Fara í efni

Breytingar á byggingarreglugerð

28.12.2021 Fréttir

Breytingar á byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafa verið birtar í stjórnartíðindum og hafa með því tekið gildi. Markmið breytinganna er að einfalda leyfisveitingaferli við húsbyggingar og gera það skilvirkara.

Helst ber að nefna nýjan kafla í reglugerðinni (kafli 1.3) um flokkun mannvirkja og mannvirkjagerð. Umfangsflokkar taka mið af eðli, umfangi og samfélagslegu mikilvægi og eru eftirfarandi:

  • umfangsflokkur I (geymslur, bílskúrar, sumarhús o.fl.),
  • umfangsflokkur II (flest mannvirki, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús)
  • umfangsflokkur III (stór fjölbýlishús, sjúkrahús, skólar, virkjanir o.þ.h.)

Nú eru mannvirki í umfangsflokki I undanþegin byggingarleyfi, en háð byggingarheimild sem er nýtt hugtak og felur í sér að ekki þarf að skila ábyrgðaryfirlýsingum iðnmeistara, ekki þarf hönnunarstjóra og nægilegt er að skila séruppdráttum áður en lokaúttekt fer fram. Áður en slík mál eru tekin til afgreiðslu byggingarfulltrúa þarf þó að skila inn aðaluppdráttum ásamt ábyrgðaryfirlýsingu byggingarstjóra. Byggingarstjórar annast áfram áfangaúttektir eins og verið hefur. Byggingarheimild er útgefin af byggingarfulltrúa Múlaþings og þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

Mannvirki í umfangsflokki II og III eru áfram háð byggingarleyfi og gilda sömu kröfur og fyrir breytingu.

 

Vert er að kynna sér ákvæði um tilkynningarskyldar framkvæmdir (2.3.6. gr. byggingarreglugerðar) sem varðar palla, girðingar, skjólveggi og heita potta. Ákvæðin hafa verið einfölduð og falla nú undir tilkynningarskylda mannvirkjagerð sem þarf að tilkynna til byggingarfulltrúa Múlaþings. Lítil hús á lóð og viðbyggingar tilheyrðu áður flokki tilkynningaskyldra framkvæmda en falla nú undir byggingarheimild sbr. umfangsflokk I.

 

Nánar má lesa frétt um breytingarnar á vef HMS

Nánar um byggingarreglugerð með breytingum á vef HMS

 

Breytingar á byggingarreglugerð
Getum við bætt efni þessarar síðu?