Fara í efni

Frá kumlum til stríðsminja: Umfangsmikil fornleifarannsókn í Firði – leiðsögn og fyrirlestur

Perlur úr kumli þar sem kona var grafin.
Perlur úr kumli þar sem kona var grafin.

Fornleifauppgröftur í landi Fjarðar á Seyðisfirði heldur áfram þriðja sumarið í röð og fornleifafræðingar eru mættir á svæðið. Rannsóknin spannar allar aldir byggðar á Íslandi, frá landnámi til 20. aldar og er því afar umfangsmikil. Í fyrra var samkvæmt áætlun grafið upp bæjarstæði sem fór undir snjóflóð árið 1885 og fundust þar nokkur byggingarstig frá því fyrir og eftir hamfarirnar. Einnig voru grafin upp fjárhús og mylla, auk þess sem allar minjar á svæðinu voru mældar upp og skráðar.

 

Kuml grafið upp, september 2021

Uppgröfturinn tók síðan ævintýralega stefnu síðsumars þegar óvænt kom í ljós kumlateigur með fjórum kumlum eða grafreitum frá heiðnum tímum. Þar voru grafnir fjórir einstaklingar með nokkuð ríkulegum búnaði og má ætla að hin látnu hafi tengst bænum Firði þar sem landnámsmaðurinn Bjólfur er talinn hafa búið. Samfelld búseta hefur verið í Firði frá landnámsöld til 20. aldar og í sumar verður grafið í hinn forna bæjarhól. Ljóst er að hann er miklu stærri en upphaflega var talið og minjarnar ná yfir stórt svæði. Rannsóknin hefur því vaxið mikið frá því uppgröftur hófst sumarið 2020.

Fornleifafræðingar verða með leiðsögn við uppgröftinn í hverri viku og hefst leiðsögnin 16. júní klukkan 14 og verður eftir það á sama tíma á hverjum föstudegi. Einnig flytur Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og stjórnandi fyrirlestur um fornleifarannsóknina fyrir bæjarbúa og aðra sem áhuga hafa. Fyrirlesturinn verður haldinn í Herðubreið þann 28. júní klukkan 17:30.

 

Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur með leiðsögn.

 

Minjarnar munu hverfa undir snjóflóðavarnargarða en verða rannsakaðar vandlega áður þannig að hægt sé að miðla sögunni.

Fornleifarannsóknin fer fram á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins og Múlaþings og annast fyrirtækið Antikva ehf. hana undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur. Fjöldi fornleifafræðinga og annarra sérfræðinga starfar við rannsóknina.

Facebooksíða Fjörður - Seyðisfjörður fornleifar


Getum við bætt efni þessarar síðu?