Fara í efni

Frá almannavarnarteyminu - ekkert virkt covid smit

07.12.2020 Fréttir

Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi.

Aðgerðastjórn hefur á fundum sínum nýverið fjallað um möguleikann á að haldnar verði áramótabrennur í umdæminu. Í ljósi aðstæðna og gildandi takmarkana beinir aðgerðastjórn því til sveitarfélaga á svæðinu að ekki verði haldnar áramótabrennur þetta árið.

Fyrirspurnum hefur verið beint til aðgerðastjórnar um mögulega opnun skíðasvæða. Hún bendir á að reglur um íþróttaiðkun eigi við um skíðaiðkun einnig á skíðasvæðum. Ekki er því að sjá að þau geti opnað að óbreyttu.

Aðgerðastjórn bendir og á að í gegnum COVID mistrið megi nú glitta í fast land. Óvíst er þó hversu löng sigling er eftir. Þrautseigja og þolgæði okkar skipverja eru því ágæt einkunnarorð að styðjast við í þeirra stöðu. Því áréttar stjórnin hefðbundna möntru sína um að gæta að persónubundnum sóttvörnum, huga að fjarlægðarmörkum og grímunotkun, handþvotti og sprittun.

Höldum siglingunni áfram, gætum að skerjum og komumst þannig saman að landi heil og ósködduð.

Ljósmynd Jón Halldór Guðmundsson
Ljósmynd Jón Halldór Guðmundsson
Getum við bætt efni þessarar síðu?