Fara í efni

Snorrasjóður - úthlutun

Kristján Ingimarsson formaður stjórnar Snorrasjóðs afhenti styrkinn.
Kristján Ingimarsson formaður stjórnar Snorrasjóðs afhenti styrkinn.

Síðast liðinn föstudag fór fram úthlutun úr Snorrasjóði og er þetta í þriðja sinn sem styrkur er veittur úr sjóðnum.

Snorrasjóður var stofnaður árið 2019 að frumkvæði Gunnþóru Gísladóttur frá Papey til minningar um Snorra Gíslason bróður hennar og tilgangur sjóðsins er að styrkja ungt fólk úr Djúpavogshreppi til náms. Úr sjóðnum eru veittar 500.000 kr. einum nemanda einu sinni á ári. Að þessu sinni var það Guðjón Rafn Steinsson sem hlaut námsstyrkinn en hann stundar nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.


Snorri Gíslason frá Papey fæddist 4. ágúst 1915. Snorri var mikill hagleiksmaður og byrjaði hann snemma að smíða ýmsa muni svo sem húsgögn og ýmislegt smálegt. Snorri fékkst lengi vel við að smíða líkön af bátum og voru þeir eftirsóttir vegna þess hversu vandaðir þeir voru. Fínleiki bátanna vakti athygli en allt var handunnið, möstrin mótuð með hefli og sandpappír og voru bátarnir nákvæm eftirmynd af bátum í fullri stærð.

Snorri var 10 ára gamall þegar hann fór fyrst í land. Þá var farið á árabát. Pabbi hans og Ingólfur bróðir reru, þetta var ullarferð að sumarlagi, verið að skila ullinni til innlagnar á Djúpavog og Snorri fékk að fara með. Þegar í land var komið fékk Snorri að fara í verslunina þar sem hann gat keypt gráfíkjur og kandís. Eftir þetta fór Snorri einu sinni eða tvisvar í land fyrir fermingu.

Upp úr 1940 tók Snorri til við að setja upp vindrellu í Papey og setti hann svo upp hleðslustöð og lagði rafmagn í húsið. Með þessari framkvæmd varð Papey eitt af fyrstu húsunum á Djúpavogi sem fékk rafmagn.

Snorri fluttist í land árið 1949 þá 34 ára gamall og settist að í húsi sem ber sama nafn og bærinn í Papey, Bjarg. Seinna meir festi hann sólarrafhlöðu utan á húsið þar sem hann safnaði rafmagni til heimilisnota.

Snorra féll sjaldan verk úr hendi og hann var að vinna við endurbætur á húsinu sínu eða smíða skipslíkön fram á síðustu ár.

Snorri lést á hjúkrunarheimilinu á Höfn 29. júní 2014 á nítugasta og níunda aldursári.


Getum við bætt efni þessarar síðu?