Fara í efni

Fiskisúpa- ljósmyndasósa

23.08.2022 Fréttir

Fiskisúpa- ljósmyndasósa er viðburðaröð á Seyðisfirði sem bíður ljósmyndurum og listamönnum að kynna verk sín yfir heitri máltíð og spjalli.

Fyrsti viðburðurinn var haldinn síðastliðinn föstudag þar sem virti ljósmyndarinn Zuzanna Szarek sýndi verk sín yfir súpu og brauði í Herðubreið. Markmiðið er að skapa huggulegt andrúmsloft þar sem hægt er að skiptast á skoðunum og þekkingu varðandi menningu og sköpun auk þess að auka aðgengi að ljósmyndaverkum hverskonar. Markmiðinu var svo sannarlega náð og var sérlega vel mætt í Herðubreið.

Leikurinn verður nú endurtekinn því Hlynur Pálmason mun sýna og ræða um verk sín næstkomandi föstudag í Ströndin Studio kl. 17:30. Hlynur Pálmason er Hornfirskur kvikmyndagerðarmaður sem leikstýrði kvikmyndinni Hvítur, Hvítur Dagur og bíður nú þess að frumsýna nýja kvikmynd; Volaða Land með Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson í aðalhlutverkum.

Stuttmyndin The Nest eða Hreiður sem kom út nýlega verður sýnd auk ljósmynda eftir Hlyn; súpa og sérlega gott spjall verður í boði. Nánari upplýsingar um viðburðarröðina má nálgast á Facebooksíðunni Fiskisúpa- ljósmyndasósa. Verkefnið er styrkt af Menningarsjóð Múlaþings og unnið í samstarfi við Herðubreið, Ströndin Studio og Skaftfell.

Fiskisúpa- ljósmyndasósa
Getum við bætt efni þessarar síðu?