Fara í efni

Dagar myrkurs á Austurlandi

08.10.2021 Fréttir

Hátíðin Dagar myrkurs verður haldin á Austurlandi 27. október - 31. október í tuttugasta og annað skiptið.

Dagar myrkurs er byggðahátíð Austurlands þar sem gervallur fjórðungurinn leggst á eitt við að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa það upp – ellegar undirstrika það með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf. Í fimm daga rekur svo hver viðburðurinn annan í hverju bæjarfélagi og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar; tónlist og myndlist verða í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, kertaljós og kósý-stundir í sundlaugum, ljóðalestur, skreyttir gluggar, draugagangur og afturganga, bílabíó og Ástardagar, sviðamessa, myrkra- og grímuböll, og stjörnum og norðurljósum fagnað svo eitthvað sé nefnt. Verslanir og þjónustuaðilar bjóða freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna.

Föstudaginn 29. október verður búningadagur í öllum fjórðungnum. Þennan dag eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til að gera sér glaðan dag og draga fram búningakistuna, hægt er að veita verðlaun innan fyrirtækja fyrir frumlegasta búninginn, fallegasta búninginn og/eða hræðilegasta búninginn. Og munum að vera dugleg að taka myndir og setja á samfélagsmiðla #dagarmyrkurs

Minnt er á að hátíðin á sér sterkar rætur en uppruna Hrekkjavöku, sem haldin er 31. október ár hvert, má rekja til Kelta. Til forna færðu þeir þakkir fyrir uppskeru sumarsins og kölluðu hátíðina sína hátíð hinna dauðu. Sambærileg hátíð var haldin á Íslandi fyrir kristnitöku er kölluð var Veturnætur og hefur þjóðfræðingurinn Terry Gunnell bent á að Hrekkajvökuhátíðin eigi sér þannig í raun íslenskan uppruna. Þessi keltneska/íslenska hátíð fluttist síðan til vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku. Hefð hefur því skapast fyrir því að tvinna saman þessum fornu hefðum og gera þær að okkar byggðahátíð um vetur.

Ljósmyndasamkeppni
Þá viljum við minna á ljósmyndasamkeppnina sem nú hefur fest sig í sessi. Öllum er velkomið að taka þátt, eina skilyrðið er að þemað „Myrkrið“ njóti sín á myndunum sem sendar eru inn. Myndir skal senda inná netfangið dagarmyrkurs@austurbru.is og er síðasti skiladagur 2. nóvember nk.

Njótum samverunnar
Íbúar Múlaþings, félagasamtök og fyrirtæki eru sérstaklega hvött til að taka virkan þátt í Dögum myrkurs sem er okkar sameiginlega byggðahátíð.

Fylgist með!

Ljósmynd Bergþóra Valgeirsdóttir. Mynd tekin á Lindarbrekku, Berufirði.
Ljósmynd Bergþóra Valgeirsdóttir. Mynd tekin á Lindarbrekku, Berufirði.
Getum við bætt efni þessarar síðu?