Fara í efni

Fuglateiknismiðjur á BRAS

14.10.2021 Fréttir

BRAS- menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi er nú haldin í fjórða sinn og um allt Austurland. Í ár tengist þema BRAS náttúrunni og umhverfisvernd, en yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er unga fólkið og umhverfið og byggir á 24.grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Viðburðir BRAS eru ýmist opnir eða lokaðir og þá unnir í samstarfi við leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla á svæðinu auk menningarmiðstöðvanna þriggja; Skaftfells á Seyðisfirði, Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum og Menningarstofu Fjarðabyggðar í Fjarðabyggð.
Múlaþing bauð nýverið börnum og fjölskyldum þeirra upp á opnar fuglateiknismiðjur í öllum byggðarkjörnum Múlaþings þar sem þátttaka var endurgjaldslaus og öllum opin.

 

Smiðjurnar fóru fram dagana 5.-9.október 2021 og má með sanni segja að þær hafi verið vel sóttar, en hátt í 100 börn og þeirra aðstandendur sóttu smiðjurnar. Fuglateiknararnir Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring buðu þátttakendum upp á margvíslegar fuglateikniæfingar þar sem þátttakendur tengdust fuglum náttúrunnar í gegnum snarpar og skapandi stöðvaþrautir. Engrar teikni- né fuglakunnáttu var þörf fyrir smiðjurnar og var sérlega skemmtilegt að sjá fjölbreytta fugla – og furðufugla- fæðast í höndum þátttakenda.

Þeim Rán og Elínu, auk allra þátttakenda, er þakkað fyrir skemmtilegar smiðjur og listræn innlegg!

 

 

Fuglateiknismiðjur á BRAS
Getum við bætt efni þessarar síðu?