Fara í efni

Framkvæmdafréttir frá Borgarfirði eystri

Framkvæmdir á fullu
Framkvæmdir á fullu

Framkvæmdagleðin hefur verið ríkjandi á Borgarfirði eystri í sumar og eru enn fleiri verkefni í farvatninu.

Eftir nokkurra ára hlé í nýbyggingum er nú mikill áhugi á nýjum lóðum og var sex lóðum úthlutað af umhverfis- og framkvæmdaráði snemma í vor. Hart var barist um sumar lóðirnar og þurfti að varpa hlutkesti til þess að skera úr um lóðahafa. Á fjórum lóðum eru framkvæmdir hafnar og tvö hús komin mjög langt. Vert er að benda á að enn eru lausar lóðir undir einbýlishús við Bakkaveg með 80% afsláttætti af gatnagerðargjaldi.

Borgarfjarðarhreppur hóf framkvæmdir við byggingu tveggja parhúsa í fyrra haust og fluttu fyrstu leigjendurnir inn í sumar. Framboð leiguhúsnæðis á Borgarfirði hefur verið mjög lítið undanfarin ár og eru þessi hús því kærkomin viðbót í bæjarfélaginu. Einnig var skipt um glugga og hurðir í tveimur parhúsum sem sveitarfélagið leigir út.

Íbúar og húseigendur eiga einnig hrós skilið en þeir hafa margir hverjir látið hendur standa fram úr ermum þegar kemur að viðhaldi og eru mörg hús orðin nýklædd eða máluð. Má í því ljósi sérstaklega nefna Gamla Kaupfélagið sem hefur fengið mikla andlitslyftingu síðustu misseri.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu iðnaðarhúsnæðis í landi Geitlands fari af stað nú í haust þar sem reisa á vatnsátöppunarverksmiðju. Einnig er stefnt að frekari uppbyggingu við Gistiheimilið Blábjörg þar sem byggja á nýtt gisti- og þjónustuhús við hlið núverandi húsnæðis.

Síðan en ekki síst ber að nefna framkvæmdir á vegum Ungmennafélags Borgarfjarðar við uppsetningu á glænýjum ærslabelg þar sem ungir og aldnir Borgfirðingar geta hoppað og skoppað að vild.

Framtíðin er svo sannarlega björt á Borgarfirði eystri.

 

 

 


Getum við bætt efni þessarar síðu?