Fara í efni

Forvarnardagur Múlaþings 2025; Fræðsla, þátttaka og gleði

15.05.2025 Fréttir

Föstudaginn 9. maí síðastliðinn var hinn árlegi forvarnardagur haldinn fyrir nemendur í 8.–10. bekk í grunnskólum Múlaþings.

Markmið dagsins var að efla vitund ungmenna um forvarnir, virðingu, fjölbreytileika og sjálfsstyrkingu í nútímasamfélagi og gera það á áhrifaríkan og skemmtilegan hátt.

Hópefli og samvera

Deginum var ýtt úr vör í Tjarnargarðinum með hópeflisleikjum sem starfsfólk félagsmiðstöðva Múlaþings stýrði. Þar tóku ungmennin virkan þátt í morgunsólinni, sem skapaði jákvæða stemningu inn í daginn, stuðlaði að tengslum og opnaði þannig daginn á léttum nótum.

Fjölbreytt og öflug fræðsla

Að því loknu tóku nemendur þátt í þremur mismunandi fræðsluerindum og smiðjum sem fólu í sér dýpri umræðu um forvarnarmál og samfélagsleg málefni sem snerta ungt fólk í dag:

Fokk me, Fokk you

Kári Sigurðsson og Andrea Marel fjölluðu á áhrifaríkan hátt um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Með stuðningi raunverulegra dæma, skjáskotum og reynslusögum vörpuðu þau ljósi á hvernig ungt fólk getur styrkt sjálfsmynd sína, sett mörk og brugðist við neikvæðri hegðun og ofbeldi og þá bæði stafrænu sem og í eigin persónu.

Reynsla af fordómum,  persónuleg sýn og samfélagsleg áhrif

Í þessari smiðju deildi Miriam Petra Ómarsdóttir Awad persónulegri reynslu sinni af fordómum og hatursorðræðu. Hún hvatti til einlægs samtals um áhrif slíkra viðhorfa og hvernig þau móta líðan, tengsl og sjálfsmynd. Erindið hafði djúpstæð áhrif á þátttakendur og skapaði rými fyrir opna umræðu um samkennd, ábyrgð og virðingu.

Að vera, að þora, að vaxa; Hinsegin vegferð sjálfsins

Helgi Ómarsson stýrði smiðju þar sem rætt var um sjálfsmynd, kynvitund, væntingar samfélagsins og hvernig við speglum okkur í umhverfinu. Smiðjan gaf þátttakendum einstakt tækifæri á að dýpka skilning sinn á hinsegin baráttunni, sömuleiðis til sjálfsskoðunar og vaxandi meðvitundar um eigin styrk.

Samvera og skemmtun

Í hádeginu gæddu þátttakendur sér á grilluðum pylsum á torgi Egilsstaðaskóla.

Að lokinni dagskrá var sumar ball fyrir miðstig Nýungar og um kvöldið var Rave-ball þar sem ungmenni Múlaþings dönsuðu og skemmtu sér saman.

Forvarnardagurinn 2025 var einstaklega vel heppnaður og starfsfólk Múlaþings er sammála um mikilvægi slíkra viðburða. Það ríkir strax hlökkum til næsta árs og því er fagnað að skapað sé öruggt og eflandi rými fyrir unga fólkið í sveitarfélaginu.

Forvarnardagur Múlaþings 2025; Fræðsla, þátttaka og gleði
Getum við bætt efni þessarar síðu?