Brúðubíllinn leggur upp í ferð um landið í sumar og mun stoppa á Egilsstöðum laugardaginn 28. júní og á Djúpavogi sunnudaginn 29. júní. Í bílnum verður boðið upp á brúðuleikritið Leikið með liti sem byggir á því besta úr safni Brúðubílsins og er fyrir börn á öllum aldri.
Í leikritinu verður farið til Dúskalands og Dúskamamma, Dónadúskurinn og Blárefurinn heimsótt. Einnig verður sungið og dansað með dýrunum í Afríku, haninn kennir Trúðastelpunni Höfuð, herðar, hné og tær auk þess sem geitafjölskyldan og tröllið undir brúnni koma við sögu.
Leikarar Brúðubílsins eru Hörður Bent Steffensen, Alex Leó og Helga Birna.
Sýningarnar hefjast kl. 11:00 og taka um 35 mínútur. Aðgangur er ókeypis. Nánari staðsetningar bílsins á hvorum stað verða auglýstar þegar nær dregur. Best er að fylgjast með Facebook-viðburðum sýninganna:
Múlaþing styrkir heimsóknir Brúðubílsins.