Fara í efni

Frelsi afhjúpað í dag!

10.07.2021 Fréttir

Frelsi

Höfundur listaverksins Frelsi: Sigurður Guðmundsson

Afhjúpað: 10. júlí 2021, kl. 14:30 af forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur, við Löngubúð á Djúpavogi

Með verkinu Frelsi vonast sveitarfélagið Múlaþing til að persónu Hans Jónatans, afkomenda hans á Íslandi og sögu þrælanna, sem knúðu fram réttlætið, verði minnst.

 

Hans Jónatan

Karabíski þrællinn sem varð verslunarstjóri á Djúpavogi.

Fæddur: 5. júlí 1784 á Constitution Hill á Dönsku Jómfrúareyjunni St. Croix.

Dáinn: 18. desember 1824 í Borgargarði, Djúpavogi.

Leysinginn, Hans Jónatan, tengir Ísland sterkari böndum en nokkur annar við sögu þrældóms á síðustu öldum. Hann var fæddur í þrældóm því móðir hans var ambátt ættuð frá Afríku, faðirinn var hvítur, líklega danskur. Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigenda sinna Schimmelmannhjónanna, sem þá voru flutt til Danmerkur frá St. Croix. Hann gat sér gott orð í orrustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 og barðist sem háseti um borð í skipinu Charlotte Amalie. Fyrir vasklega framgöngu fékk Hans Jónatan loforð Friðriks, krónprins Dana, um lausn úr ánauð sinni. Það dugði þó ekki til. Eigandi hans höfðaði sögulegt mál til að staðfesta eign sína á Hans Jónatan og vann málið. Hans Jónatan sætti sig ekki við niðurstöðuna, kaus frelsi og strauk árið 1802. Hann settist loks að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum og gerðist bóndi.

Íslendingar tóku Hans Jónatan vel og hann reyndist góður þegn. Ekkert bendir til að hann hafi liðið fyrir dökkan hörundslit eða uppruna sinn í þrældómi. Afkomendur Hans Jónatans og eiginkonu hans, Katrínar Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, hafa dreifst um allan heim og teljast nú um eitt þúsund.

 

Tilurð verksins

Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og formaður safnaráðs, er hvatamaður verksins Frelsi.

Áhugi hans á sögu þrælsins kviknaði þegar hann dvaldi þrjú sumur sem ungur drengur hjá ættingjum í Sjólyst sem voru og eru afkomendur Hans Jónatans.

Gísli Pálsson mannfræðingur sagði sögu Hans Jónatans í bókinni Maðurinn sem stal sjálfum sér. Þar tókst Gísla að fylla upp í margar þær eyður sem vantaði.

Hugmynd verksins Frelsi mótaðist svo fyrir alvöru sumarið 2020 með þingsályktunartillögu Vilhjálms Bjarnasonar. Þar ályktaði hann Alþingi að fela ríkisstjórninni að setja upp minnismerki til minningar um Hans Jónatan, þræl sem kaus frelsið. 17. júní 2020 hitti Vilhjálmur Sigurð Guðmundsson fyrir tilviljun þar sem hann viðraði hugmyndina við listamanninn og bað hann að leggja höfuð í bleyti. Sigurður kom því næst með hugmynd af verki og sýndi Vilhjálmur forsætisráðherra módel af verkinu. Forsætisráðherra var hrifinn og hét því að stuðla að framgangi verksins.

 

Heildarkostnaður verksins Frelsi hljóðar upp á 6 milljónir íslenskra króna

Ríkisstjórn lagði til 3 milljónir króna

Fiskeldi Austfjarða lagði til 2 milljónir króna

Hlutabréf í FRELSINU seld fyrir 50 þúsund krónur hvert til velunnara verksins

Kostnaður við uppsetningu og undirbúning verksins var í höndum Múlaþings

 

*Heimildir og myndir fyrir þessa samantekt voru fengnar frá Helga Má Reynissyni afkomanda Hans Jónatans, ættarvef Hans Jónatans og Vilhjálmi Bjarnasyni.

Frekari upplýsingar og fróðleik um Hans Jónatan má finna á ættarvefnum sem afkomendur hans halda úti.

 

Afkomendur Hans Jónatans eru um 1000 manns.
Afkomendur Hans Jónatans eru um 1000 manns.
Getum við bætt efni þessarar síðu?