Fara í efni

Ertu ekki til í smá BRAS?

24.08.2022 Fréttir

BRAS, árleg menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, fer fram í fimmta sinn í ár og hefst í þessari viku.

Þema BRAS í ár er sjálfsmynd ungs fólks og ber hátíðin nafnið Ég um mig frá mér til þín, enda verður áhersla lögð á einstaklinginn og hvernig hann samsamar sig við aðra. Forsvarsmönnum hátíðarinnar þótti mikilvægt að hvetja ungt fólk til samveru, sérstaklega eftir að heimsfaraldurinn varð þess valdandi að við dvöldum meira og minna ein heima við og því mikilvægt að rifja upp að maður er manns gaman. Viljum við því hvetja íbúa til að gera sér dagamun og sækja smiðjur og sýningar í nærliggjandi byggðakjörnum með unga fólkinu sínu.

Menningarhátíðin BRAS er haldin í góðu samstarfi menningarmiðstöðva á Austurlandi, skóla og skólafólks, Listar fyrir alla, Minjasafns Austurlands og fleiri aðila. Sérstök áhersla í ár er samstarf við austfirska listamenn er bjóða börnum og ungmennum upp á opnar smiðjur í öllum byggðarkjörnum á svæðinu. Listamennirnir og smiðjurnar eru af fjölbreyttum toga og áhugasamir hvattir til að fylgjast með. Um er að ræða klippimyndasmiðju, náttúrubras, brúðugerð, sirkussmiðju, gjörninga, myndlistarsmiðju og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Snemma á þessu ári var ákveðið af stýrihópi BRAS að fá listamenn, sem búsettir eru á svæðinu, til að útbúa veggspjöld til að kynna hátíðina. Í ár urðu fyrir valinu Arndís Ýr Hansdóttir (Dæja) og Austin James Thomasson, myndlistar- og samstarfsfólk sem býr til skiptis á Seyðisfirði og í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að halda þessum nýja sið áfram og nýir listamenn fengnir til að myndskreyta kynningarefni hátíðarinnar ár hvert. Veggspjöldum verður dreift um allt Austurland og hvetjum við íbúa til að kynna sér dagskrána og til að taka þátt með börnum og ungmennum fjórðungsins.

Dagskrána má nálgast á BRAS.is og Facebooksíðu BRAS en þar bætast reglulega við nýir viðburðir og fréttir.

Ertu ekki til í smá BRAS?
Getum við bætt efni þessarar síðu?