Fara í efni

Bras er byrjað!

08.09.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

BRAS – sem er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi hefur fest sig í sessi sem árviss haustviðburður og þykir mörgum hátíðin verða orðin jafn sjálfsögð og skólabyrjun, smölun og haustlitir. Hátíðin í ár ber nafnið „Hringavitleysa“ og þema ársins er hringurinn. Hringurinn getur táknað allt milli himins og jarðar og það hentar mjög vel því verkefnin og viðburðirnir sem boðið verður uppá á BRASinu í ár verða allskonar, útum allt og fyrir öll börn og ungmenni á Austurlandi.

Viðburðir fara ýmist fram innan grunn- og leikskóla eða sem opnir viðburðir þar sem öll eru boðin velkomin til þátttöku.
Nú sem áður eru BRAS unnið í góðu samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi, menningarmiðstöðva, bókasafna, skóla, listafólks á svæðinu og List fyrir alla.
Menningarstofnanirnar þrjár á Austurlandi bjóða uppá fjölbreytta viðburði, sumir standa skólum til boða en aðrir eru opnir fyrir öll. Minjasafna Austurlands, söfnin í Fjarðabyggð, bókasöfn sveitarfélaga og austfirskir listamenn bjóða upp á opnar smiðjur auk þess sem List fyrir alla heimsækir allar grunnskóla með verkefnið Jazz hrekkur.

Sérstök áhersla verður lögð á það í ár að heiðra minningu Svavars Péturs Eystinssonar/ Prins Póló, en hann hannaði útlit og lógó BRAS og var þekktur fyrir að sjá húmorinn og gleðina í hinu hversdagslega. Boðið verður uppá tvo ólíka viðburði honum til heiðurs. Annar viðburðurinn verður í samstarfi við leikskólana á Austurlandi, en leikskólabörnum veðrur boðið að æfa þrjú af lögunum hans og flytja þau síðan á afmælisdegi Svavars, þann 26.apríl á næsta ári.
Síðari viðburðurinn verður mikið húllumhæ, en þá verður diskótek fyrir börn, ungmenni og forráðafólk. Viðburðirnir eru unnir í samstarfi við Havarí ehf. og vini Svavars.

Fylgjast vel með dagskrá BRAS hér.

       

Bras er byrjað!
Getum við bætt efni þessarar síðu?