttir Seyðisfjörður

Eftir að HS orka keypti í fyrra Bjólfsvirkjun og Gúlsvirkjun sem saman kallast Fjarðarárvirkjun og eru samtals tæp 10 megavött var stjórnbúnaður uppfærður og er nú hægt að fjarstýra virkjununum og keyra svokallaða eyju á Seyðisfirði. Þá eru virkjanirnar látnar skila af sér rafmagni í takt við notkun á staðnum. Í tilkynningu frá RARIK segir að ef landskerfið bilar geti virkjanir í Fjarðará framleitt rafmagn beint inn á aðveitustöð á Seyðisfirði en þetta sé liður í að bæta afhendingaröryggi til Seyðfirðinga verulega.

Hætta á rafmagnsleysi eða truflunum á Seyðisfirði hefur því minnkað til muna eftir tilraunir sem RARIK og HS orka gerðu í tveimur virkjunum í firðinum. Bæjarbúar hafa verið háðir raforkuflutningum frá Héraði en geta nú í fyrsta sinn beintengst sínum heimavirkjunum. Seyðfirðingar fengu rafmagn árið 1913 þegar Fjarðarselsvirkjun var tekin í gagnið og voru sjálfum sér nógir um rafmagn um tíma en það breyttist þó í áranna rás. Notkunin jókst og þeir hafa lengi verið háðir rafmagnsflutningum frá Héraði. Virkjanirnar voru aldrei beintengdar við þorpið og fyrir vikið takmarkaðist afhendingaröryggi við gamla loftlínu Landsnets á Fjarðarheiði sem getur verið veðravíti og engin varaleið til staðar.

 

Bætt afhendingaröryggi rafmagns til Seyðfirðinga
Getum við bætt efni þessarar síðu?