Fara í efni

Samstöðufundur kvenna á Hótel Héraði

25.10.2023 Fréttir

Síðastliðinn þriðjudag, 24.október voru haldnir Samstöðufundir til að stuðla að jafnrétti og útrýmingu kynbundnu ofbeldi bæði í Múlaþingi og Fjarðabyggð, var þátttaka kvenna og kvára mikil.

Á Egilsstöðum var fundurinn haldin á Hótel Héraði og hefur salurinn aldrei tekið svo marga áður að sögn Jóhönnu Heiðdal, hótelstýru. "Þátttakan fór fram úr okkar björtustu vonum, við vorum hrærðar og dásamlegt að sjá samstöðu kvenna á austurlandi" Jóhanna heldur áfram "Fundurinn var mjög góður, góð erindi, gaman að fá innsýni inn í ólíka heima, erlendra kvenna og kynsegin fólks á íslandi.. sérstaklega áhugavert að hlusta á hana Rögnu sem fór með erindi á fundinum en Ragna mætti á fyrstu mótmæli kvennréttinda baráttunnar árið 1975, aðeins 12 ára gömul, hún sagði frá sinni upplifun af breytingu í samfélaginu síðan þá". Jóhanna segir að þrátt fyrir öflugar breytingar og mikla sigra þá sé enn langur vegur framundan, við megum ekki sofna á verðinum.

Um ræðir Rögnu S. Óskarsdóttir, eiganda fyrirtækisins Íslenskur Dúnn ehf. sem sérhæfir sig í framleiðslu á sængum og koddum úr íslenska æðadúninum, en fyrirtækið er staðsett á Borgarfirði. Ragna sagði frá sinni upplifun á atvinnumarkaðinum sem væri oft á tíðum ansi neikvæður í garð kvenna. Ragna þuldi einnig upp mikilvæg tímamót í gegnum árin um styrkingu stöðu kvenna og jafnréttis sigra á öllum sviðum samfélagsins og ótrúlegt hafi verið að taka þátt í baráttunni.

Ásamt Jónínu og Rögnu voru eftirtaldir sem fóru með erindi á fundinum, Jónína Brynjólfsdóttir, Forseti sveitarstjórnar, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, en erindi Jónínu var að fjalla um listina við að benda á hið óáþreifanlega. Jónína talar um stöðuna eins og hún er í dag og hvaða skref öll þurfa að taka til að útrýma fjandsamlegri kynjahyggju. "Við þurfum að útrýma fjandsamlegri kynjahyggju eða kvenfyrirlitningu. Hvort sem um er að ræða ómeðvitað eða meðvitaða framkomu og hegðun þá tel ég að best sé að láta ekki hjá líðast að benda á það þegar við upplifum eða sjáum kvenfyrirlitningu. Orðið kvenfyrirlitning er orð sem er ansi þungt en við verðum að temja okkur að nota það og hafa þá í huga að hvort sem um er að ræða hverskonar mismunun eða fordóma þá er því best mætt með fræðslu, benda á birtingarmyndina þegar hún birtist því margir gera sér ekki grein fyrir því í eigin fari eða hegðun. Fræðum hvort annað, virðum hvort annað." sagði Jónína Brynjólfsdóttir.

Iryna Boiko, naglafræðingur sagði frá hvernig er að vera innflytjandi á Austurlandi, hvernig samfélagið á Borgarfirði tók við henni, tungumála hindranir og hvernig það var að byggja sér upp líf á Íslandi. Ra Tack, listakvár frá Belgíu, en hán fjallaði um "Beyond binaries" eða "handan kynjatvíhyggjunnar". Ra býr á Seyðisfirði og sagði frá kostum þess að búa í opnu og fordómalausu samfélagi sem og vegferð sinni í sjálfs skilgreiningu. Margaret Johnson, enskukennari við Menntaskólann á Egilsstöðum tók fyrir forréttindi og inngildingu þess að vera af erlendum uppruna.

Áþreifanleg samstaða iðaði um salinn og erindin höfðu djúp áhrif á rúmlega 200 konur og kvár í salnum. 

Ragna S. Óskarsdóttir fer með erindi í þéttskipuðum salnum
Ragna S. Óskarsdóttir fer með erindi í þéttskipuðum salnum
Getum við bætt efni þessarar síðu?