Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir gífurlegum vonbrigðum með forgangsröðun jarðganga í tillögu að nýrri samgönguáætlun sem innviðaráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag. Þar kom fram að Fjarðarheiðargöng verða ekki næstu jarðgöng á Íslandi né eru þau á lista yfir jarðgöng næstu áratuga. Lengi hefur legið fyrir að rjúfa þurfi vetrareinangrun á Seyðisfirði með jarðgöngum ekki síst vegna ofanflóðahættu. Þegar hafa um 600 milljónir farið í rannsóknir og hönnun Fjarðarheiðarganga sem eru fullhönnuð og tilbúin til útboðs.
Kjörnir fulltrúar á Austurlandi hafa sameinast um stefnu varðandi uppbygginu samgönguinnviða í gegnum Svæðisskipulag Austurlands og með ítrekuðum bókunum SSA allt frá árinu 2013. Eingöngu með hringtengingu öruggra heilsárs samgangna, þar sem Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfanginn, verður fjölkjarnasamfélagið Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði sem getur vaxið áfram á eigin forsendum og verðleikum. Ljóst er að Fjarðagöng, sem innviðaráðherra leggur til að verði númer 2-3 á jarðgangalista, munu ekki ein og sér skapa örugga hringtengingu á Austurlandi því áfram verða Fjarðarheiði og Fagridalur farartálmar milli Héraðs og Fjarða vegna ófærðar og snjóflóðahættu á Fagradal.
Ein aðalforsendan fyrir tilurð Múlaþings voru bættar samgöngur innan sveitarfélagsins um Fjarðarheiðargöng og Öxi. Samgöngubætur hafa bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, styrkja ferðaþjónustu og skapa traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins sem allra fyrst.