Nú liggur fyrir tillaga að fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir árið 2026 auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2027 – 2029. Þá eru einnig búið að leggja fram markmið um helstu fjárfestingarverkefni sveitarfélagsins næstu 10 árin og forgagnsröðun þeirra í tímaröð. Áætlað er að seinni umræða um fjárhagsáætlun fari fram 10. desember næstkomandi.
Fjárhagsáætlun er lykilskjal hvers sveitarfélags því það er stefnumarkandi um hvernig við ætlum að tryggja traustan rekstur, góða þjónustu og áframhaldandi uppbyggingu í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Þessi áætlun byggir á þeirri stefnu að reka sveitarfélagið af ábyrgð, án þess að þó að slá af uppbyggingu eða þjónustu.
Rekstur og afkoma
Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í samstæðu A- og B-hluta upp á 912 milljónir króna. Það er bætt niðurstaða miðað við útkomuspá ársins 2025, þar sem afkoman var áætluð 473 milljónir árið 2026.
A-hluti stendur sérstaklega sterkur, með 348 milljóna jákvæða niðurstöðu sem er mikill viðsnúningur frá 164 milljóna halla árið 2025.
Framlegðin nemur 11,1% í A-hluta og 17,1% í samstæðu, og skuldaviðmiðið er 86,3%, sem er vel innan við lögbundin mörk.
Við umfjöllun á áætluninni sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings að „fjárhagsáætlun fyrir 2026 og til næstu þriggja ára sýnir fram á að rekstur Múlaþings er stöðugur, áætlunin raunhæf og fjármálastýringin öflug. Við höfum svigrúm til framkvæmda, án þess að grafa undan stöðugleikanum.“
Þegar litið er til þriggja ára áætlunar þá er hún byggð á grunni áætlunar 2026 og að óbreyttu mun rekstargrunnur A hluta styrkjast á næstu árum sem skapar tækifæri til öflugri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. En hafa ber í huga að áreiðanleiki áætlunarinnar byggist á hvernig stöðu þjóðarbúsins vindur fram.
Tekjur og forsendur
Heildartekjur samstæðunnar nema 12,5 milljörðum króna á árinu 2026.
Af því eru útsvarstekjur 4,6 milljarðar, fasteignaskattar 1,02 milljarður og framlög úr Jöfnunarsjóði 3,54 milljarðar, sem er 19,6% hækkun frá fyrra ári.
Þar af eru 88 milljónir vegna sameiningarframlags en það er síðasta árið sem það framlag er greitt til sveitarfélagsins.
„Við höfum ákveðið að lækka fasteignaskatta, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, en það er gert til þess að bregðast við hækkandi fasteignamati og létta undir hjá heimilum og fyrirtækjum“ sagði Dagmar Ýr.
Gjöld og launakostnaður
Laun og launatengd gjöld nema 6,6 milljörðum króna á samstæðugrundvelli, sem er 5,7% hækkun. Þetta endurspeglar fyrst og fremst áhrif nýrra kjarasamninga og launaþróunar.
Vexti gjalda hefur þó markvisst verið haldið í hófi og áætlunin tryggir að hlutfall launakostnaðar af rekstrartekjum verði áfram innan ásættanlegra marka.
Fjárfestingar og uppbygging
Árið 2026 verða nettó fjárfestingar alls 1.472 milljónir króna, og yfir tímabilið 2026–2029 eru þær áætlaðar 7,6 milljarðar.
Hér er um að ræða fjölmargar framkvæmdir sem skipta samfélagið máli og þar á meðal má nefna:
- Ofanflóðavarnir undir Bjólfinum á Seyðisfirði: 550 milljónir, með 90% mótframlagi frá ríki.
- Safnahús og sviðslistahús á Egilsstöðum: 276 milljónir árið 2026.
- Grunnskóli Seyðisfjarðar: 95 milljónir á næsta ári, samtals 795 milljónir til 2029.
- Leikskóli og þjónustumiðstöð á Djúpavogi: samtals 210 milljónir króna.
- Gatnagerð og innviðir: 145 milljónir.
- Stofnframlög til nýrra leiguíbúða: 45 milljónir.
Þetta eru verkefni sem ná til allra byggðakjarna og styrkja sveitarfélagið í heild.
Fjárhagsáætlun endurspeglar sterka stöðu Múlaþings
Fjárhagsáætlun 2026–2029 sýnir sterka stöðu Múlaþings. Skuldahlutfall hefur verið lækkað, framlegð aukin og tryggt hefur verið að öll fjármálaviðmið séu innan marka.
Fjárfest er í framtíðinni, án þess að ganga of nærri rekstrargrundvellinum.
Að lokum vill sveitarsjóri þakka stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vandaða vinnu við undirbúning þessarar áætlunar, og kjörnum fulltrúum fyrir málefnalega samvinnu.
,,Við höfum sameiginlegt markmið en það er að tryggja að Múlaþing verði áfram sterkt, faglegt og framsækið sveitarfélag þar sem fólk vill búa, vinna og taka þátt.“