Fara í efni

Breytingar á akstursleið strætó milli Egilsstaða og Fellabæjar

27.05.2025 Fréttir Egilsstaðir

Í sumar verður akstursleið strætó breytt í tilraunaskyni. Markmið breytinganna er að gera akstursleiðina skilvirkari á sama tíma og stoppi við Egilsstaðaflugvöll er bætt við. Sumaráætlun gildir frá 2. júní til 18. ágúst en breytingarnar verða endurskoðaðar fyrir gerð vetraráætlunar.

Að gefnu tilefni eru ökumenn beðnir um að taka ekki fram úr strætisvagninum á meðan hann hleypir farþegum inn og út. Það er einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir slys. Ökumenn eiga að geta beðið fyrir aftan strætó þá stuttu stund sem hann er stopp, sem er vanalega innan við hálfa mínútu.

Breytingar á akstursleið strætó verða eftirfarandi:

Stopp við Egilsstaðaflugvöll
Strætó mun stoppa við Egilsstaðaflugvöll í tengslum við áætlunarflug fyrir utan komur morgunvélarinnar. Stoppað verður fremst á bílastæði flugvallarins eða framan við húsnæði Brunavarna á Austurlandi til þess að komast hjá umferð framan við flugvallarhúsið.

Stopp í Hamragerði við grafreit fært á Kaupvang
Núverandi stopp við grafreitinn í Hamragerði myndar botnlanga á akstursleið strætó auk þess sem óhentugt getur verið að komast að því. Stoppið verður fært á Kaupvang milli MS og tjaldsvæðisins.

Stopp á Kaupvangi við Landsbankann fært neðan við Sláturhúsið
Það getur verið vandasamt fyrir löng ökutæki að beygja inn á Fagradalsbraut af Kaupvangi. Núverandi stopp á Kaupvangi við Landsbankann verður fært neðan við Sláturhúsið vegna breyttrar akstursleiðar strætó.

Stopp á Lyngási við bæjarskrifstofur eftir þörfum
Á leið strætó upp Fagradalsbraut verður stoppað á Lyngási við bæjarskrifstofur ef farþegi bíður á stoppistöð eða ef farþegi um borð óskar eftir stoppi. Annars heldur strætó áfram upp Fagradalsbraut og stoppar á næstu stoppistöð.

Tvö stopp í Fellabæ
Í Fellabæ verður stoppað á tveimur stöðum: á Einhleypingi við Brekkubrún og á Lagarfelli við Olís. Með breytingunni má fækka stoppum sem eru lítið notuð en þessi stopp eru vel staðsett og mest notuð.

Til skýringar eru hér fyrir neðan yfirlitskort með breytingunum:

  • Grænt er fyrir nýja akstursleið strætó.
  • Gult er fyrir núverandi leiðir eða stopp sem falla niður.
  • Rauðir punktar eru fyrir stoppistöðvar.
  • Fjólublátt er til að vekja athygli á stoppi við Lyngás eftir þörfum.

Hægt er að senda athugasemdir vegna breytinganna í gegnum ábendingagáttina eða með því að senda tölvupóst á umhverfisfulltrui@mulathing.is.

Breytingar á akstursleið strætó milli Egilsstaða og Fellabæjar
Getum við bætt efni þessarar síðu?