Fara í efni

Vorboðinn ljúfi er lentur í Hafnarhólma

19.04.2024 Fréttir Borgarfjörður

Vorboðinn ljúfi er lentur í Hafnarhólma á Borgarfirði.

Í kringum eitt þúsund lundar hafa snúið aftur í holurnar sínar í Hafnarhólma undanfarin kvöld en búist er við öðru eins næstu daga.

"Þetta hefur verið óvenjuseint í ár vegna mikillar kuldatíðar í apríl" segir Jón Þórðarson, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði en Borgfirðingar halda árlega upp á lundadaginn á Sumardaginn fyrsta.

Talið er að í Hafnarhólmanum verpi 8.000-10.000 pör og geldfuglar koma að varpinu síðar um sumarið. Hafnarhólminn státar sig af því að vera eina svæðið á Íslandi þar sem áhugasamir geta komist mjög nálægt fuglinum en fuglinn er óvenju gæfur og virðist ekki kippa sér mikið upp við myndatökur og aðdáun áhorfenda. Aðstaðan við Hafnarhólma til fuglaskoðunar er með eindæmum góð en búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús og þar er nú risið glæsilegt þjónustuhús með sýningarrými, veitingaaðstöðu, snyrtingum og aðstöðu fyrir sjómenn. Aðgangseyrir að fuglabyggðinni er valfrjáls en hægt er að nota QR kóða á upplýsingaskilti við Hafnarhólmann til frjálsra framlaga.

Lundinn er sjófugl af ætt svartfugla og þeirra algengastur við strendur Íslands. Svartfuglum á norðurhveli jarðar svipar nokkuð til mörgæsa á suðurhveli, að líkamsbyggingu og litasamsetningu. Lundinn verpir einungis einu eggi á ári og ala pörin unga sinn upp í holunni yfir sumartímann og þjálfa í 8 mánuði á opnu hafi yfir veturinn. 

Vorboðinn ljúfi er lentur í Hafnarhólma
Getum við bætt efni þessarar síðu?