Fara í efni

Dagar myrkurs á Austurlandi

Ljósmynd Ómar Bogason.
Ljósmynd Ómar Bogason.

Hátíðin Dagar myrkurs verður haldin á Austurlandi 28. október - 1. nóvember í tuttugasta og fyrsta skipti. Hátíðin er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi og hefur það að markmiði að hvetja til samveru. Í ár verður lögð áhersla á að nýta tæknina og brydda upp á alls konar nýjungum í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu. Hátíðin hefur sterka tengingu við íslenska og keltneska siði frá fornri tíð.

 

Framkvæmdin á tímum heimsfaraldurs
Stýrihópur Daga myrkurs hittist fyrir skemmstu en í honum sitja meðal annars menningarfulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi og þar var ákveðið að í ár yrðu viðburðir með öðru sniði en venjulega. Áhersla yrði lögð á að nýta tæknina, til dæmis framleiðsla á hlaðvörpum þar sem lesnar yrðu sögur af draugum og vættum. Auk þess er fyrirhugað að halda bílabíó og hryllingsmyndabíó. Fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir eru hvött til þátttöku með því að vera með tilboð á vörum og með því að lýsa upp sínar byggingar. Að sama skapi eru íbúar hvattir til að lýsa upp heimili sín og í ár hvetjum við sérstaklega til þess að allir íbúar velji einn glugga á áberandi stað til að skreyta. Þemað í glugganum getur verið af hvaða toga sem er til dæmis rómantískur gluggi, draugagluggi, tröllagluggi eða Hrekkjavökugluggi. Hér gildir að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn! Síðan eru íbúar að sjálfsögðu hvattir til að ganga um hverfin sín í rökkrinu og njóta. Hvetjum einnig til að íbúar taki myndir af gluggunum sínum og setji á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.

Auk þessa er hvatt til samveru fjölskyldna. Til dæmis er hægt að koma saman og skera út í grasker og/eða rófur eins og gert var til forna. Taka myndir af listaverkunum og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs. Einnig er hægt að baka alls konar kökur, t.d. bollakökur sem hægt er að skreyta á fjölbreyttan hátt. Þannig getum við fengið hugmyndir hvert hjá öðru og átt góðar samverustundir saman.

Föstudaginn 30. október ætlum við að hafa búningadag í öllum fjórðungnum. Þennan dag eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til að gera sér glaðan dag, hægt er að veita verðlaun innan fyrirtækja fyrir frumlegasta búninginn, fallegasta búninginn og/eða hræðilegasta búninginn. Og munum að vera dugleg að taka myndir og setja á samfélagsmiðla!

Minnt er á að hátíðin á sér sterkar rætur en uppruna Hrekkjavöku, sem haldin er 31. október ár hvert, má rekja til Kelta. Til forna færðu þeir þakkir fyrir uppskeru sumarsins og kölluðu hátíðina sína hátíð hinna dauðu. Sambærileg hátíð var haldin á Íslandi fyrir kristnitöku er kölluð var Veturnætur og hefur þjóðfræðingurinn Terry Gunnell bent á að Hrekkajvökuhátíðin eigi sér þannig í raun íslenskan uppruna. Þessi keltneska/íslenska hátíð fluttist síðan til vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku. Hefð hefur því skapast fyrir því að tvinna saman þessum fornu hefðum og gera þær að okkar byggðahátíð um vetur.

Ljósmyndasamkeppni
Þá viljum við minna á ljósmyndasamkeppnina sem nú hefur fest sig í sessi. Öllum er velkomið að taka þátt, eina skilyrðið er að þemað „Myrkrið“ njóti sín á myndunum sem sendar eru inn. Veitt eru verðlaun uppá 50.000.- fyrir fyrsta sætið og Austurbrú áskilur sér rétt til að nota innsendar myndir til að kynna hátíðina. Myndir skal senda inná netfangið dagarmyrkurs@austurbru.is og er síðasti skiladagur 1. nóvember nk.

Njótum samverunnar
Íbúar Austurlands eru hvattir til að taka virkan þátt í Dögum myrkurs sem er okkar sameiginlega byggðahátíð. Lýsingar og tímasetningar á viðburðum má finna á vefsíðum sveitarfélaganna, Facebook og Instagram, undir Dagar myrkurs. Allir sem hafa áhuga á að bjóða uppá viðburð geta haft samband við menningarfulltrúa í sínu sveitarfélagi/byggðarkjarna.


Getum við bætt efni þessarar síðu?