Fara í efni

Friðlýsing verndarsvæðis norðan Dyrfjalla

30.06.2021 Fréttir

Föstudaginn 2. júlí klukkan 15:00 mun umhverfis- og auðlindaráðherra undirrita friðlýsingu jarðanna Hrafnabjarga, hluta Sandbrekku, Unaóss og Heyskála á Úthéraði.

Athöfnin fer fram á bökkum Selfljóts í landi Hrafnabjarga og jafnframt verður skrifað undir samstarfssamning Umhverfisstofnunar við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs sem mun fara með eftirlit með friðlýsta svæðinu. Innan verndarsvæðisins er náttúruvættið Stórurð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og sérstætt landslag á svæðinu.

Eftir athöfn er gestum boðið í göngu að Hrafnabjörgum undir leiðsögn Þórdísar Kristvinsdóttur. Gönguleiðin er afar falleg og liggur inn Urðirnar eftir gömlum sýsluvegi inn með Selfljóti að Hrafnabjörgum. Landeigendur munu bjóða upp á kaffihressingu heima á hlaði. Gangan að Hrafnabjörgum tekur um 45 mínútur og er heimferð áætluð kl. 18:00.

Boðið er upp á sætaferðir frá húsnæði Ferðafélagsins, Tjarnarási 8 á Egilsstöðum - brottför er klukkan 14:15 föstudaginn 2. júlí næst komandi. Skráningar í rútuferðina berist á netfangið ferdaf@ferdaf.is fyrir klukkan 16:00 fimmtudaginn 1. júlí. Athugið að sætaframboð er takmarkað.

Öll velkomin!

 

Friðlýsing verndarsvæðis norðan Dyrfjalla
Getum við bætt efni þessarar síðu?